Byggingarfulltrúi og skipulagsfulltrúi
Grettir Örn Ásmundsson er byggingarfulltrúi og Hlynur Torfi Torfason er skipulagsfulltrúi og starfa þeir báðir fyrir Árneshrepp, Dalabyggð, Kaldrananeshrepp, Reykhólasveit og Strandabyggð.
Embætti byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa er starfrækt samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010, lögum um mannvirki nr. 160/2010 og reglugerðum þeim tengdum.

Óheimilt er, samkvæmt lögum um mannvirki, að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfi eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Byggingarleyfi felur í sér samþykkt aðaluppdrátta og framkvæmdaáforma eða samþykkt á breyttri notkun húss. Nánari upplýsingar um byggingarleyfi má finna á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Auk útgáfu byggingarleyfa annast embættið yfirferð og samþykkt séruppdrátta, úttektir, samþykkt á byggingarstjórnun, skráningu iðnmeistara á verk, fasteignaskráningu, yfirferð eignaskiptayfirlýsinga og getur umsagnir vegna starfs- og veitingaleyfa. Þá varðveitir byggingarfulltrúi uppdrætti af húsum í sveitarfélaginu og geta allir fengið ljósrit af þeim gegn hóflegu gjaldi. Byggingafulltrúi og skipulagsfulltrúi veita fúslega faglegar ráðleggingar.

