Fara í efni

Landshlutakeppnin tókst frábærlega

01.02.2011
Vestfjarðariðill í söngkeppni Samfés var haldinn á Hólmavík á föstudagskvöldið að viðstöddu miklu fjölmenni. Sennilega hafa verið ríflega 200 manns í félagsheimilinu þetta fr...
Deildu

Vestfjarðariðill í söngkeppni Samfés var haldinn á Hólmavík á föstudagskvöldið að viðstöddu miklu fjölmenni. Sennilega hafa verið ríflega 200 manns í félagsheimilinu þetta frábæra kvöld. Keppnin var bæði spennandi og skemmtileg en alls voru flutt 10 vönduð söngatriði. Agnes Sólmundsdóttir frá Þingeyri sigraði keppnina með glæsilegu atriði sem verður fram- lag félagsmiðstöðva á Vestfjörðum í landskeppni Samfés. Fjögur atriði voru frá félagsmiðstöðinni Ozon á Hólmavík og stóðu krakkarnir sig frábærlega þó að ekki hafi náðst verðlaunasæti að þessu sinni. 

Verðlaun fyrir þrjú efstu sætin voru ekki af verri endanum; Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík gaf glæsileg leðurveski og Activity-spilið, Tónabúðin og Ozon gáfu Shure-míkrafóna og frá Nóa-Síríus komu níðþungir konfektkassar. Allir keppendur fengu afhendar rósir og verðlaunahafarnir blómvendi frá Ozon.

Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri í Strandabyggð, hrósaði gestum sérstaklega fyrir sína þátttöku í viðtali við strandabyggd.is: ,,Áhorfendur eiga líka lof skilið en það kom mér skemmtilega á óvart að sjá fólk á öllum aldri fylla Félagsheimilið á Hólmavík. Eftir 10 ára starf með ungu fólki á höfuðborgarsvæðinu rættist gamall draumur um að sjá og upplifa kynslóðabilið hverfa á viðburðum ætluðum unglingum. Hér tekur öll fjölskyldan og allir íbúar Strandabyggðar þátt í lífi og starfi unglinganna, yngri og eldri systkini, foreldrar, ömmur, afar og aðrir áhugasamir Strandamenn.  Bilið sem við höfum of oft séð myndast milli fullorðinni og unglinga á samskonar atburðum er einhvern veginn ekki til staðar hér. Það er til fyrirmyndar".

Það er ljóst að þessi atburður hefur tekist frábærlega. Það er ekki síst hægt að þakka krökkunum í eldri deild Ozon, en þau unnu baki brotnu við undirbúning keppninnar alla vikuna. Þá ber einnig að þakka hljóðmanninum (og fyrrverandi Ozon-stjórnandanum) Bjarna Ómari Haraldssyni fyrir að stýra tökkum á nýja hljóðkerfinu, en hljóðið út í sal var hreint magnað miðað við þær erfiðu aðstæður sem eru til hljóðblöndunar í félagsheimilinu. Ekki má gleyma sviðsmönnunum, þeim Darra Hrannari Björnssyni, Friðrik Smára Mánasyni og Daníel Birgi Bjarnasyni. Þeir Darri og Daníel sáu einnig um diskótek eftir keppnina sem vakti upp dansgenin hjá gestum.

Umfjöllun og fleiri myndir frá keppninni má sjá á strandir.is

Til baka í yfirlit