Fara í efni

Stoðþjónusta

Hrafnhildur Þorsteinsdóttir er sérkennari og hefur yfirsýn með sérkennslu í skólanum. 

Talþjálfun er veitt frá Tröppu þjálfun. 

Sálfræðingur skólans er Magnús Baldursson frá Þroska og hegðunarstöð. 

Skimanir eru gerðar af umsjónarmanni sérkennslu samkvæmt skimunaráætlun (sjá læsisstefna) og ef tilefni þykir til er málum vísað til skólasálfræðings og þaðan til Greiningarmiðstöðvar ef þörf þykir. 

Hvað er sérkennsla?

Sérkennsla er það þegar nemendur fá sérstaka námsaðstoð í tilteknum námsgreinum eða almennt, um lengri eða skemmri tíma. Sérkennsla felur í sér verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á. Sérkennari metur hvaða form er heppilegast í hverju tilviki fyrir sig í samráði við umsjónarkennara. Enginn nemandi fær sérkennslu nema farið hafi verið yfir mál hans í nemendaverndarráði, í samráði við foreldra og með samþykki þeirra.

Fyrirkomulag sérkennslu

Sérkennsla er eitt af námstilboðum skólans til að mæta þörfum nemenda. Hún felur í sér breytingu á námsaðstæðum, námsefni, námsmarkmiðum og/eða kennsluaðferðum. Sérkennslan er skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum viðkomandi nemanda og fer ýmist fram innan eða utan almennra bekkjardeilda.Við skipulag sérkennslu í skólanum er unnið eftir reglugerð um sérkennslu.

Í reglugerð um sérkennslu segir:

Sérkennsla felur í sér verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á. Sérkennsla er skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans, jafnvel alla skólagöngu hans.   Í sérkennslu felst m.a.: Gerð rökstuddrar námsáætlunar fyrir nemendahóp eða hvern einstakling sem byggð er á upplýsingum um heildaraðstæður nemanda og á athugun og mati á stöðu hans í námi og þroska. Tilgreind skulu langtíma- og skammtímamarkmið með kennslunni. Sérkennsla er veitt einstaklingum eða hópum. Hún getur verið bundin við afmarkaða þætti náms eða almenn námsaðstoð og byggist skipulag og inntak hennar á greiningu og mati á stöðu nemenda og þörfum þeirra. Sérkennslutímum er skipt milli nemenda í samræmi við þarfir þeirra og endurskoðun fer fram nokkrum sinnum á ári. Í sérkennslu fer reglulega fram mat á stöðu nemenda. Framhald sérkennslunnar er skipulagt í samræmi við niðurstöðu matsins. Talsverður sveigjanleiki er á fjölda nemenda í sérkennslu og fer það eftir þörf og áherslum hverju sinni. Þegar um er að ræða nemendur með miklar sérþarfir eru haldnir reglulegir fundir með þeim aðilum sem skipuleggja og vinna sameiginlega að námi nemanda. Einnig eru haldnir reglulega fundir með foreldrum/forráðamönnum.

Stuðningskennsla

Af hálfu skólans er það skólastjóri og umsjónarmaður sérkennslu sem hefur í umboði skólastjóra umsjón með allri sérkennslu skólans. Umsjónarmaðurinn metur sérkennsluþörf skólans annars vegar og hvers nemanda hins vegar í samráði við sérfræðinga og nemendaverndarráð. Hann skipuleggur sérkennsluna þannig að kennslan nýtist hverjum og einum sem best og að tímamagn skólans nýtist í heild sinni eins vel og kostur er. Skólastjóri er yfirmaður allra þeirra sem kunna að sinna sérkennslu í skólanum hverju sinni. Umsjónarmaður sérkennslu sér einnig um öll dagleg samskipti við aðra sérfræðinga s.s. sálfræðing og talkennara.

Námsráðgjöf

Ráðgjöf veitir námsráðgjafi Ásgarðs ehf. í samráði við skólastjóra.

Stoðþjónusta í leikskóla

Leikskólinn er fyrir öll börn óháð líkamlegu og andlegu atgervi og ber leikskólanum að taka tillit til þarfa hvers einstaks barns svo það fái notið sín.

Móttaka nemenda með sérþarfir

Fundað er með foreldrum og reynt að fá allar upplýsingar sem liggja fyrir til að hægt sé að koma til móts við þarfir barnsins um leið og barnið kemur inn í skólann. Markmiðið er að tryggja að ekki verði afturvirkt rof á umönnun barnsins. Móttaka hvers barns er sniðin af þörfum þess og er á ábyrgð og í umsjón Skólastjóra, deildarstjóra og þroskaþjálfa.

Markmið stoðþjónustu:

Styðja barnið þannig að það geti notið leikskóladvalar sinnar.

Skapa aðstöðu til að barnið geti þroskast sem best á eigin forsendum.

Ef grunur leikur á að barn þarfnist stoðþjónustu er fylgst með því og í framhaldi af því eru gerðar ráðstafanir sem hægt er að gera innan ramma leikskólastarfsins. Ef ástæða þykir til frekari aðgerða er, í samráði við foreldra barnsins, leitað til utanaðkomandi sérfræðinga til frekari ráðgjafar.

Aðgengi að heilsugæslu

Sérkennslustjóri og skólastjóri geta leitað til hjúkrunarfræðings ef nemandi þarf frekari aðstoð vegna sérþjónustu eða nánari greiningar.

Með leyfi foreldra eru upplýsingar um niðurstöður úr PEDS-spurningarlistanum og Brigance sendar í leikskólann svo að hægt sé að styrkja barnið áfram í leikskólanum hvort sem í hóp eða einstaklingslega.

Nemendaverndarráð