Fara í efni

Stefnt að Íslandsmeti í hópplanki á Hamingjudögum

28.06.2011
Menn gera sér ýmislegt til gamans. Eitt af því sem  hefur farið sigurför um Ísland og heiminn að undanförnu er plankið svokallaða. Plankið snýst í stuttu máli um að menn leggjast ?...
Deildu
Menn gera sér ýmislegt til gamans. Eitt af því sem  hefur farið sigurför um Ísland og heiminn að undanförnu er plankið svokallaða. Plankið snýst í stuttu máli um að menn leggjast á magann, helst á óvenjulegum stað eða aðstæðum, með andlit á grúfu, hendur meðfram síðum með lappir og tær beinar. Plankið er síðan skýrt einhverju nafni og því deilt á internetinu. Fyrirbærið er sannkallaður og óvenjulegur gleðigjafi og skemmtilegt áhugamál svo lengi sem menn fara sér ekki að voða.  

Á föstudegi á Hamingjudögum á Hólmavík er stefnt að því að setja formlegt Íslandsmet í hópplanki með því að fá sem flesta gesti á kvöldvöku á Klifstúni til að planka í einu. Menn eru hvattir til að æfa sig úti í garði fram að hópplankinu. Þeir sem þjást af frjókornaofnæmi ættu þó að fara varlega í að planka í grasinu og rétt er að minna menn á að planka ekki á hættulegum stöðum.  

Meðfylgjandi þessari frétt er mynd sem sýnir hárrétt plank; rétta og fallega líkamsstöðu, óvenjulegan stað og aðstæður og sannkallaða plankgleði og hamingju. Plankarinn er enginn annar en Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar. Vettvangur sveitarstjóraplanksins er Galdrasýning á Ströndum. Ingibjörg mun einmitt halda setningarræðu Hamingjudaga á kvöldvökunni á föstudagskvöldið næsta.  

Sjáið dagskrá Hamingjudaga með því að smella hér.
 
Til baka í yfirlit