Fara í efni

Foreldrabréf

27.09.2013
Heil og sæl kæru foreldrar og forráðamenn.Þessi vika hefur verið afar góð.  Nemendurnir hafa verið mjög vinnusamir og flest allir náðu að klára markmiðin sín, ef það er einhver s...
Deildu

Heil og sæl kæru foreldrar og forráðamenn.

Þessi vika hefur verið afar góð.  Nemendurnir hafa verið mjög vinnusamir og flest allir náðu að klára markmiðin sín, ef það er einhver sem tekur með sér heim þá er heimavinnan mjög lítil. Við erum afar stolt af börnunum ykkar, þau hafa staðið sig með prýði þessa vikuna sem segir okkur að nú er þau byrjuð að venjast skólanum aftur og rútínan sé farin að gera vart við sig.

Við spurðum þau í dag hvort þetta verði ekki vaninn hjá okkur  í 5.-7.bekk að vera svo rosalega dugleg og góð, auðvitað fengum við jákvæð viðbrögð. En eins og allir vita þá verða slæmir dagar inn á milli, en eftir þessa viku þá sjá kennararnir bara bjart framundan.

Þau hafa unnið í markmiðum þessa viku í stærðfræði, íslensku, ensku og samfélagsfræði. Í samfélagsfræði byrjuðu þau á hópverkefni á miðvikudaginn sem þau kynntu svo fyrir bekknum í dag föstudag. Hver hópur fékk eitt viðfangsefni, í boði voru jöklar, fuglar, hellar og eldfjöll.  Kynningin tókst vel til hjá öllum, þau höfðu sett saman texta um viðfangsefnið í tölvu og prentað út myndir. Því næst var þessu skellt á karton, einn hópur setti myndirnar í þrívídd, það vantar ekki ímyndunaraflið. 

Hjá 7.bekk voru samræmd próf í íslensku og stærðfræði á fimmtudag og föstudag og aðspurð voru þau bara kát með þau og að eigin sögn gekk þeim vel.  Við fengum heimsókn i tíma í tilefni skólatöskudaga þar sem við vorum vigtuð með og án skólatösku.  Skólataskan má ekki vera meira en 10% af þyngd nemenda og þau hlustuðu á fyrirlestur um hvernig á að raða í töskuna ásamt því að þau voru minnt á að taka bara þær bækur heim sem þörf er á, hinar á að geyma í skólanum.

Umsjónarmenn vikunnar voru Stefán, Kristín Lilja og Lárus

Þau höfðu þetta um vikuna að segja

 Í byrjun vikunnar voru krakkar frekar neikvæðir en það lagaðist og allir voru mjög duglegir og góðir. Í listum þá voru sumir að búa til klippimyndir, þá er tekin mynd af því sem við teiknum og svo eru gerðar hreyfimyndir af þeim hlut, það er skemmtilegt. Það var einn tími í vikunni sem er kallaður Val stundartöflunni, það voru margir ósáttir við að kennararnir fyndu eitthvað skemmtilegt að gera sem tengist  náminu. Margir krakkar vildu bara fá að leika sér. Þessi tími eyðilagðist alveg og var mjög leiðinlegur útaf því það voru allir að rífast. En sem betur fer lagaðist það og allir fóru glaðir heim.  Vikan var samt mjög skemmtileg og góð.
Kveðja,
Sóley, Lára, Stefán, Kristín Lilja og Lárus.

Til baka í yfirlit