Kæru íbúar Strandabyggðar
Nú er loks komið að breytingu á sorphirðu í Strandabyggð vegna nýrra laga um meðhöndlun úrgangs. Við erum búin að fara marga hringi hvernig væri best að gera miðað við að þjónusta íbúa sem best og gera það á sem hagkvæmastan hátt. Við vorum með hugmyndir um svokallaðar botnlangastöðvar en fengum ekki leyfi frá ráðuneytinu til þess að fara þá leið. Svo á endanum var valin sú leið að setja 3 tunnur við hvert heimili og safna lífúrgangi í fötur. Þess má geta að fleiri sveitarfélög hafa tekið þá stefnu að fara sömu leið og Strandabyggð með lífúrgang.
Í desember munum við úthluta þremur 240 lítra merktum tunnum, einni fyrir plast, einni fyrir pappa og pappír og einni fyrir almennan heimilis úrgang, ásamt fötum fyrir lífúrgang. Öllum flokkum verður síðan safnað á 6 vikna fresti, samkvæmt sorphirðudagatali, fyrir utan lífúrgang sem verður safnað í hverri viku eftir götum. Það sem má fara í fötuna með lífúrgangi verður kynnt á heimasíðu Strandabyggðar og verður hægt að skanna QR kóða sem er á fötunum sem leiðir þig beint á þessar upplýsingar. Kynnt verður síðar hvernig söfnun á lífúrgangi fer fram. Settar verða upp grenndarstöðvar á þremur stöðum, ein verður á Hólmavík og tvær í dreifbýli. Þar verður hægt er að fara með glerumbúðir, málmumbúðir og textíl. Staðsetningar grenndarstöðva verða kynntar síðar.
Í byrjun árs 2026 verður móttökustöðinni hjá Sorpsamlagi Strandabyggðar lokað og verður hún opin þrisvar sinnum í viku á skilgreindum opnunartíma. Þar verður tekið á móti úrgangi samkvæmt gjaldskrá hverju sinni. Sé óskað eftir aðgang að móttökustöðinni utan opnunartíma er hægt að semja um það sérstaklega.
Í dreifbýli verður úthlutað tunnum fyrir pappa, plast og almennan úrgang á hvert lögheimili. Gámar og kör á núverandi sorphirðustöðum verða fjarlægð.
Rekstaraðilar og lögbýli í Strandabyggð skulu sjálfir sjá um að koma úrgangi sem fellur til við reksturinn í viðeigandi meðhöndlum. Einnig geta rekstararaðilar gert samning við þjónustuaðila um losun á úrgangi. Þess má geta að rekstraraðilum er skylt að flokka úrgang eftir: pappa, pappír, plasti, málmumbúðum, glerumbúðum, textíl, almennum úrgangi og lífúrgangi. Breyting verður á sorphirðugjöldum til fyrirtækja með nýju fyrirkomulagi.
Strandabyggð er skylt að fara í þessar breytingar vegna laga um úrgangsmál sem tóku gildi 1. janúar 2023.
Hér er hægt að nálgast upplýsingar um flokkun úrgangs.
