Komiði sæl
Það hafa verið mörg fjölbreytt og skemmtileg verkefni sem við höfum fengist við þessa vikuna.
Á mánudaginn fórum við á brúðuleikritið Pétur og Úlfurinn og var ekki hægt að sjá betur en allir nemendur skemmtu sér mjög vel.
Stærsti hluti vikunnar fór svo í að undirbúa leiklistarhátíð grunnskólans. Nemendur 5. 6. og 7. bekkjar bjuggu til sitt atriði frá grunni og erum við kennararnir ákaflega stolt af þeim.
Þetta verkefni reyndi mikið á tillitsemi og þolinmæði og var mjög erfitt á köflum. Við teljum að þetta hafi verið mjög lærdómsríkt ferli fyrir alla.
Þetta fór svo allt saman vel að lokum og stóðu nemendur sig með prýði á leiklistarhátíðinni.
Nemendur hafa einnig verið duglegir við að vinna í ritgerðunum sínum um Benjamín dúfu og hafa nú flestir nemendur skilað inn sinni vinnu. Þeir nemendur sem enn eiga eftir að skila eru beðnir um að skila inn sem fyrst. Það er hægt að senda ritgerðirnar inn í tölvupósti til kennara og við prentum þær út.
Ásamt allri þessari vinnu hafa nemendur gengið allar götur á Hólmavík og keyrt á bæi í Ísafjarðardjúpi til að safna pening fyrir ABC barnahjálp. Að þessu sinni er barnahjálp að safna fyrir byggingu heimavistar fyrir fátækar stúlkur í Pakistan.
Við söfnuðum hvorki meira né minna en 47.539 kr. !
Umsjónarmenn vikunnar voru Guðrún og Guðbjartur og stóðu þau sig vel í því.
Hafið það sem allra best í páskafríinu og við minnum á að kennsla hefst að nýju samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 22. apríl.
Bestu kveðjur
Lára og Kristjana