Kæru foreldrar
Í þessari viku var fyrsti bekkur að læra stafinn Vv og þau teiknuðu V úr vír á vorgrænan pappír. Þau fengu gest fyrstu tvo tímana en það var hún Jóna Karítas (systurdóttir mín) sem býr á Sauðárkróki. Allir unnu í Lestrarlandinu. Ég las ævintýrið Dalli dvergur og Frikki fíll og börnin teiknuðu mynd. Við byrjuðum einnig í Byrjendalæsi en það er ein aðferð við lestrarkennslu sem verður eina kennslustund í viku. Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð sem beinist fyrst og fremst að kennslu læsis í 1.og 2. bekk. Þar fer fram vinna með talmál, hlustun, lestur og ritun. Við byrjum á að vinna með bókina Iðnir krakkar eftir Sigrúnu Eldjárn. Unnið verður með þá bók í 8 vikur. Í stærðfræði eru fyrstu bekkingar að byrja að leggja saman og nemendur í öðrum bekk eru í samlagningu og frádrætti. Á miðvikudag var hringekja í íslensku og í dag var hringekja í stærðfræði. Nemendur voru mjög ánægðir með stærðfræðihringekjuna og Hrafnhildur Þorsteins hjálpaði okkur með Numicon kubbana. Í tjáningu erum við að tala um tilfinningar og læra fullt af orðum yfir þær. Við ræddum um hvað væri notalegt og prufuðum andlitspenslun, höfuðnudd og axlanudd. Þetta var allt mjög notalegt. Við tengdum líka tónlist við tilfinningar og ýmist dönsuðum eða teiknuðum eftir áhuga og kjarki hvers og eins. Í samfélagsfræði erum við að byrja að kynnast honum Kára sem er að fara að leggja af stað í langferð með flugi. Hann flaug yfir landið og við kynntumst orðum eins og hálendi, láglendi, þéttbýli, dreifbýli og náttúru. Svo var skrifuð tröllasaga í sögubókina. Allir eru spenntir að fræðast um eldgos í næstu viku. Í náttúrufræði lásum við kafla sem heitir: Ef þú giftist mér og er hann um pörun dýra. Við fórum í leik sem heitir Örkin hans Nóa, þar sem börnin léku dýr og þau þurftu að para sig saman með látbragðsleik. Þau vildu fara í hann aftur og aftur og fá að prufa mismunandi dýr. Við enduðum daginn í dag á að horfa á fræðslumynd um hvernig skógardýr vaxa. Við ætluðum að horfa á hvernig húsdýrin vaxa en hún var eitthvað biluð hjá Námsgagnastofnun.
Bestu kveðjur og hafið það sem best í vetrarfríinu,
Kolla :)