Kæru foreldrar
Í síðustu viku héldum við áfram vinnu okkar um fjöruna og hafið. Við skoðuðum hvernig Hólmavík liggur við sjóinn og ræddum um það hvað það felur í sér að búa í sjávarþorpi.
Við fórum í vettvangsferð um nágrenni skólans og týndum lauf og ber. Og smökkuðum einnig á bláberjunum sem hægt er að finna rétt við skólann.
Í tjáningartíma á fimmtudaginn tóku nemendur viðtal við hvorn annan. Í framhaldi af því kynnti hver nemandi einn bekkjarfélaga sinn fyrir öllum hópnum.
Gaman er að sjá hvað nemendur eru fljótir að tileinka sér nýja vinnufyrirkomulagið með Skjatta bókunum. Það hentar greinilega mörgum að vinna af sér heimanámið í skólanum og þau eru mjög meðvituð um það og leggja sig fram um að vinna vel í skólanum. Alveg frábært :)
Sumir hverjir náðu ekki alveg makmiðum sínum og tóku því bækurnar með sér heim á föstudaginn. Gott væri að búið væri að klára heimavinnuna og bókunum skilað ekki seinna en á fimmtudegi.
3. bekkur var úti í stórfiskaleik. Nemendum hafði verið fengið það hlutverk að leika gæludýr og sá sem „var hann" átti að giska á dýrategundina.
Eitthvað erfiðlega gekk að átta sig á því hvaða dýr einn nemandinn var. Svo að hann var beðinn um að segja fyrstu stafina. Segir hann hópnum að fyrstu stafirnir séu k og v (hvolpur).
Smá þögn slær á hópinn og allir hugsa sig um þar til heyrist kallað úr nemendahópnum „ertu að leika kvenmann?"
Vegna þess hversu margar kennslubækur eru í gangi í íslensku og stærðfræði verður náminu þannig háttað að ákveðið viðfangsefni er tekið fyrir hverju sinni, svipað eins og síðasta vetur. Nemendur verða því allir að vinna með sömu þættina en hver og einn setur sér sín markmið og vinnur þar sem hann er staddur.
Á mánudaginn ætlum við að skella okkur á leiksýninguna Gýpugarnagaul í boði foreldrafélaga leik- og grunnskólans :)
Bestu kveðjur
Kristjana
