Kæru foreldrar
Nú er haustönn lokið og miðönn tekin við. Haustönn lauk með nemendaviðtölum þar sem börnin litu til baka og mátu virkni sína, vinnubrögð og hegðun. Nú höldum við áfram og í sumum fögum hafa orðið breytingar. Við erum byrjuð á nýju efni í samfélagsfræði sem heitir Komdu og skoðaðu land og þjóð. Þar segir frá ferðalagi Kára um landið um leið og hugtök og náttúrufyrirbæri eru skýrð á lifandi og skemmtilegan hátt. Við erum einnig byrjuð að vinna með nýtt efni í náttúrufræði sem heitir Komdu og skoðaðu hvað dýrin gera. Í því er fjallað um atferli dýra, svo sem leiki, uppeldi, pörun, félagshegðun, og næringarnám. Í vikunni byrjuðum við líka með nýtt efni í tjáningu og það er lífsleikniefnið Spor 2. Helstu markmið efnisins eru að efla tilfinningaþroska og samskiptahæfni nemenda. Viðfangsefni kennslustunda eru mjög fjölbreytt og taka mið af kenningu um fjölgreindir. Fyrsti bekkur lærði stafinn Ee og krakkar úr 10. bekk komu og lásu fyrir þau. Annar bekkur fór í bókasafnsfræðuslu á fimmtudaginn og við enduðum vikuna á að horfa á fræðslumynd í samfélagsfræði og ræddum svo um hana á bekkjarfundi. Myndin heitir Vegurinn heim og er hjartnæm íslensk heimildarmynd byggð á viðtölum við fimm börn innflytjenda á Íslandi. Í henni ræða börnin líf sitt og tilveru hér á landi og lýsa upplifun sinni af því að vera á mörkum ólíkra menningarheima. Ég var í námslotu frá þriðjudegi til fimmtudags og nemendur sögðust hafa verið mjög duglegir að læra á meðan ég var fjarverandi og ég trú því vel :)
Góða helgi og bestu kveðjur
Kolla :)