Hápunktur ferðarinnar var án efa Söngkeppni Samfés, en þar gerðu fulltrúar félagsmiðstöðvarinnar sér lítið fyrir og náðu þriðja sæti eftir frábæran flutning á laginu Lýstu skært. Hópurinn, sem kallar sig Gógópíurnar, samanstendur af söngkonunum Brynju Karen Daníelsdóttur, Gunni Arndísi Halldórsdóttur, Söru Jóhannsdóttur, Margréti Veru Mánadóttur og trommukassalemjaranum Fannari Frey Snorrasyni. Þau voru örugg og yfirveguð í öllum flutningi og fasi, bæði á sviði og baksviðs. Fjölmargir einstaklingar lögðu hönd á plóginn í kringum söngatriðið og ferð Félagsmiðstöðvarinnar Ozon til höfuðborgarinnar.
Strandabyggð óskar Félagsmiðstöðinni, þátttakendum í starfi hennar og Gógópíunum innilega til hamingju með frábæran árangur!
