Ágætu foreldrar og forráðamenn.
Þessi stutta skólavika var alveg ágæt. Krakkarnir voru full af orku eftir langt helgarfrí og það þótti sumum erfitt að vinna. Sumir kláruðu markmiðin sín, aðrir fara með heim það sem eftir er. Við breyttum sætaskipan í bekkjarstofunni en að mati kennara þá verður henni breytt aftur eftir helgi.
Á miðvikudaginn varð uppbrot í dagskrá bekkjarins. Í stað þess að fara í samfélagsfræði fyrstu tvær kennslustundirnar, var farið á leiksýningu sem eldri bekkirnir höfðu undirbúið. Þar voru sýnd brot úr 3 leikritum. Eftir að sýningu lauk voru gestir beðnir um að velja það leikrit sem þeim þótti mest til koma. Leikfélagið ásamt skólanum mun svo sýna það leikrit sem varð fyrir valinu.
Á fimmtudag kom Bjarki færandi hendi með lifandi háf í fiskikari og við gátum skoðað hann í frímínútunum. Háfurinn var um meter á lengd og frekar rólegur í karinu. Hér hefði nú verið gaman að muna eftir myndavélinni .....
Í dag, 11. október er baráttudagur gegn krabbameini og kallaður bleikur föstudagur. Mjög gaman var að sjá hve margir mættu í fallegum bleikum fötum í skólann, jafnt drengir sem stúlkur.
Við lærðum um austurland í samfélagsfræði í dag og ákváðum síðan, við mikil fagnaðarlæti, að taka því rólega í setustofunni og skemmta okkur saman yfir einni teiknimynd.
Umsjónarmenn vikunnar voru Villi og Díana og stóðu þau sig með prýði.
Þau voru mjög jákvæð gagnvart vikunni sem er ljúka. Þeim þótti allir dagar skemmtilegir. Þeim fannst þó sérstaklega gaman að fá að fara á leiksýninguna.
Bestu kveðjur, Villi, Díana, Sóley Ósk og Lára