Fara í efni

Vinnan á bak við Grænfánan síðustu ár

06.04.2011
 Grænfánaverkefnið í Grunnskóla Hólmavíkur   Vetur 2007 - 2008 Grunnskólinn sótti um til Landverndar í skólabyrjun 2007 að taka þátt í Grænfánaverkefninu.Umhverfisnefnd var sk...
Deildu
 

Grænfánaverkefnið í Grunnskóla Hólmavíkur

 

 

 

Vetur 2007 - 2008

 

Grunnskólinn sótti um til Landverndar í skólabyrjun 2007 að taka þátt í Grænfánaverkefninu.

Umhverfisnefnd var skipuð og áhugasamir beðnir um að bjóða sig fram. Leitað var eftir fólki úr mismunandi störfum innan skólans. Þá voru áhugasamir nemendur valdir í nefndina auk eins foreldris.  Nefndin hefur fundað tvisvar til þrisvar sinnum á vetri. Allar helstu ákvarðanir og stefnumörkun hefur farið fram á nefndarfundum, og síðan fylgt eftir af skólastjórnendum og starfsfólki.

 

Umhverfisnefnd

 

Kristján Sigurðsson, aðstoðarskólastjóri

Ingibjörg Emilsdóttir, kennari

Gunnar B. Melsted, kennari

Rósa Kjartansdóttir, matráður

Alfreð Símonarson, húsvörður og skólabílstjóri

Sigrún María Kolbeinsdóttir, ræstitæknir og gangavörður

Silja Ingólfsdóttir, nemandi í 10. bekk

Dagrún Jónsdóttir, nemandi í 9. bekk

Snorri Jónsson, fulltrúi foreldra

Ásta Þórisdóttir, tengiliður Landverndar

 

Mat á stöðu umhverfismála.

Gátlisti var lagður fyrir allt starfsfólk skólans auk þess sem bekkjarkennarar lögðu þá fyrir alla nemendur skólans. Niðurstöður gátlistans voru síðan notaðar til að velja viðfangsefni í verkefninu.

 

Áætlun um aðgerðir og markmið

Nefndin fundaði tvisvar á haustönn og tvisvar á vorönn. Á fyrsta fundi umhverfisnefndar var ákveðið að velja eftirfarandi þemu fyrir Hólmavíkurskóla: Sorp, átthagar og lýðheilsa.

Þá voru gerðar áætlanir um aðgerðir og fyrstu markmið sett.

 

Markmið skólaársins 2007 - 2008

 

1. Skipta út litlum mjólkurfernum fyrir stóra kassa og spara þar með bæði peninga og    umbúðir.

2. Gera betur í notkun umhverfisvænna ræstivara og reyna að minnka notkun þeirra og nota örtrefjamoppur og klúta meira.

3.  Minnka pappírsnotkun.

4.  Minnka notkun bréfþurrka.

5.  Auka útikennslu í samstarfi við kennara og bæta aðstöðu til útikennslu.

6.  Bæta umhverfi skólans, skólalóð og aðstöðu til útivistar.

7.  Vinna að því að minnka sorp.

 

Drykkir

Byrjað var á mjólkurmálunum og frá ársbyrjun 2008 var eingöngu boðið upp á léttmjólk í mjólkuráskrift.  Fljótlega var þó ákveðið að mjólkin yrði nemendum að kostnaðarlausu og hefur sá háttur verið hafður síðan. Samtímis var farið að hafa könnur með vatni og glös inni í skólastofum með það að markmiði að auka vatnsneyslu.

 

Ræsting

Ræstitæknar skólans fóru vandlega yfir alla efnanotkun hjá sér og skiptu út þar sem ekki var búið að gera það fyrir.

 

Pappír

Kennarar voru hvattir til að ljósrita báðum megin á blöð og farið yfir ljósritun með það í huga að spara pappír. Komið var upp bökkum fyrir afgangspappír á nokkrum stöðum í skólanum. Sá pappír er nýttur í myndmennt en einnig skorinn niður í minnisblöð sem sett eru inn í allar skólastofur. Nemendur unnu svo „minnismiðatöflur‟ fyrir miðana og voru þær settar í allar stofur, setustofu, skrifstofu og bókasafn. Brýnt var fyrir nemendum og starfsfólki að reyna að lágmarka notkun bréfþurrka.

 

Útikennsla

Útikennslan jókst til muna. Grasflöt fyrir ofan skóla var slegin og bekkjum og borði komið þar fyrir. Þá tóku nemendur þátt í að grisja í skóginum og í  rjóðri þar sem hægt væri að sinna útikennslu. Talsverð útikennsla var í náttúru- og samfélagsfræðigreinum, einnig í myndmennt, leikrænni tjáningu og leikfimi.

 

Umhverfi skólans

Nemendur voru fengnir til að vinna að hugmyndum við breytingar á skólalóð. Settur var upp hugmyndakassi sem sérstök nefnd um skólalóð vann lokatillögur upp úr. Hjólabraut var komið upp fyrir ofna skólann. Það var hugmynd frá nemendum og unnu þau sjálf að gerð hennar með aðstoð kennara fyrir umhverfisdaginn 24. apríl 2008. Þá var leitað til Skógræktarfélags Strandasýslu og fengin ráðgjöf um gróðursetningu trjáa í nágrenni skólans. Í framhaldi af því voru fengin 200 tré sem nemendur gróðursettu auk þess að setja niður haustlauka.

Umhverfisdagurinn var gerður að útivistardegi í skólanum. Þá var hjólabrautin formlega tekin í gagnið og haldin hjólakeppni, lögreglan fengin til að skoða hjól nemenda og ýmislegt til gamans gert.

 

Sorp

Rætt um að reyna að minnka sorp frá skóla, en enginn farvegur er þó fyrir flokkað sorp. Sent var bréf til Sorpsamlags Strandasýslu með fyrirspurn um hvort og hvenær yrði farið í sorpflokkun, en það hefur staðið til í þónokkurn tíma. Reynt að kaupa inn í stærri einingum og í minni umbúðum. Ákveðið að flokka lífrænt sorp á næsta skólaári og kaupa til þess þar til gerða jarðgerðartanka. Nemendur voru hvattir til að nota fjölnota brúsa og nestisbox og minnka notkun plastpoka. Erfitt er að meta eða mæla árangurinn hér, en flestir á því að töluvert hafi þó þokast.

 

 

 

 

 

 

Vetur 2008 - 2009

 

Umhverfisnefnd

 

Kristján Sigurðsson, aðstoðarskólastjóri

Ingibjörg Emilsdóttir, kennari

Gunnar B. Melsted, kennari

Alfreð Símonarson, húsvörður og skólabílstjóri

Sigrún María Kolbeinsdóttir, ræstitæknir og gangavörður

Dagrún Jónsdóttir, nemandi í 10. bekk

Guðbjörg J. Magnúsdóttir, nemandi í 9. bekk

Snorri Jónsson, fulltrúi foreldra

Ásta Þórisdóttir, tengiliður Landverndar

 

Nefndin fundaði tvisvar fyrir jól og einu sinni eftir jól.

 

Markmið skólaársins 2008 - 2009

 

  1. Jarðgera lífrænan úrgang og kaupa jarðgerðartanka og körfur inn í allar skólastofur til að safna lífrænum úrgangi, sem og í mötuneyti.
  2. Auka enn á útikennslu og bæta aðstöðu í skógi.
  3. Vinna áfram með skólalóð og bæta aðstöðu þar.
  4. Gefa út fréttablað um verkefnið sem dreift yrði til foreldra.

 

Jarðgerð

Jarðgerðartankur var keyptur og átti hann að anna því magni sem búið var að reikna út að félli til. Sú breyting átti sér hinsvegar stað að mötuneyti skólans fékk nú allan mat aðkeyptan og allir afgangar fóru í tunnuna sem var miklu meira magn en upphaflega stóð til. Þetta gerði það að verkum að tankurinn fylltist fljótt og var annar keyptur. Þennan vetur fylltust báðir tankarnir og um vorið voru þeir fullir, og ljóst að eitthvað þyrfti að breytast til að þetta fyrirkomulag gengi upp.

 

Útikennsla

Ekki voru gerðir bekkir og borð í rjóðrinu eins og til stóð en sú breyting varð á heimilisfræðikennslu að nú fór hún nánast öll fram úti í þessu tiltekna rjóðri við mikla ánægju nemenda. Aðrar greinar héldu sínu striki.

 

Skólalóð

Sveitarfélagið hóf vinnu við skólalóð um sumarið og var hellulagt fyrir framan skólann og tyrft niður hæð sem þar er. Þá voru fjarlægð ónýt leiktæki og einhverjum skipt út. Þónokkur vinna á eftir að eiga sér stað við skólalóðina ennþá.

Hjólabrautin var endurgerð af nemendum um vorið og mikið notuð af nemendum bæði á skólatíma sem og utan.

 

Fréttabréf

Lítill fréttabæklingur var unninn af nemendum og sendur heim foreldrum til kynningar á verkefninu.

 

 

 

Önnur verkefni

Ýmsar betrumbætur voru gerðar innanhúss. Tuskur settar inn í stofur þar sem nesti er borðað og þarf að þurrka af borðum í stað bréfa áður. Þá voru lagaðir sápuskammtarar sem ofskömmtuðu og ýmislegt smálegt.

 

Á vordögum var gerður matjurtagarður við hliðina á skólanum í samstarfi við sveitarfélagið. Áhugasamir kennarar yngri bekkja nýttu sér það í kennslu og settu niður kartöflur og sáðu fyrir ýmsum matjurtum. Þegar skóla lauk var áframhaldandi ræktun á höndum nemendanna sjálfra með aðstoð foreldra þeirra. Þetta tókst ágætlega en þarf þó að gera nokkrar betrumbætur, s.s. að afmarka garðinn betur.

 

 

Vetur 2009 -2010

 

Umhverfisnefnd

 

Kristján Sigurðsson, skólastjóri

Ingibjörg Emilsdóttir, kennari

Gunnar B. Melsted, kennari

Sigrún María Kolbeinsdóttir, ræstitæknir og gangavörður

Guðbjörg J. Magnúsdóttir, nemandi í 10. bekk

Dagrún Kristinsdóttir, nemandi í 9. bekk

Snorri Jónsson, fulltrúi foreldra

Ásta Þórisdóttir, tengiliður Landverndar

 

Nefndin fundaði einu sinni fyrir áramót og var eftirfarandi gert.

Farið var yfir stöðu mála og voru allir sammála um að heilmiklu hefði verið áorkað á sl. tveim vetrum. Nú stóð til að sveitarfélagið og Sorpsamlag Strandabyggðar myndu opna flokkunarstöð í desember. Ákvað nefndin að skólinn myndi fara í flokkun af fullum þunga og var ákveðið að fara að leita að hentugum flokkunarílátum.

 

Markmið skólaársins 2009 - 2010

 

  1. Flokka allt sorp
  2. Koma jarðgerðartönkum aftur í notkun
  3. Yrkjuverkefni hjá þeim kennurum sem hefðu áhuga á.
  4. Gefa út fréttablöð um verkefnið

 

Flokkunin

Flokkunin gekk (og gengur) mjög vel og hafa bekkjarkennarar val um það hvort nemendur þeirra taka allar umbúðir aftur heim eða þrífa þær og setja í flokkunarkassa skólans.

 

Jarðgerð

Sú breyting hefur átt sér stað að einn kennari tekur nú mestan hluta lífræns úrgangs frá skólanum (matarafganga úr mötuneyti) fyrir hænurnar sínar, sem hún fékk sér gagngert til þess að það þyrfti ekki að henda þessum mat. Þannig hefur aftur skapast tækifæri til að taka jarðgerðartanka aftur í notkun þar sem magn úrgangs hefur minnkað til muna sem fer í þá.

Verður það gert við fyrsta tækifæri, en þeir eru undir snjó og þarf líklega að færa þá áður en hafist er handa að nýju.

 

Yrkjuverkefni

Skólinn ætlar að afmarka reit fyrir skógrækt í nágrenni skólans. Aðili frá skógræktarfélagi Strandamanna hefur verið boðaður til að leiðbeina og vera skólanum innan handar með staðsetningu gróðursetningar, val á plöntum og fleira.

 

Fréttabréf

Fréttabréf. Nemendur gáfu út fréttabréf í desember og var það að þessu sinni sent rafrænt til foreldra í gegnum Mentor til að spara pappír og kostnað.

 

 

Umhverfisnefnd hélt fund 26. febrúar

Farið var yfir stöðu mála og hugað að verkefnum til vors. Þá var bætt við markmiðum vetrarins:

 

  1. Koma jarðgerðartönkum í notkun.
  2. Gera endurmat á umhverfismálum með gátlista
  3. Halda sýningu á degi umhverfisins og kynna verkefnið fyrir bæjarbúum.
  4. Endurgera hjólbraut og/eða eitthvað nýtt til útivistar fyrir nemendur.
  5. Gera umhverfissáttmála
  6. Sækja um Grænfánan formlega

 

Jarðgerð

Þarf enn að bíða vors vegna snjóalaga.

 

Endurmat á umhverfismálum

Gert á næstu tveim vikum fyrir næsta fund sem er 11. mars.

 

Sýning á vordegi

Fulltrúar nemenda í umhverfisráði kynna þetta í bekkjum og leita hugmynda hjá nemendum. Tekið fyrir á næsta kennarafundi og leitað hugmynda hjá kennurum. Einnig verður leitað til foreldra og annars starfsfólks.

 

Umhverfissáttmáli

Umhverfissáttmáli gerður í samstarfi við nemendur og starfsfólk

 

Umsókn um Grænfána

Allir voru sammála um að það væri orðið tímabært að fá fánann eftir allt starfið. Ásta mun senda umsókn og skýrslu til Landverndar og fylgja því eftir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Til baka í yfirlit