Saga skólanna
Skólahald á Hólmavík hefur verið rakið allt til ársins 1910 en þá var fyrst kennt í ákveðnu skólahúsi á Hólmavík.
Saga leikskólastarfs á Hólmavík hefur hvergi verið skráð formlega. Vonandi verður gerð bragarbót á því á komandi árum.

Sameinaður leik-, grunn- og tónskóli á Hólmavík
Haustið 1948 hófst kennsla í nýju skólahúsnæði að Skólabraut 20.
Viðbygging við skólann var tekin í notkun 1984 þótt henni væri ekki að fullu lokið.
Haldin var vegleg veisla 1998 í tilefni 50 ára afmæli skólans. Nemendur í 10. bekk (1998-1999) tóku þá saman stutt söguágrip frá árinu 1910 og lista yfir kennara sem kenndu við skólann frá 1948-1999.
Síðla árs 2022 kom upp mygla í húsnæði skólans og var hann þá rýmdur og honum lokað. Nemendur og starfsfólk dreifðist þá um staðinn og hver bekkjardeild var saman í húsnæði. Kennt var í Hnyðju, á efri hæð Sparisjóðsins, í flugstöð til skamms tíma, í félagsheimilinu og að lokum einnig í Vallarhúsi sem var gámahús staðsett á skólavellinum. Unnið var að endurbótum á skólanum og nýrri hlutinn endurgerður og tekinn í notkun haustið 2024.
Tónskólinn hóf starfsemi 1984.
Leikskólinn á Hólmavík heitir Lækjarbrekka. Húsnæðið sem er sérstaklega byggt sem leikskóli var tekinn í notkun 1988 og sumarið 2003 var byggt við leikskólann og hann stækkaður um helming.
Skólastarf er frá 1. janúar 2020 sameinað í Leik-, Grunn- og Tónskóla á Hólmavík.
Uppfært í mars 2025. Næst endurskoðað 2028.
Leikskólinn Lækjarbrekka
Samantektin hér á eftir er tekin úr blaðagreinum og fréttum, Hólmavíkurbók Óla E. Björnssonar og munnlegum heimildum:
Á sjötta áratug síðustu aldar var farið að huga að dagvistun fyrir börn á Hólmavík undir grunnskólaaldri. Starfið fyrstu áratugina fór fram á ýmsum stöðum. Fyrst var það í formi gæslu á leikvelli við Braggann, en síðar komst starfið undir þak - fyrst í kjallara Sýslumannshússins, síðan í sláturhúsinu og loks í kennslustofu í Grunnskólanum á Hólmavík, en þar var hann starfræktur sem síðdegisdeild. Í maí árið 1983 gaf menntamálaráðuneytið Hólmavíkurhreppi leyfi til að hefja framkvæmdir við nýbyggingu leikskóla, en þá hafði félag áhugafólks um dagvistunarmál í nokkur ár unnið að undirbúningi í samráði við hreppsnefnd.
Sumarið 1985 var hafist handa við byggingu leikskóla við Brunngötu 2, ofan á grunni félagsheimilis sem byrjað var að reisa árið 1957 en náðist aldrei að klára. Byggt var eftir raðteikningu arkitektanna Guðmundar Kr. Guðmundssonar og Ólafs Sigurðssonar sem margir íslenskir leikskólar höfðu tekið mið af. Nýja leikskólabyggingin á Hólmavík var ein minnsta einingin sem var reist eftir þessari forskrift, eða um 115 m². Nær allir verkþættir voru unnir af fyrirtækjum og verktökum á Hólmavík.
Nýi leikskólinn var orðinn fokheldur árið 1986 og starfsemi í honum hófst síðan formlega mánudaginn 31. október 1988. Daginn áður var haldin lítil opnunarhátíð þar sem hægt var að skoða bygginguna. Á sama tíma var tekin í notkun afgirtur leikvöllur með leiktækjum; sandkassa, vegasalti, rólum, rennibraut o.fl. Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt teiknaði lóðina. Leikskólinn var strax fullsetinn, en 17 börn voru í vistun fyrir hádegi og sami fjöldi eftir hádegi. Alls voru því 34 börn í skólanum strax á fyrsta starfsári.
Leikskólanum var gefið nafnið Lækjarbrekka árið 1997. Sumarið 2002 hófust langþráðar framkvæmdir við stækkun húsnæðisins um helming, en fjöldi barna við nám í skólanum hafði þá fyrir löngu verið orðinn of mikill miðað við stærð hússins. Í ágúst árið 2003 var tekið í notkun hið nýja rými, en leikskólabyggingin var þá samtals orðin 227 m².
Sveitarfélagið Hólmavíkurhreppur rak leikskólann við Brunngötu allt frá upphafi, en síðar kom Kirkjubólshreppur að rekstrinum sem var þá sameiginlegur með tilliti til fjölda barna. Börn úr Broddaneshreppi, þ.e. úr Kollafirði, fengu einnig pláss í skólanum.
Í dag hafa öll þessi sveitarfélög verið sameinuð og leikskólinn er því rekinn af sveitarfélaginu Strandabyggð.
Byggt var við leikskólann á árunum 2016-2017 og var nýbyggingin tekin í notkun haustið 2017 en það er einmitt 30 ára afmælisár leikskólans Lækjarbrekku. Nýbyggingin er 134,7 m2 og allt leikskólahúsnæðið er nú 357,4 m2.
Síðan nýjasti hlutinn var tekinn í gildi hefur Tröllakot átt sínar höfuðstöðvar þar. Á Tröllakoti eru yngri börnin.
Dvergakot er staðsett í elsta hluta leikskólans og á Dvergakoti eru eldri börnin.