Elsku mamma og pabbi
Þessi vika gekk mjög vel eins og undanfarnar vikur, ég var rosalega dugleg/ur að vinna að markmiðum mínum bæði í íslensku og stærðfræði. Ég lærði stafinn P p og gerði mörg verkefni honum tengd. Ég skrifaði aðeins í sögubókina mína, fór í munaspil, flokkaði nafnorð í samnöfn og sérnöfn, fór í leikinn 1, 2, og 6 en þá kasta ég tening og finn orð sem hefur jafnmarga stafi og talan sem kom upp á teningnum sagði til um, bjó til orð með bangsastöfunum og las í frjálslestrarbókinni minni.
Ég er með aukabók í stærðfræði í skilaboðaskjóðunni minn sem ég má vinna í að vild. Þegar ég hef klárað hana skila ég henni og fæ nýja bók.
Í sundtíma hjá Ásu æfði ég skriðsund, ég æfði fótatök með og án korks. Ég endaði tímann á því að æfa mér í að stinga mér og hoppa út í laugina.
Í tjáningu hélt ég áfram með þemaverkefnið mitt um „búkollu" og „blómin á þakinu" . Ég málaði aðeins og síðan vann ég í bókinni minni um sveitina.
Á miðvikudeginum var Vala ekki með okkur, í íslensku kenndi Hulda okkar,Inga kenndi okkur stærðfræði og í vali voru Þorbjörg og Agnes með mér, ég endaði svo daginn hjá Ásu, hún kenndi mér að spyrna mér frá bakkanum og svo átti ég að fara alveg niður á botninn í leiðinni. Það var alveg ótrúlega erfitt en skemmtilegt :)
Það var svo enginn skóli á fimmtudeginum því að þá var sumardagurinn fyrsti. En samt er ennþá vetur. Ég er ekki alveg að skilja þetta.
Þegar ég mætti svo í skólann á föstudeginum voru komnir nokkrir ungar. Alveg ótrúlega fallegri, brúnir, hvítir og svartir. Ásta gaf fyrsta unganum nafnið „Sumarlína eða Sumarliði" við vitum ekki ennþá hvort kynið það var.
Föstudagurinn var svo helgaður íþróttum og útivist. Ég byrjaði á því að hitti hópinn minn og saman héldum við áfram að vinna að undirbúningi vorhátíðarinnar. Eftir nestistímann fór ég að renna með öllum hinum krökkunum í skólanum, ég var dreginn upp á sleða og svo renndi ég mér niður á fullri ferð það var alveg ótrúlega skemmtilegt.
Ég gerði margt annað skemmtilegt í vikunni, það var til dæmis bekkjarsamvera hjá mér og öllum hinum í 1. - 3. bekk. Ég horfði á alveg ótrúlega fyndna mynd og fékk pizzu og allt.
Ps. Ég þarf ekki að mæta í skólann næsta miðvikudag því að þá verkalýðsdagurinn 1. maí.
Með góðri kveðju,
Alex Ingi, Emma Ýr, Íris Jökulrós, Kristinn Jón, Ólöf Katrín, Stefán Dam, Unnur Erna, Þórey Dögg, Brynhildur, Isabella Sigrún, Jón Haukur, Michael Miro, Sólveig María, Sævar Eðvald, Arndís Una, Hrafnkatla og Þorsteinn.
Ps. Vala, Agnes og Þorbjörg biðja að heilsa :)
