Fara í efni

Strandamenn og Húnvetningar funda um Byggðasafnið á Reykjum

04.03.2011
Héraðsnefnd Strandasýslu fundaði með stjórn Byggðasafnsins á Reykjum og öðrum eigendum þess í Húnaþingi vestra og Austur-Húnavatnssýslu nú í vikunni. Á fundinum fór stjórn...
Deildu
Héraðsnefnd Strandasýslu fundaði með stjórn Byggðasafnsins á Reykjum og öðrum eigendum þess í Húnaþingi vestra og Austur-Húnavatnssýslu nú í vikunni. Á fundinum fór stjórn safnsins yfir fjárhagslega stöðu þess, menningarlegt hlutverk og möguleika. Á safninu er að finna dýrmætar minjar sem varpa ljósi á sögu samfélaganna við Húnaflóa. Á hverju ári sækja 3500 grunnskólanemendur safnið samhliða veru þeirra í skólabúðum í Reykjaskóla, auk annarra gesta.

Dr. Lára Magnúsardóttir forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra kynnti hugmyndir sínar um uppbyggingu safnsins og svæðisins í kring. Hún hefur ásamt Sigríði Hjaltadóttur stjórnarmanni og starfandi safnstjóra farið yfir rekstrarmöguleika og framtíðarsýn safnsins. Ljóst er að þörf er á viðhaldi á húsnæði byggðasafnsins, aukna þjónustu fyrir gesti og öfluga markaðssetningu.

Fundurinn var haldinn að frumkvæði Héraðsnefndar Strandasýslu sem um þessar mundir fer yfir framtíð nefndarinnar og þau verkefni sem heyra undir hana.  Meðal annarra verkefna má nefna Héraðsbókasafn Strandasýslu, barnaverndarnefnd, almannavarnarnefnd auk hópa og styrktarsjóða. Matthías Lýðsson bóndi og frumkvöðull í Húsavík er fulltrúi Héraðsnefndar Strandasýslu í stjórn Byggðasafnsins á Reykjum.
Til baka í yfirlit