02.05.2011
Á Hamingjudögum 2011 verður sérstök áhersla lögð á að íbúar á Ströndum og nágrenni fái tækifæri til að finna og rækta innri hamingju. Hátíðin í ár verður því með örlítið breyttu sniði þar sem stefnt er að því að bjóða upp á ýmis námskeið sem tengjast sérstaklega viðfangsefni hátíðarinnar - hamingjunni einu og sönnu.
Eitt af þeim námskeiðum sem boðið verður upp á er frábært námskeið undir stjórn Ástu Valdimarsdóttur hláturjógakennara. Ásta Valdimarsdóttir lærði hláturjóga í Noregi 2001 og hefur síðan haldið marga fyrirlestra og námskeið um fyrirbærið á Íslandi og í Noregi. Námskeiðið fer fram þriðjudaginn 28. júní, hefst kl. 19:00 og tekur þrjá tíma. Tilgangurinn með því er að efla og styrkja líkama, huga og sál. Hláturjóga er blanda af hláturæfingum og jógaöndun.