Kæru foreldrar
Þessi vika hefur verið frekar róleg hjá okkur 5. bekkingum.
Þar sem 6. og 7. bekkingar eru að skemmta sér á Reykjum höfum við lagt skólastofuna undir þemavinnu vikunnar.
Við höfum verið að búa til veggspjald með tímalínu yfir landnámsmennina og alla þá merkilegu atburði sem við höfum verið að læra um í samfélagsfræði. Það er afskaplega lærdómsfullt að sjá svona myndrænt tímaröðina á öllum þessum stórmerkilegu viðburðum. Einnig höfum við haft gaman af því að velta því fyrir okkur hvernig fólk á þessum tíma leit út, hverju það klæddist, hvernig skipin litu út og svo framvegis.
Þar sem vinnusemi og dugnaður nemanda var einkennandi þessa vikuna gáfum við okkur meiri tíma en til stóð í þetta samfélagsfræði verkefni, það er bara svo spennandi!
Á fimmtudaginn kom Anna hjúkrunarfræðingur í heimsókn og fræddi okkur um tannvernd.
Við hlökkum mikið til að fá 6. og 7. bekk heim aftur, og fá að heyra skemmtilegar sögur frá ferð þeirra.
Raddlestarprófum 5. bekkinga hefur verið frestað um 2 vikur. Mikilvægt er að halda áfram að vera dugleg að lesa í skólanum og heima.
Í lok næstu viku eru Hörmunardagar á Hólmavík. Við tökum að sjálfsögðu virkan þátt í því. Í Grunnskólanum verða settar á svið flóttamannabúðir og gestum þannig kynnt hvernig aðbúnaður flóttafólks er í heiminum t.d. fólks frá Sýrlandi.
Á föstudeginum er því hefðbundinn skóli til kl. 10, síðan fer allt á fullt við að undirbúa hátíðina.
Gjörningurinn fer svo fram milli klukkan 12 og 13:30 og vonumst við til að sjá ykkur flest.
Athugið að matartími nemenda færist til og þar af leiðandi missa þau af íþróttatímanum á föstudeginum.
Kveðja,
Kristjana