Uppbrotsdagar og aðrir viðburðir
Grunnskólinn á Hólmavík
STEAM og útikennsla: Aukin áhersla er á útikennslu sem er í samræmi við óskir nemenda á nemendaþingi vor 2025.
STEAM áhersla er samhliða styrking á list- og raungreinaverkefnum og fléttast inn í þemaverkefni
Litlu jól grunnskóla: Sýnd verða atriði á sviði sem eru áður undirbúin af hverri bekkjardeild. Umsjónarkennari stýrir þeirri vinnu. Elstu nemendur leikskóla taka þátt og sýna atriði í dagskrá. Nemendur í 7. bekk sjá um að kynna skemmtiatriði. Nemendur í 10. bekk sjá til þess að jólasveinar mæti á staðinn og taka þátt í að skreyta jólatréð. Gengið er í kringum jólatréð og sungin jólalög.
Íþróttadagar og lýðheilsudagur: Foreldrum er boðið til þátttöku í heilsu- og íþróttatengdum viðburðum og ýmsum hreyfiverkefnum með nemendum.
Útivist og gönguferðir í upphafi og lok skólaárs: Markmiðið með gönguferðunum er hópefli og sjálfstyrking.
Púkinn, Barnamenningarhátíð Vestfjarða: Nemendur taka þátt.
Framhaldsskólakynningar: Nemendur hafa fengið leyfi til að fara með foreldrum sínum á kynningar hjá þeim framhaldsskólum sem þau hafa áhuga á. Skólarnir hafa verið með kynningar á misjöfnum tíma. Nemendur fá aðstoð við að leita upplýsinga. Skólinn fylgir nemendum á sameiginlega kynningu framhaldsskólanna þegar hún býðst.
Skólabúðir: 7. bekkur fer í skólabúðir í Reykjaskóla á sama tíma og samstarfsskólarnir á Reykhólum og í Búðardal. Kennari fer með hópunum og stuðningsfulltrúi ef þess gerist þörf.
Umhverfisdagur: Er þemadagur umhverfisins og þá er sett upp dagskrá með fræðslu og leik sem tengist umhverfinu. Oft er öðrum skólum boðið að taka þátt eða foreldrum og öðrum íbúum á svæðinu. Á þessum degi er reynt að skila einhverju af sér til umhverfisins. Einnig hefur verið farið í náttúru og umhverfisskoðun,ratleiki og náttúrubingó. Allir nemendur eru saman og leikskólinn tekur líka þátt. Skóladegi allra lýkur við lok skóladags yngstu nemenda.
Samskiptadagur heimila og skóla verða 12. nóvember, 11. febrúar verða nemendastýrð foreldraviðtöl og 20. maí verða foreldraviðtöl. Viðtöl eru 20 mínútur. Sé þörf á lengri tíma koma viðmælendur sér saman um hann. Nemendastýrð foreldraviðtöl eftir leiðsagnarmat er í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla.
Umsjónarkennarar sjá um foreldraviðtöl að hausti og vori en skólastjóri og annað starfsfólk sér um nemendaþing á meðan. Nemendastýrð foreldraviðtöl verða nú á einum degi í stað þess að þeim sé dreift yfir vikuna. Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að mæta í nemendastýrðu viðtölin þar sem nemendur eru búnir að undirbúa sig vel og rækilega og æfa kynningu fyrir foreldra.
Á nemendaþingi að hausti verður fjallað um Betri skóla og að vori er nokkurs konar uppgjör á vetrarstarfinu. Hugmyndavinna fer fram á á báðum þingum.
Styttri dagar
Stofujól: Síðasti dagur fyrir jól. Nemendur mæta í skólann klukkan 11:00 með eitthvert góðgæti stundum með kerti og litlar gjafir. Róleg stund í hverri bekkjardeild, nemendur fá jólakveðju frá bekkjarfélögum, umsjónarkennari sér um stofujól. Stofujólum lýkur klukkan 12:00 og um leið hefst jólafrí.
Vordagur: Er dagur með leikjadagskrá og grilli sem stendur yfir frá klukkan 10:00. Keppt er um sterkasta nemanda skólans, grillaðar pylsur og djús í boði, andlitsmálun, sápukúlur, tónlist, leikir og þrautir. Allir eru velkomnir en nemendur leikskólans eru sérstaklega boðnir. Vordagur er haldinn við Grunnskólann
Öskudagur: Kennarar aðstoða nemendur við að undirbúa sig 10:10-11:30, æfa söng, mála, greiða, búa sig og skipta í hópa. Eftir hádegismat fara nemendur í fylgd kennara og starfsfólks að syngja í fyrirtækjum. Skóla lýkur klukkan 13:30 og þá taka foreldrar við umsjón barnanna. Hefðbundið er öskudagsball foreldrafélagsins.
Leikskólinn Lækjarbrekka
Leikskólinn er lokaður alla helgidaga. Auk þess er hann lokaður bæði aðfangadag og gamlársdag.
Fyrir jól er hefðbundið leikskólastarf brotið upp og unnið er að margskonar jólaundirbúningi. Í kringum jól og áramót snýst leikskólastarfið að nokkru leyti um aðventuna og þær hefðir og siði sem fylgja jólahaldi. Í desembermánuði eru jólalögin sungin, jólasögur lesnar og föndrað fyrir jólin.
Margar hefðir hafa skapast í leikskólanum í kringum jólin sem við höldum í heiðri, en þær eru:
- Piparkökubakstur og skreyting: Öll börnin koma að piparkökubakstri og skreyta nokkrar piparkökur sem þau taka heim með sér.
- Jólaverkstæði: Foreldrum og systkinum er boðið að koma í leikskólann á misjöfnum tíma og taka þátt í jólaföndri barna sinna. Þar koma saman börn og fullorðnir og njóta stundarinnar saman undir lágværri jólatónlist. Ákveðin verkefni eru í boði en ef stundin reynist barninu erfið er einnig í boði að taka efni í jólaverkefni með heim. Foreldrum er boðið upp á kaffi og í boði eru piparkökur og mandarínur.
- Bíódagur: Þennan dag fá börnin að horfa saman á einhverja góða jólamynd og gæða sér á poppi og djús.
- Jólaljósaferð: Elsti árgangur leikskólans ásamt starfsmanni fer með skólabílnum sem ekur um Hólmavík. Tilgangurinn er sá að skoða jólaljósin í bænum og vinna myndrænt með upplifunina.
- Jólaball: Þegar jólaballið er haldið koma allir prúðbúnir í leikskólann. Dansað er í kringum jólatréð við hljóðfæraleik og ef vel gengur að syngja koma rauðklæddir herramenn í heimsókn með gjafapoka. Þegar dansinum er lokið fáum við jólamat að borða.
Bóndadagur: þá er haldið þorrablót. Í Dvergakoti er sett upp langborð og stúlkurnar þjóna til borðs. Á borðum er hefðbundinn þorramatur og er íslensk matarhefð höfð í hávegum þennan dag.
Dagur leikskólans: hefur verið haldin hátíðlegur í febrúar undanfarin 10 ár. Þá er foreldrum boðið að snæða morgunverð með börnum sínum í leikskólanum og fylgja þeim eftir í leik og starfi. Dagur leikskólans miðar að því að opna og kynna starfsemi leikskólanna fyrir almenningi og því kjörið að nota þennan dag til að bjóða foreldrum sérstaklega inn í leikskólann.
Bolludagur, sprengidagur og öskudagur:
- Bollur eru þema bolludags og eru borðaðar fiski- eða kjötbollur í hádeginu. Einnig er boðið upp á rjómabollur.
- Á sprengidegi fáum við saltkjöt og baunir og reynum að sjálfsögðu að sprengja okkur þann daginn.
- Á öskudegi geta börnin ýmist komið í náttfötum eða grímubúningum. Við höldum ball og sláum köttinn úr tunnunni. Í tunnunni er góðgæti í boði leikskólans.
Konudagur: Á föstudegi fyrir konudag er sett upp langborð Í Dvergakoti og drengir þjóna til borðs.
Páskar: Leikskólinn er lokaður alla helgidaga. Páskahátíðin er undirbúin með þemavinnu og sköpun.
Sveitaferð: Að vori til fara öll börn leikskólans í sveitaferð. Skólabíllinn keyrir hópinn fram og tilbaka. Eldri og yngri deild fer í tveimur ferðum sitthvorn daginn. Markmið ferðarinnar er að börnin fái að sjá dýrin í sveitinni og fái tækifæri til að upplifa sauðburð. Sveitaferð hefur verið færð framar í maí til að börnin eigi möguleika á að ná sauðburð
Grilldagur: Leikskólinn er lokaður alla helgidaga. Auk þess er hann lokaður bæði aðfangadag og gamlársdag.
Útskrift og opnun listasýninga: Útskrift elsta árgangs leikskólans fer fram 16. júní ár hvert. Útskriftardagur elsta árgangsins markar einnig upphafið á árlegri listasýningu leikskólabarna í Íþróttamiðstöð Hólmavíkur. Fjölskyldum útskriftarbarna er boðið að vera viðstödd. Börn sýna leikrit og fjölskyldurnar þiggja veitingar að hætti leikskólans Börnin fá viðurkenningarskjal, bók að gjöf frá leikskólanum og trjáplöntu sem þau geta gróðursett og fylgst með vaxa og dafna.
Listaverk eftir leikskólabörnin auk þeirra gullkorna sem safnast hafa á starfsárinu eru á sýningunni, sem stendur fram á haust. Fjölskyldum útskriftarbarna er boðið að vera viðstödd. Börn sýna leikrit og fjölskyldurnar þiggja veitingar að hætti leikskólans. Sama dag verður opnuð sýning í Íþróttamiðstöð með listaverkum leikskólabarna.
Gullkornum barna er safnað í ferilmöppur þeirra barna sem þau eiga. Frá jafnræðissjónarmiðum og persónuvernd hefur verið ákveðið að birta þau ekki opinberlega.
Afa- og ömmukaffi: Ömmur og afar eru sérstaklega boðin velkomin að njóta samvista við barnabörn sín í leikskólanum. Þarna er komin ákveðin leið fyrir börnin til að læra af eldra fólkinu og eldra fólkið hefur gaman af því að umgangast börnin og fylgja þeim eftir í leik og starfi.
Sólblómaleikskóli og Vanessuhátíð: Leikskólinn styrkir Vanessu sem býr í SOS barnaþorpi í Zimbabwe. Árlega er haldin Vanessuhátíð þar sem leikskólinn heldur opið hús og börnin syngja fyrir gestina sína. Þá býðst gestum að versla alls kyns varning sem börn og starfsfólk hefur útbúið fyrir hátíðina. Ágóði sölunnar er notaður til að greiða árgjaldið fyrir Vanessu. Börnin senda Vanessu jólagjöf auk þess að árlega er ákveðin peningaupphæð lögð inn á bankareikning sem Vanessa fær afhenta þegar kemur að því að hún flytur að heiman. Í fataklefum beggja deilda eru sparibaukar sem tilheyra Vanessu og er tekið við frjálsum framlögum þar. Á eldri deild leikskólans fá börnin margvíslega fræðslu um Vanessu, landið hennar og umhverfi. Leikskólinn Lækjarbrekka er Sólblómaleikskóli en það er leikskóli sem styrkir ákveðið barn í SOS Barnaþorpi eða styrkir samtökin.
Eldri borgurum er sérstaklega boðið á Vanessuhátíð.
Öðruvísi dagar: Öðruvísi dagar dreifast yfir árið og er þá valið eitthvert þema sem unnið er út frá s.s. einhver litur til að klæðast eða hlutur sem má taka með sér í leikskólann.
Einnig fylgjumst við með bæði alþjóðlegum og íslenskum þemadögum og vinnum með það umfjöllunarefni sem þeir bjóða upp á. Má þá nefna t.d. dag íslenskrar tungu, dag vatnsins.
Siðir og venjur
Afmæli: Börnin halda upp á afmælin sín í leikskólanum. Þau fá kórónu sem bæði starfsmaður og börn skreyta. Afmælisbarnið býður upp á ávexti og grænmeti og eru allir nemendur saman komnir við þetta tækifæri. Boðskortum í afmæli á ekki að dreifa í leikskólanum.
Dótadagar: eru á skóladagatali dreift yfir skólaárið 2024-2025 oftast í upphafi mánaðar, þá fá börnin að koma með eitt leikfang með sér í leikskólann. Stríðsleikföng og leikföng sem gætu valdið slysum eru ekki leyfð. Engin ábyrgð er tekin á leikföngum að heiman.Grilldagurinn er hátíðisdagur á Lækjarbrekku, þá er vinnu vetrarins fagnað með góðri skemmtun. Foreldrum og systkinum er boðið að koma og taka þátt í grilldeginum þar sem ýmsir leikir eru í boði á útisvæði. Stundum hafa börn og kennarar flutt atriði. Starfsfólk og foreldrafélag leikskólans vinna saman að framkvæmd þessa hátíðar.
Uppfært maí 2025