Skólabraut 20-22
510 Hólmavík
Sími: 451-3129 og 451-3430
Fax: 451-3429
Netfang: grunnskolinn@holmavik.is skolastjorar@holmavik.is
Grunnskólinn á Hólmavík er einsetinn tæplega 90 nemenda skóli sem leggur áherslu á tónlist og listgreinar í skólastarfinu. Við teljum skólann okkar einkennast af góðu foreldrasamstarfi, gagnkvæmri virðingu og vilja nemenda og starfsmanna þar sem áhersla er lögð á sveigjanleika og fjölbreytta kennslu við hæfi allra nemenda. Grunnskólinn á Hólmavík er skóli á grænni grein og hefur á undanförnum árum stigið skrefin sjö sem eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál og flaggar nú Grænfánanum með stolti. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.
Við skólann starfa 11 kennarar, skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, sérkennari, iðjuþjálfi, stuðningsfulltrúar, tveir skólaliðar sem sjá m.a. um ræstingu, mötuneyti og gæslu, skólabílstjóri, bókasafnsvörður, heimanámsstýra og starfsmenn í frístundaheimilinu Skólaskjóli. Við erum mjög stolt af samhentum, þéttum og fjölbreyttum starfsmannahópi skólans og okkar frábæru nemendum sem eru í 1.- 10. bekk. Að loknum skóladegi gefst öllum nemendur kostur á að snæða hádegisverð í mötuneyti skólans og nemendur í 1.- 5. bekk geta sinnt heimanámi sínu með aðstoð kennara og dvalið í frístundaheimili okkar Skólaskjóli til klukkan fjögur.
Tónskólinn á Hólmavík er samrekinn með Grunnskóla Hólmavíkur og á undanförnum árum hefur verið mikill áhugi hjá nemendum Grunnskólans fyrir tónlistarnámi og hefur hlutfall þeirra farið allt upp í 80%. Í ár eru um 70 nemendur Grunnskólans sem stunda hljóðfæranám auk náms í tónfræðigreinum. Fjórir tónlistarkennarar eru starfandi við skólann og kenna nemendum á píanó, orgel, harmonikku, blokkflautu, ukulele, gítar, rafgítar, rafbassa, trommur og söng. Þessi mikli tónlistaráhugi og staðsetning Tónskólans innan veggja Grunnskólans gerir það að verkum að heildarmynd skólans er í senn lífleg og fjörug þar sem listagyðjan fær að njóta sín í bland við hefðbundið skólastarf.
Félagsmiðstöðin Ozon er einnig staðsett innan veggja Grunnskólans og heldur Bjarni Ómar Haraldsson utan um starfið ásamt nemendaráði Grunnskólans. Innan félagsmiðstöðvarinnar fer fram hefðbundið starf s.s. opin hús tvisvar í viku og viðburðir í tengslum við það. Enginn leiktæki eru í félagsmiðstöðinni en félagsmiðstöðvarstarfið hjá Ozon sækir í grunninn hugmyndir til Johns Dewey um reynslunám og byggir allt starfið á virkri þátttöku og skapandi starfi sem veitir nemendum reynslu til framtíðar. Nemendur hafa sjálfir með ötulli vinnu og söfnunum komið sér upp góðri aðstöðu fyrir hljómsveitir með hljóðfærum auk annars sem nauðsynlegt er í starfið.
Íþróttakennsla skólans fer fram í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík sem reist var vorið 2004. Þar iðka nemendur íþróttir í stórum og vel útbúnum íþróttasal og sundlaug. Mikið samstarf er á milli Grunnskólans og þeirra íþróttahreyfinga sem eru á staðnum.
