Kæru íbúar Strandabyggðar,
Á sveitarstjórnarfundi þann 9.12 sl. var lögð fram til seinni umræðu, fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2026 og næstu þrjú ár á eftir, eða til 2029. Með þessum áætlunum er líka lögð fram útgönguspá yfirstandandi árs. Nokkrar breytingar urðu á þeim hluta áætlunarinnar sem snýr að útgönguspánni, og kemur þar helst til aukinn launakostnaður, aukinn framkvæmdakostnaður og minni tekjur. Ljóst er að tap verður á rekstri Strandabyggðar árið 2025 og gerir útgönguspáin ráð fyrir allt að 59 milljón króna tapi. En, þar sem hér er um spá að ræða og árið ekki liðið, er rétt að bíða og sjá hver endanleg niðurstaða verður.
Sé fjárhagsáætlun 2026 skoðuð, má sjá að þar eru áherslur sveitarstjórnar tengdar uppbyggingu, eflingu innviða og framkvæmd verkefna sem hlotið hafa opinbera styrki. Þar má nefna verkefni um hönnun á varmaskiptakerfi til að draga úr hitunarkostnaði við sundlaugina, fráveituverkefni sem miðar að því að setja niður hreinsistöðvar og svokallaða demantstöðvar og útrýma hefðbundnum útrásum og að lokum vatnsveituverkefni þar sem þjónustuhús við vatnstankinn verður stækkað og nýr geislunarbúnaður tekinn í notkun. Allt eru þetta verkefni sem miða að því að bæta innviðina okkar. Heildar fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum á árinu 2026 nemur um 150 milljónum. Að auki eru fjárfestingar sem tengjast eignarhlutum í félögum um tæpar 14,4 milljónir. Þar er um að ræða stofnfjárframlag vegna byggingar raðhúss í Brandskjólum, sem er verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Það er löngu vitað að Strandabyggð glímir við mikla innviðaskuld. Hér þarf að taka til hendinni víða og það hefur þessi sveitarstjórn sannarlega gert. Nýjasta dæmið er frábær leikskólalóð sem var tekin formlega í notkun í nóvember. Mörg önnur dæmi má nefna; endurbyggingu grunnskólans, réttarsmíði, gatnagerð, uppbyggingu Sorpsamlags Strandasýslu ofl.
Stóra verkefnið á árinu 2026 verður hins vegar innviðauppbygging í Brandskjólum, nýju íbúðarhverfi Strandabyggðar. Þar geta risið allt að 30 íbúðir og auk þess gert er ráð fyrir þjónustukjarna fyrir aldraða. Það er öllum ljóst, að mikil vöntun er á húsnæði á Hólmavík. Og þessi vöntun stendur uppbyggingu samfélagsins fyrir þrifum. Við fáum ekki fólk í vinnu, erfitt er að manna sumarstörf þjónustuaðila, ungt fólk á ekki mikla valkosti þegar það fer að búa og sama má segja um eldra fólk, það býr fram eftir aldri í eigin húsnæði. Þessu ætlum við að mæta og uppbygging Brandskjóla er liður í því. Önnur stór framkvæmd á árinu 2026, er innviðauppbygging í tengslum við hótelbyggingu á svæðinu við Jakobínutún. Þar verða talsverðar breytingar sem skapa mikil tækifæri í ferðaþjónustu og tengdum greinum.
Fjárhagsstaða Strandabyggðar er vissulega viðkvæm. En það má samt ekki gleyma því, að sveitarfélagið hefur staðið í miklum fjárfestingum á þessu kjörtímabili og mætt verulegum hindrunum og ófyrirséðum kostnaði. Allar voru þessar fjárfestingar þó óumflýjanlegar. En, það rofar til og strax á árinu 2026 er gert ráð fyrir hagnaði upp á um 16 milljónir króna. Ekki há tala, en réttu megin við strikið. Og hún er enn betri fyrir það að hún táknar viðsnúning úr tapi í hagnað. Næstu ár á eftir verða líka réttu megin við strikið, samkvæmt þessari fjárhagsáætlun. Þessi niðurstaða er okkur hvatning og segir okkur að við erum á réttri leið. Og það má taka fleiri jákvæðar fréttir úr þessari fjárhagsáætlun, því veltufé frá rekstri mun aukast verulega á árinu 2026 og mun vera um 12% á ári. Það er raunar sú tala sem margir horfa fyrst og fremst til, þegar staða sveitarfélaga er metin. Við erum því á réttri leið.
Kæru íbúar Strandabyggðar. Nánar má lesa um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins í greinargerð oddvita sem er hér, en með þessum pistli var hugsunin að gefa ykkur innsýn í hvert stefnir.
Við munum takast á við þá innviðaskuld sem fyrir liggur, ásamt því að skapa ný verkefni. Sú uppbygging sem er fram undan er nauðsynleg til að Strandabyggð vaxi og stækki og haldi sterkri stöðu sinni á Ströndum og nágreni, sem sterkur þjónustukjarni og gott samfélag.
Áfram Strandabyggð!
Kveðja, Þorgeir Pálsson, oddviti
