Kæru foreldrar
Vikan gekk ljómandi vel. Í íslensku var stafurinn B b var kynntur og unnu nemendur í 1. bekk verkefni honum tengd. Á meðan unnu nemendur í 2. bekk verkefni í Ritrúnu, Ás og í Tvist. Í stærðfræði var meðal annars verið að vinna með samlagningu og frádrátt (tölur upp í 20) og tölfræði.
Í íþróttum fóru nemendur í leiki sem reyndu á hraða og úthald í fyrri tímanum en í seinni tímanum var stöðvaþjálfun
Í listum héldu nemendur áfram með verkefni úr spýtum þar sem þau þurftu meðal annars að negla, pússa og mála. Þetta verkefni gekk mjög vel hjá þeim :)
Í samfélagsfræði og náttúrufræði fóru nemendur í 1. bekk í Skólabókina mína og teiknuðu skólann sinn og allt það sem var í skólatöskunni þeirra. Nemendur í 2. bekk unnu með áttirnar (norður, suður, austur og vestur) í bókinni Kostuleg kort og gröf. Einnig héldum við áfram að vinna með þemaverkefnið „Um mig og þig" nemendur myndskreyttu meðal annars orðatiltækið „.. borgað út í hönd" og komu margar skemmtiliegar útfærslur af því.
Þá var farið í heimsókn á bókasafnið þar sem Kristín bókavörður tók á móti okkur og fræddi okkur um bækurnar (forsíða, baksíða og kjölur), hvar bækur fyrir okkur væru að finna og hvernig eigi að hugsa um þær.
Í trúarbragðafræði unnu nemendur myndverk tengt páskunum. Þeir unnu verk sem túlka átti skírdag. Í upplýsingatækni fóru nemendur í fingrafimi.
5 ára hópurinn kom í heimsókn til okkar, að þessu sinni komu eingöngu stelpur þar sem allir strákarnir voru heima veikir. Þær unnu nokkrar blaðsíður í Sprota 1a og svo fengu þær að leika sér með Numeco kubbum sem við fengum að láni hjá Hrafnhildi Þorsteinsdóttur. Á meðan unnu nemendur í 1. - 2. bekk eina æfingu í stafsetningu og fóru svo í „Ýmu".
Að sjálfsögðu héldum við áfram í lestrarátakinu :). Nú þegar hafa margar bækur verið lesnar.
Næsta föstudag verður náttfatadagur og þá mega nemendur mæta í náttfötum :)
Með góðri kveðju,
Vala
