Fara í efni

Breyting á sorphirðu tekur gildi á næstu dögum

06.01.2026
Á næstu dögum munu starfsmenn Strandabyggðar keyra út nýjum tunnum á hvert heimili í Strandabyggð.
Deildu

Samkvæmt reglugerð um meðhöndlun úrgangs nr. 803/2023 og lögum um meðhöndlun úrgangs nr.  55/2003 þarf Strandabyggð að fara í breytingar á fyrirkomulagi sorphirðu. Samkvæmt lögum og reglugerðinni er sveitarfélaginu skylt að sækja eftirfarandi flokka við heimili, pappa/pappír, plast, lífúrgang og almennt sorp. Á næstu dögum munu starfsmenn Strandabyggðar keyra með þrjár nýjar tunnur á hvert lögheimili. Lögheimili í þéttbýli fá einnig fötur undir lífúrgang, en ekki verður sóttur lífúrgangur í dreifbýli. Sumarhúsaeigendur geta óskað eftir tunnum undir úrgangsflokka hjá skrifstofu Strandabyggðar. 

Fyrirtæki og rekstraraðilar sjá sjálf um að losa úrgang eða semja við þar til gerðan þjónustuaðila um losun úrgangs og þarf þjónustuaðilinn að hafa tilskilin leyfi og réttindi til flutnings á úrgangi til förgunarstaða. Strandabyggð mun ekki sjá um losun úrgangs fyrirtækja/rekstraraðila. 

Við hvetjum íbúa til að lesa og kynna sér Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Strandabyggð, þar sem allar helstu upplýsingar eru að finna. 

Hér er að finna nýja Gjaldskrá Sorphirðu og sorpeyðingu í Strandabyggð 2026 sem mun taka gildi þegar hún hefur verið birt á Stjórnartíðindum, sem verður 8. janúar nk. 

Öll lögheimili munu fá þrjár 240 lítra tunnur fyrir pappa/pappír, plast og óflokkanlegan heimilisúrgang ásamt fötur fyrir lífúrgang í þéttbýli. Hægt er að óska eftir stærri tunnum, 660 lítra og er greitt fyrir það samkvæmt gjaldskrá. 

Hægt er að sækja um niðurfellingu á gjaldi vegna lífúrgangs til skrifstofu Strandabyggðar ef notast er við aðrar viðurkenndar leiðir til förgunar lífúrgangs. Í þeim tilfellum verður lífúrgangur ekki sóttur á viðkomandi heimili. 

Hægt er að sækja um breytingu á íláti/tunnum, viðbótarílát, auka hirðingu eða breytingu á skráningu til skrifstofu Strandabyggðar, strandabyggd@strandabyggd.is. Hægt er að senda beiðnir um breytingu til skrifstofu Strandabyggðar til og með 7 janúar, eftir það munu starfsmenn Strandabyggðar keyra út tunnum á hvert heimili. Það verður þó áfram hægt að óska eftir breytingum til skrifstofu Strandabyggðar og verður brugðist við þeim beiðnum eins fljótt og mögulegt er.

Óflokkanlegur heimilisúrgangur er sóttur á fjögurra vikna fresti og pappi/pappír og plast eru sótt á sex vikna fresti, á sex vikna fresti, samkvæmt Sorphirðudagatali. Hér er hægt að nálgast leiðbeiningar varðandi flokkun úrgangs.

Séu einhverjar spurningar þá er hægt að hafa samband við skrifstofu Strandabyggðar í síma 4513510 eða senda tölvupóst á strandabyggd@strandabyggd.is

Við vonumst til þess að íbúar séu jákvæðir gagnvart þessum breytingum og hvetjum þá sem hafa einhverjar spurningar varðandi breytt fyrirkomulag að hafa samband. Við viljum einnig vekja athygli á ákvæði 5. gr Samþykktar á meðhöndlun úrgangs í Strandabyggð þar sem er tilgreint að húseigendum og umráðamanni húsnæðis er skylt að nota þær aðferðir og þau ílát við geymslu og meðferð úrgangs sem Strandabyggð ákveður og skulu sorpílát við hús vera geymd á einum stað en ekki dreift um lóð. Húsráðendur skulu tryggja góða umgengni vegna úrgangs og skulu halda ílátum hreinum og í góðu ástandi. Húsráðendur bera ábyrgð á þeim ílátum sem þeim er ætlað vegna sorphirðu við heimili. Húsráðendur skulu hreinsa snjó frá ílátum og halda greiðfærri leið að þeim, sé ekki greiðfært að ílátum er framkvæmdaraðila heimilt að sleppa losun í það skipti. 

Til baka í yfirlit