Fara í efni

Vikan14.-18. október

18.10.2013
Kæru foreldrarÞessi vika hefur gengið ljómandi vel. Nýja stofan okkar hentar vel og nemendur hafa verið vinnusamir. Það gengur vel hjá 1. bekk í lestri og allir svo duglegir að lesa. Vi?...
Deildu

Kæru foreldrar

Þessi vika hefur gengið ljómandi vel. Nýja stofan okkar hentar vel og nemendur hafa verið vinnusamir. Það gengur vel hjá 1. bekk í lestri og allir svo duglegir að lesa. Við höfum verið dugleg að vinna í lestralandinu sem er vinnubók í íslensku og Sprota sem er stærðfræðibókin okkar.  Við unnum verkefni í vikunni sem fjallaði um það í hverju við erum góð og hangir það verkefni uppi við stofuna okkar. Þetta verkefni er til að efla sjálfsmynd okkar. Við fórum í heimsókn á Sauðfjársetrið og þar kynnti hún Dagrún Jónsdóttir fyrir okkur sýninguna  Álagablettir. Þetta var stórskemmtilegt og Dagrún sagði okkur margar sögur um álagabletti og útskýrði vel fyrir okkur hvað álagablettur er.  Í samfélags- og náttúrufræði  fórum við út að skoða steina, bæði náttúrulega og manngerða, lásum þjóðsöguna Óskasteinn í Tindastóli og unnum verkefni um ljóstillífun. Nú eru allir nemendur í 1. og 2. bekk með það á hreinu hvað ljóstillífun er!  Í dag voru svo umræður um náttúruna, hvað hún gefur okkar og hvernig við umgöngumst hana af virðingu. Á fimmtudaginn byrjaði  1. bekkur í bókasafnsfræðslu og 2. bekkur bíður spenntur eftir að komast næsta fimmtudag.  Á bekkjarfundi unnum við verkefni þar sem tveir unnu saman. Þetta var vináttuviðtal þar sem nemendur tóku viðtal hvert við annað um hvort þau ættu vin, hvað þau gerðu fyrir vin sinn, hvort það kæmi upp ósætti og hvernig það væri þá leyst o.s.frv. Þetta var svolítið erfitt verkefni en ég held að þau hafi haft mjög gott af því að velta þessum hlutum fyrir sér.

Tíminn líður hratt og nú er komið að því að ég fari aftur í námslotu í næstu viku. Það verður eins og áður frá þriðjudegi til fimmtudags og börnin í höndum sömu kennara og kenndu þeim þegar ég var síðast í lotu. Ég hvet alla foreldra til að styðja börnin sín vel í heimalestrinum því eins og ég segi við börnin: „Æfingin skapar meistarann!!“

Bestu kveðjur og góða helgi

Kolla

Til baka í yfirlit