Fara í efni

Brynja Karen vann söngkeppni Ozon

24.01.2011
Föstudagskvöldið 21. janúar var haldin bráðskemmtileg söngvakeppni félagsmiðstöðvarinnar Ozon í skólanum á Hólmavík. Flutt voru sex stórskemmtileg og vönduð atriði og síðan vo...
Deildu
Föstudagskvöldið 21. janúar var haldin bráðskemmtileg söngvakeppni félagsmiðstöðvarinnar Ozon í skólanum á Hólmavík. Flutt voru sex stórskemmtileg og vönduð atriði og síðan voru fjögur þeirra valin til áframhaldandi þátttöku í Vestfjarðakeppni Samfés. Sérvalin dómnefnd skipuð þeim Kristni Schram, Salbjörgu Engilbertsdóttur og Sigurróðs Þórðardóttur ákváðu hverjir hrepptu sætin fjögur. Veglegir vinningar voru í boði fyrir sigurvegarar.

Það var Brynja Karen Daníelsdóttir sem kom, sá og sigraði í keppninni, en hún flutti lagið Svo smá sem margir kannast eflaust við af sólóplötu Heiðu "okkar" Ólafs. Aðrir sem komust áfram voru Andrea Messíana Heimisdóttir með frumsamda lagið og textann Leyndarmál, Sara Jóhannsdóttir sem söng lagið Án þín með Trúbroti og Gunnhildur Thelma Rósmundsdóttir sem flutti lagið Lítill drengur sem Villi Vill gerði frægt um árið.

Landshlutakeppnin verður síðan haldin á Hólmavík föstudaginn 28. janúar, í félagsheimilinu. Keppnin hefst kl. 20:00. Sigurvegari þar kemst svo í Söngvakeppni Samfés á landsvísu, en hún fer fram laugardaginn 5. mars.

Jón Jónsson fréttaritari strandir.is var á staðnum og smellti af fullt af myndum af keppendum. Kíkið á það með því að smella hér.
Til baka í yfirlit