Kæru foreldrar
Fyrsta vika skólaársins hefur gengið ljómandi vel og ekki annað að sjá en að allir séu sælir og glaðir eftir gott sumarfrí og sáttir við að koma í skólann aftur :)
Við byrjuðum vikuna á því að spjalla saman og ákveða hvaða reglur við vildum hafa í bekknum í vetur. Nemendur voru ekki lengi að segja til um hvernig þau vilja hafa hlutina og völdu reglur bekkjarins upp á eigin spýtur. Ég læt þær fylgja með í viðhengi ef þið viljið kíkja á þær.
Við höfum notað þessa fyrstu kennsluviku í rólegheitarvinnu og lagt áherslu á vettvangsferðir.
Fyrsta viðfangsefni vetrarins er Fjaran og hafið . Þar sem það viðfangsefni er rétt við nefið á okkur lá beinast við að fara út og skoða fjörurnar hér í kring.
Í dag föstudag gerðum við krossgátuverkefni í íslensku, höfðum val og fórum í minnisleiki.
Nú hafa allir foreldrar væntanlega séð nýju skipulagsbók nemenda Skjatta.
Þessa bók þarf að halda upp á og fara vel með því hún á að fylgja nemendum í allan vetur og í henni verða skrifaðar áætlanir hverjar viku fyrir sig.
Í næstu viku mun ég útskýra fyrir nemendum hvernig ætlunin er að nota Skjatta.
En nemendur koma til með að setja sér markmið fyrir hverja viku sem skrifuð verða í bókina. Nái þau markmiðum sínum á skólatíma hafa þau unnið af sér heimanám vikunnar.
Nái þau ekki að klára það sem sett var upp, vinna þau það upp heima.
Ég vil þó leggja áherslu á að ekki er ætlast til þess að eytt sé löngum tíma í heimanám, og heimanám á ekki að kosta „blóð, svita og tár".
Ef illa stendur á eða að markmið vikunnar nást ekki einhverjahluta vegna þá er lítill kassi í hverri vikuopnu (í Skjatta) þar sem foreldrar geta komið skilaboðum til kennara.
Þá er hægt að aðlaga markmið næstu viku að því.
Vilji nemendur vinna lengra en markmiðin segja til um, er það að sjálfsögðu leyfilegt líka :)
Við í 3. bekk ætlum að fara rólega í heimanámið í næstu viku og byrja á því að setja okkur markmið í stærðfræði. Auk þess lesa nemendur heima á hverjum degi og skrifa orðin sín í stílabókina sem kemur heim með nemendum í næstu viku.
Bestu kveðjur og góða helgi
Kristjana