Elsku mamma og pabbi
Ég var mjög ánægð/ur að mæta í skólann eftir langt páskafrí. Ég vann að markmiðum mínum bæði í íslensku og stærðfræði. Ég lærði stafinn K k og gerði nokkur verkefni honum tengd. Ég skrifaði sögu í sögubókina mína og las frjálst í frjálslestrarbókinni minni. Vann verkefni um kyn orða.
Ég byrjaði að syngja afmælissönginn fyrir Micael Miro, en hann varð 8 ára 1. apríl síðastliðinn. Til hamingju með daginn þinn Miro minn.
Í sundtíma hjá Ásu æfði ég skriðsund og svo fór ég í skemmtilega leiki.
Fimmtudagurinn var helgaður yndislestri, af því tilefni las Þorbjörg fyrir mig söguna um Stóra bróður sem var skrifuð af Friðriki Erlingssyni. Þessi saga gaf mér innsýn inn í lífskjör barna sem búa annarsstaðar í heiminum og hún vakti mig til umhugsunar um hvernig erfið lífsreynsla getur þrátt fyrir allt leitt til góðs.
Ása Ketilsdóttir sagnakona kom í heimsókn og sagði mér margar skemmtilegar sögur og vísur. Hún endaði á því að kveða prestavísuna „Segir prestur" með Hrafnkötlu. Þær voru rosalega flottar.
Ég endaði svo yndislestrardaginn á því að fara í heimsókn til Kristínar bókavarðar, hún las fyrir mig söguna um Hagamúsina sem breyttist í húsamús. Systir Kristínar skrifaði þessa sögu ásamt annarri, það var ekki búið að myndskreyta söguna en það verður gert áður en hún kemur út. Þetta var alveg rosalega skemmtileg saga.
Það er alltaf svo skemmtilegt í skólanum, ég ætla ásamt hinum í bekknum að unga út hænuungum. Hann Kristján Rafn í 5. bekk kom og færði okkur tuttugu hænuegg sem við ætlum að setja í útungunarvél sem Ásta lánaði okkur. Ég fékk að merkja eitt egg og setti það ofan í vélina. Það þarf að snúa eggjunum á tólf tíma fresti, ég fæ að gera það þegar ég er í skólanum en Vala þarf að snúa þeim á kvöldin og um helgar. Ungarnir eru svo væntanlegir eftir ca. átján daga
Mamma og pabbi ég var mjög dugleg/ur alla vikuna og þið getið verið stolt af mér.
Með góðri kveðju,
Alex Ingi, Emma Ýr, Íris Jökulrós, Kristinn Jón, Ólöf Katrín, Stefán Dam, Unnur Erna, Þórey Dögg, Brynhildur, Isabella Sigrún, Jón Haukur, Michael Miro, Sólveig María, Sævar Eðvald, Arndís Una, Hrafnkatla og Þorsteinn.
Ps. Vala, Agnes og Þorbjörg biðja að heilsa :)
