Umhverfisdagur var haldinn í Grunnskólanum á Hólmavík föstudaginn 15. apríl. Gestir frá grunnskólunum á Reykhólum og Drangsnesi komu til okkar og byrjaði dagurinn á smiðjuvinnu út um allan skóla. Yngsta stigið gerði töskur úr striga utan af kaffibaunum og skreyttu nemendur með ýmsum efnum og réð hugmyndaauðgin ferðum. Dugnaðarsaumafólk þarna á ferð. Á miðstiginu var endurvinnslusmiðja í skartgripagerð, armbönd, eyrnalokkar, hálsmen og lyklakippur búnar til. Efniviðurinn var að mestu gúmmí úr dekkjaslöngum, plastbrúsar, vírar og öltappar. Þarna voru hannaðir nýir þarfagripir en það var Rubiks-kippur og margt nýstárlegt. Elsta stigið málaði allskonar skilti og spjöld með ýmsum slagorðum og ábendingum til betri umgengni í umhverfismálum. Efnið kom frá Kaupfélagi KSH sem skaffaði okkur bæði krossvið í skiltin sem og málninguna á þau. Munu Hólmvíkingar eiga eftir að sjá þessi hér og þar í þorpinu á næstunni.
Klukkan hálfellefu var farið út í ratleik sem gekk út á ýmis umhverfismál. Allir tóku þátt og var talsverð kappsemi í gangi þar.
Þá hófst dagskrá á gangi skólans. 3. og 4. bekkur sýndi frumsamið leikrit um hvað verður um ruslið okkar.
1. og 2. bekkur sungu fyrir okkur og spiluðu á hljóðfæri sem þau höfðu búið til í skólanum.
5. og 6. bekkur sýndu skó sem þau höfðu hannað úr ýmsum efnum sem hent er.
7. bekkur sagði frá verkefninu Leikbankinn, þar sem þau eru að safna saman gömlum og nýjum leikjum sem henta öllum aldri og ætla að koma upp gagnabanka um það á vef skólans. Þau safna leikjunum frá foreldrum og þeim sem eldri eru. Þá stýrðu þau leik á skólavellinum.
Í lokinn var farið upp í skóg og þar var boðið upp á súpu og brauð, sungnir varðeldasöngvar og sykurpúðar grillaðir.
Veðrið sýndi á sér ýmsar hliðar og fengum við bæði rok og sól.
Einnig var hengt upp veggteppi sem 50 nemendur skólans hafa komið að, en teppið er ofið úr rusli sem að mestu kemur úr flokkunarkössunum í skólanum. Í veggteppinu má m.a. finna plastpoka, dekkjaslöngur, sokka, boli, gosdós, dagblöð, nammibréf og álpappír. Þá var skrautskrifuð útgáfa af umhverfissáttmála skólans hengd upp, en nemendur í 9. bekk skrifuðu og skreyttu, þær Stella Guðrún Jóhannsdóttir skrautskrifari og Sara Jóhannsdóttir skreytari. Þökkum við þeim frábæra vinnu.
Þetta er í þriðja sinn sem við höldum upp á umhverfisdaginn en hann hefur verið að þróast hjá okkur á þessum tíma. Smiðjuvinnan er nýbreytni hjá okkur og umfangið hefur aldrei verið jafn mikið og núna. Erum við mjög ánægð með hvernig til tókst og sérstaklega var skemmtilegt að fá gesti frá nágrannasveitarfélögunum.
Umhverfisdagurinn 15. apríl
15.04.2011
Umhverfisdagur var haldinn í Grunnskólanum á Hólmavík föstudaginn 15. apríl. Gestir frá grunnskólunum á Reykhólum og Drangsnesi komu til okkar og byrjaði dagurinn á smiðjuvinnu út um...
