Kæru foreldrar
Þessa viku viku var ég í námslotu frá þriðjudegi til fimmtudags en ég veit að börnin ykkar voru í góðum höndum á meðan.
Á mánudaginn lærði 1. bekkur stafinn L og þau límdu stafinn L með laufblöðum á ljós lillaðan pappír. Í tjáningu skiptum við bekknum í þrjá hópa og þau sömdu leikrit sem þau fluttu fyrir hvert annað. Stíllinn einkenndist svolítið af ærslalátum, en við erum bara að byrja og æfingin skapar meistarann ekki satt?
Á þriðjudaginn var búinn til vinarhringur úr höndum og farið vel yfir hægri og vinstri. Nemendur æfðu sig í að heilsa kurteisislega með hægri hönd. Á miðvikudag var farið bæði í hringekju og val og í tjáningu var prófað að búa til leikrit með því að nota smábarnabækurnar Græni hatturinn, Bláa kannan og Svarta kisa.
Á fimmtudag var skólatöskudagurinn og þá kom Jóhanna Hreinsdóttir inn í bekkinn og fór yfir skólatöskurnar með börnunum. Meðal annars viktaði hún töskurnar en skólataskan má ekki vera meira en 10% af líkamsþyngd barnsins. Í lok dagsins fór Anna Birna svo út með börnin og skólinn var skoðaður rækilega að utan, gluggar taldir og svo framvegis.
Föstudagsmorgun horfðum við á DVD í setustofunni. Við horfðum á myndina Hani, krummi, hundur, svín, þetta eru dýrin mín. Í næstu viku mun ég svo nota þessa mynd til að kenna þeim að búa til hugarkort. Það sem var svo skemmtilegt við þessa mynd var að það er ekki mikið talað í henni en meira verið að fylgjast með dýrunum. Þá gafst börnunum tækifæri til að spjalla saman á meðan þau voru að horfa á og þau voru að deila sín á milli bæði reynslusögum og vitneskju.
Góða helgi
Kolla