Fara í efni

Sýn og stefna

Skólinn vill vera skóli án aðgreiningar þar sem fjölbreyttir kennsluhættir, einstaklingsmiðað nám og leiðsagnarmat eru í forgrunni. Lögð er áhersla á að öllum nemendum fari fram í námi og líði vel í skólanum. Skólinn vinnur markvisst að því að vera umhverfisvænn, lýðræðislegur og samfélagslega virkur skóli. 

Stefna skólans og lykiláherslur: 

Einkunnarorð Grunnskólans á Hólmavík eru: Virðing - Seigla - Stolt - Gleði

Einstaklingsmiðað nám og skóli án aðgreiningar:

Kennsla tekur mið af þörfum hvers og eins nemanda.

  • Nemendur vinna eftir eigin markmiðum í samráði við kennara og foreldra.
  • Fjölbreyttar kennsluaðferðir eru í forgrunni (sjálfstæð vinna, hópvinna, leitarnám o.fl.).
  • Sérstaklega er hugað að bæði nemendum sem þurfa stuðning og bráðgerum nemendum.

Fjölbreytt námsmat og leiðsagnarmat:

Námsmat byggist á hæfniviðmiðum og er í formi símats, sýnismappa, frammistöðumats o.fl.

  • Lögð er áhersla á að matið styðji við nám og sjálfstraust nemenda.
  • Lokamat má ekki vera meira en 25% af heildarmati.

Faglegt starf og símenntun:

Markviss teymisvinna kennara og starfsfólks.

  • Starfsfólk vinnur saman að þróun námsvísa, kennsluáætlana og innra mats.
  • Þróunarverkefni í STEAM og samþættingu námsgreina eru í gagni.

Jákvæður agi og góð samskipti:

Skólinn vinnur með hugmyndafræði jákvæðs aga, vaxtarhugarfar og skýrar samskiptaáætlanir.

  • Áhersla á að styrkja félagslega stöðu nemenda og byggja upp jákvæð samskipti.

Samstarf heimila og skóla:

Foreldrar eru virkir þátttakendur í skólastarfi, bæði í foreldraviðtölum og viðburðum.

  • Regluleg viðtöl og kynningarfundir með foreldrum.
  • Stuðningur við foreldrastarf og aðkomu foreldra að ákvarðanatöku í skólaráði.

Sjálfbærni og umhverfismennt:

Skólinn er virkur þátttakandi í Grænfánaverkefninu og vinnur markvisst að umhverfisstefnu.

  • Áhersla á að tengja umhverfismennt við daglegt starf og skólabrag.

Samfélagsleg tenging og heildræn nálgun:

Samstarf við tónlistarskóla, leikskóla, framhaldsskóla og félagasamtök.

  • Sameiginleg dagskrá og verkefni með samfélaginu á staðnum (t.d. umhverfisdagar, leiklistarverkefni, starfskynningar o.fl).

Framtíðarsýn

Nemendur, starfsfólk og forsjáraðilar vilja að eftirsóknarvert sé að starfa og stunda nám í Strandabyggð. Náminu verði ætlað að byggja upp sjálfstæða og sjálfsörugga einstaklinga sem geta tekist á við síbreytilegt alþjóðlegt samfélag svo tekið sé eftir. Mikilvægt er að skólasamfélagið sé hornsteinn sveitarfélagsins og stuðli að uppbyggilegu samstarfi við fólk og fyrirtæki á svæðinu. Starfshættir séu í sífelldri þróun og að starfsfólk hafi aðgang að góðum stuðningi við framkvæmd skólastarfsins. Vinnuumhverfið skal vera skapandi og líflegt en jafnframt notalegt þar sem gagnkvæm virðing er höfð að leiðarljósi.


Uppeldisstefna

Uppeldisstefna skólans er jákvæður agi og fær starfsfólk reglubundna þjálfun og stuðning við innleiðingu. 
Í daglegu starfi skólasamfélagsins á Hólmavík eru notaðar uppeldisaðferðir sem styrkja jákvæða hegðun. Lögð er áhersla á að allt starfsfólk skólasamfélagsins skilji hvernig jákvæð og uppbyggjandi viðbrögð við neikvæðri hegðun byggja undir stefnu skólans. Að það sé ekki aðeins mikilvægt heldur sé það forsenda góðra samskipta að horfa á orsakir hegðunar frekar en að breyta hegðuninni með umbun eða refsingum. Stefnan byggir á sjálfsstjórnarkenningum sem fela það í sér að byggja upp innri hvöt til að haga sér vel og eiga jákvæð samskipti við aðra.

Skólasamfélagið leggur áherslu á móta skólabrag sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, ábyrgð, tillitssemi og þrautseigju. Það er sameiginlegt markmið skólasamfélagsins að koma auga á jákvæða hegðun en ekki síður að vera mikilvægar fyrirmyndir í samskiptum og framkomu.

Jákvæður agi byggir á því að börn fái tækifæri til þess að efla færni sína við að finna lausnir og setja sjálfum sér mörk í traustu samstarfi við fullorðna.

Mars 2025 (Næsta endurskoðun 2028).

Hugmyndafræði Lækjabrekku

Einkunnarorð Lækjarbrekku eru: Gleði, virðing og vinátta.

Í Lækjarbrekku er leikurinn þungamiðjan, í gegnum leikinn er verið að örva og efla þroskaþætti eins og tilfinningaþroska, siðgæðisþroska, félagsþroska, vitsmunaþroska, félagsvitund, líkams- og hreyfiþroska.

Hugmyndafræði leikskólans byggir á hugmyndum bandaríska heimspekingsins og sálfræðingsins John Dewey um nám í gegnum reynslu eða „learning by doing“. Hann taldi að fyrri reynsla barnsins verði til þess að það byggi upp þekkingu sína. Leikurinn er leið barns til að vinna úr tilfinningum og finna áhugasvið sitt. Hugmyndafræði Dewey byggir á kenningum Lev S. Vygotsky um „svæði hins mögulega þroska“, bilið milli þroska og getustigs barns sem það öðlast sjálft og þess sem það getur náð með aðstoð annarra. Vygotsky setti fram þrjú atriði sem gera leikinn mikilvægan fyrir barnið. Fyrst er að nefna að leikurinn er leið barnins til hlutbundinnar hugsunar. Að öðru leyti lærir barnið í gegnum leikinn félagslegar reglur sem ríkja í umhverfinu og í þriðja lagi lærir það sjálfstjórn. Leikurinn er þannig meginuppspretta fyrir alhliða þroska barna.

Vygotsky lagði einnig áherslu á mikilvægi fullorðinna og eldri barna í námi þeirra yngri og taldi að vitrænn þroski örvaðist í samskiptum við þroskaðri einstaklinga.

Uppeldisstefna Lækjarbrekku byggir á Jákvæðum aga, þar sem góðvild og festa eru höfð að leiðarljósi. Stefnt er að því að efla innri hvöt barnanna til að standa sig vel og koma vel fram við önnur börn og starfsfólk. Stefnan felur í sér að nota hrós og hvatningu á viðeigandi hátt sem hvata og umbun fyrir það sem vel er gert. Virðing einkennir samskipti og að starfsfólk kenni börnunum virðingu með virðingu. Mikilvægt er að barn upplifi góðvild af hálfu starfsfólks og að það finni að hagmunir þess eru alltaf hafðir að leiðarljósi.

Uppfært 4. júní 2021

Merki Lækjarbrekku

Þann 30. október árið 2008 var nýtt merki Leikskólans Lækjarbrekku afhjúpað að viðstöddum börnum, starfsfólki, leikskólanefnd, sveitarstjóra og oddvita Strandabyggðar. Við þetta sama tækifæri var haldið upp á 20 ára afmæli leikskólans.

Efnt var til samkeppni um merkið og verðlaunatillagan var frá listakonunni Ástu Þórisdóttur á Hólmavík. Dómnefnd skipuðu Kolbrún Þorsteinsdóttir, Hafþór Ragnar Þórhallsson, Vala Friðriksdóttir, Sigríður Óladóttir og Viðar Guðmundsson.