Héraðssamband Strandamanna (HSS) var stofnað 19. nóvember 1944 og er samtök ungmenna- og íþróttafélaga í Strandasýslu. Tilgangur HSS er er að hafa forystu um sameiginleg hagsmunamál aðildarfélaganna, efla samvinnu þeirra svo og vera fulltrúi þeirra jafnt utan héraðs sem innan.
Íþróttir
Eitt íþróttahús er í sveitarfélaginu. Í Íþróttamiðstöð Strandabyggðar er íþróttasalur með öllum helsta búnaði til íþróttaiðkunar. Einnig er þar líkamsræktarstöðin Flosaból.
Sparkvöllur á skólalóð Grunnskóla Hólmavíkur.
Á Skeljavíkurgrund er að finna alhliða íþróttasvæði en þar er Golfklúbbur Hólmavíkur með níu holu gólfvöll. Einnig er þar að finna íþróttasvæði með fótboltavelli og frjálsíþróttasvæði.
Gönguskíðasvæði er í Selárdal við Steingrímsfjörð.
Ýmsar hlaupa- og gönguleiðir eru í sveitarfélginu.

Ágætis aðstaða er til hlaupa og hjólreiða í öllu sveitarfélaginu. Gönguleið yfir Kálfanesborgirnar er líklegast ein vinsælasta gönguleið Strandabyggðar. Við hvetjum alla sem þar fara yfir að staldra við vörðuna efst á leiðinni og kvitta í gestabókina. Gönguleið upp Sjónvarpshæðina er einnig vinsæl og er hægt að halda þar áfram og ganga í kringum Þiðriksvallavatn. Gönguslóði er meðfram fjörunni og út á Skeljavíkurgrundir. Sömuleiðis er gönguslóði frá Kópnesbrautinni inn Stóru Grund og áfram að Ósi. Sá hringur er um 10 km. Yfirlit yfir gönguleiðir má sjá á kortasjá Strandabyggðar.
Strandabyggð hvetur íbúa til íþróttaiðkunar m.a. með lágum verðum á árskortum í líkamsrækt og í sund. Hægt er að kaupa samsett árskort í líkamsrækt og sund á lægra verði. Upplýsingar um verð eru í gjaldskrá Íþróttamiðstöðvar Strandabyggðar.
Í Strandabyggð eru öflug íþróttafélög sem eru með skipulagt íþróttastarf fyrir börn og fullorðna.
Ungmennafélagið Geislinn á Hólmavík vinnur af krafti að því að bjóða börnum og unglingum fjölbreytt íþrótta- og félagsstarf. Þrátt fyrir áskoranir, eins og skort á þjálfurum og aðstöðu, leggur stjórnin sig fram við að skapa skemmtilegt og uppbyggilegt umhverfi fyrir unga iðkendur. Með samvinnu er unnið að því að tryggja að sem flestir hafi tækifæri til að stunda hreyfingu.
Geislinn bíður upp á íþróttaæfingar fyrir börn í grunnskóla þriðjudaga og fimmtudaga. Íþróttaskóli leikskólabarna er á laugardögum. Allar æfingar félagsins fara fram í Íþróttamiðstöð Strandabyggðar.
Skíðafélag Strandamanna er félag fyrir fólk á öllum aldri sem hefur áhuga á skíðaíþróttinni.
Skíðafélag Strandamanna er með gönguskíðasvæði í Selárdal við Steingrímsfjörð þar sem allt er til alls. Skíðasvæðið er með vottað svæði frá FIS, Alþjóðaskíðasambandinu, og geta því haldið vottuð skíðagöngumót.
Félagið bíður upp á æfingar allt árið um kring, en á veturnar er skíðagönguæfing þrjá daga vikunnar, ásamt línuskauta og styrktaræfingum. Á sumrin og haustin er boðið upp á hjólaskíðaæfingar, hlaupa- og styrktaræfingar. Einnig eru fjölskyldu fjallgöngur á sunnudögum yfir sumartímann.
Golfklúbbur Hólmavíkur er með níu holu golfvöll á Skeljavíkurgrund í Strandabyggð. Þar er einnig að finna aðsetur Golfklúbbsins.
Svæðinu er vel viðhaldið og heldur félagið ýmsa golf viðburði yfir árið.