Komiði sæl
Við í 3. bekk höfum átt notalega viku og unnið að skemmtilegum og lærdómsríkum verkefnum í vikunni.
Mánudagurinn fór að miklu leyti í það að útskýra fyrir nemendum fyrirkomulagið á Skjatta og að setja sér markmið í stærðfræði fyrir vikuna.
Misvel gekk hjá nemendum að ná þeim markmiðum sem þeir settu sér fyrir vikuna.
Við erum að læra af þessu og ætlunin er einmitt að sjá hversu mikið efni hver og einn nemandi ræður við. Ég hef tekið þá ákvörðun að þeir nemendur sem settu markið full hátt fyrstu vikuna fari ekki með heimalærdóminn heim, heldur aðlagi næstu viku að því hvernig sú fyrsta gekk.
Í næstu viku munu nemendur setja sér markmið bæði í íslensku og stærðfræði og stefni í að ekki náist að klára í skólanum, munu bækurnar fylgja með heim.
Nemendur í Grunnskólanum á Hólmavík hafa það fyrir venju að hittast einu sinni í viku og syngja saman. Í vetur munum við hefja hverja viku á sameiginlegri söngstund kl 8:10 á mánudögum.
Í listum höfum við verið að búa til sandmyndir og viðfangsefnið er að sjálfsögðu fjaran og hafið.
Við fórum í leiki með hljóðfæri og æfðum okkur á að halda sama takti. Það vakti mikla lukku.
Á fimmtudaginn var svo gott veður að við gátum með engu móti haldið okkur innandyra. Við skelltum okkur því út á skólalóð í nokkra leiki. Eftir hádegi ákváðum við einnig að fara út og tókum þá bækurnar með.
Á föstudaginn fórum við í vettvangsferð niður á bryggju. Sáum krossfiska og helling af sílum. Við kíktum einnig aðeins inn í beitningaskúrana þar sem menn voru við vinnu.
Á föstudaginn í næstu viku er starfsdagur í skólanum og því frí hjá nemendum.
Bestu kveðjur
Kristjana