21.06.2012
Skákhátíð á Ströndum 2012 verður haldin nú um helgina. Efnt er til fjölteflis á Hólmavík og skákmóta í Djúpavík, Trékyllisvík og Norðurfirði. Von er á stórmeisturunum Helga Ólafssyni, Jóhanni Hjartarsyni og Þresti Þórhallssyni, auk skákáhugamanna víða að. Þá munu mörg af efnilegustu skákbörnum landsins taka þátt í hátíðinni, sem er öllum opin. Fjöldi viðurkenninga og verðlauna eru í boði, m.a. munir eftir tvo af kunnustu handverksmönnum Strandasýslu, flugfarseðlar, sérsmíðaðir silfurhringir, silki frá Samarkand, bækur og peningaverðlaun.
Hátíðin hefst á Hólmavík klukkan 16:00 föstudaginn 22. júní. Þá mun Róbert Lagerman, heiðursgestur hátíðarinnar, tefla fjöltefli við alla sem vilja í Hnyðju, neðstu hæð Þróunarsetursins að Höfðagötu 3 á Hólmavík. Róbert sem verður fimmtugur nú í sumar er sá skákmeistari sem tekið hefur þátt í flestum skákviðburðum á Ströndum sl. ár. Fjölteflið er öllum opið og þátttaka er ókeypis.