Fara í efni

Síðustu tvær vikur

11.10.2013
Kæru foreldrarÉg ætla aðeins að fara yfir síðustu tvær vikur.Mánudaginn 30. 9. var lokahátíð göngum í skólann verkefnisins. Þá var börnunum skipt í hópa þvert á bekki og fari?...
Deildu

Kæru foreldrar

Ég ætla aðeins að fara yfir síðustu tvær vikur.

Mánudaginn 30. 9. var lokahátíð göngum í skólann verkefnisins. Þá var börnunum skipt í hópa þvert á bekki og farið út í ratleik. Eftir ratleikinn var ávaxta- og grænmetishlaðborð. Á þriðjudeginum lærðum við að búa til hugarkort og það gekk mjög vel. Á miðvikudeginum var hringekja sem innihélt, lestur, tölvu, sóknarskrift og spil.  Í samfélagsfræði var útitími og þá skoðuðum við form allt í kringum okkur. Í tjáningu léku börnin leikrit. Þeim var skipt í þrjá hópa og einn hópurinn var með Svörtu kisu, annar Bláu könnuna og sá þriðji með Græna hattinn. Þau útfærðu þetta alveg sjálf og voru stórkostleg öllsömul. Ég sat og horfði á með gæsahúð. Á fimmtudeginum bjuggum við svo til hugarkort um veðurtákn. Svo fóru nemendur heim í langt helgarfrí og þriðjudagsmorgun skiptum við um stofu. Það er mun rýmra á okkur núna og ég er að minnsta kosti mjög ánægð með skiptin.  Þegar ég spyr svo nemendur eru skiptar skoðanir á því hvort stofan sé betri. Á miðvikudaginn var aftur hringekja og í henni var lestur, lestralandið, skrift og spil. Í vali völdum við á milli LEGÓ og að lita. 1. bekkur fór í skimun til Hrafnhildar en hún á eftir að fá þau tvisvar sinnum til viðbótar til að klára. Skimun þessi heitir Leið til læsis og er hópfyrirlögn. Með henni er verið að kanna málþroska, bókstafi og hljóð og hljóðkerfisvitund. Á meðan gerði ég stafsetningarkönnun á 2. bekk. Í tjáningu lærðum við nýja stafrófsvísu eftir Þórarinn Eldjárn og skrifuðum hana í sögubókina og skreyttum. Við sungum hana hressilega líka. Í stærðfræði í gær unnum við í Sprota og sumir prófuðu að leysa verkefni í paravinnu. Við ætluðum að fara út að skoða og flokka steina í gær en frestuðum því vegna veðurs. Í staðinn las ég fyrir þau þjóðsöguna Óskasteinn í Tindastól og þau myndskreyttu hana.  Í dag komu nemendur með steina heiman frá sér til að segja frá og sína og þau stóðu sig mjög vel í því. Bæði að segja frá og að hlusta á hina. Á bekkjarfundi ræddum við um kurteisi og vinnusemi.

Ég sendi heim smá heimanám í stærðfræði fyrir 2. bekk og langar að biðja ykkur að huga vel að heimalestri barnanna. Hann er svo ákaflega mikilvægur. Ykkar stuðningur skiptir öllu máli. Ég hef verið að reyna láta þau lesa hjá mér 4 sinnum í viku en það tekst ekki alltaf........sumir dagar eru bara þannig......

Bestu kveðjur og góða helgi

Kolla 

Til baka í yfirlit