Góđ gjöf frá nemanda
Þessi ungi piltur í 8. bekk Símon Ingi Alfreðsson kom færandi hendi í vor og gaf skólanum alla Legókubbana sína að gjöf í þessum fína kassa. Gjöfin kom sér mjög vel og hafa nemendur skólans notið hennar vel og mikið bæði í sérkennslunni og við leik og störf í skólanum. Símon Ingi var þeirrar skoðunar að kubbarnir kæmu að betri notum hér en heima þar sem margir nemendur þyrftu á því að halda að geta litið upp úr hefðbundnu bóknámi, breytt um umhverfi og farið að kubba sem er jú til gagns og ekki einungis gamans. Legókubbar eru góðir til að þjálfa fínhreyfingar, rökhugsun, stærðfræði og þjálfa samhæfingu augna og handa. Skólinn þakkar Símoni Inga og fjölskyldu fyrir þessa góðu gjöf.
Það er ekki nóg með að Símon hafi gefið Legókubbana sína heldur hefur hann verið einstaklega handlaginn hér innan húss og meðal annars aðstoðað okkur við að setja saman þessar hvítu hillur sem hafa reynst nemendum og kennurum vel. Símon er mikill verkmaður, vandvirkur og útsjónarsamur þegar það kemur að því að setja saman hluti og höfum við aldeilis notið góðs af því í gegnum árin.
Fróđleiksmolar um ADHD frá félagsmálastjóra
Ekki er til lækning við ADHD enda ekki skilgreint sem sjúkdómur.
Þetta er krónískt ástand sem fylgir einsatklingi frá barnsaldri, en það
er oftast greint innan 7 ára aldurs, til fullorðinsára. Mikilvægt er að
skilja að barn sem er með ADHD velur ekki sjálft að vera til vandræða -
og er í sjálfu sér ekki til vandræða heldur veldur frávikið hegðun
þess. Því miður verða börn með ADHD oft útskúfuð félagslega vegna
hegðunar sinnar. Þó er hægt að kenna barni með ADHD ýmislegt til að
hjálpa því að falla félagslega inn í hópa. Flest þessi börn eru á
lyfjum, fjölskyldur þeirra fá ráðgjöf og stuðning til að eiga við hegðun
barnsins og oft eru gerðar einstaklingsmiðaðar stundaskrár í skóla til
að barninu gefist kostur á að læra á sínum hraða og samkvæmt sinni getu
sem getur verið mismunandi frá degi til dags. Einnig er stuðst við
hegðunarmótandi aðferðir.
Það skal tekið skýrt fram að ADHD er algerlega óháð greind. Börn
með ADHD geta vel lært. Þau þurfa umfram allt á skilningi, stuðningi,
umhyggju og þolinmæði þeirra að halda sem vinna með þeim. Foreldrar
barna, sem eru í bekk með börnum sem glíma við ADHD, þurfa að upplýsa
börn sín um hvað það sé að vera með ADHD og hvað það felur í sér. Börn
eru að upplagi fordómalaus og við foreldrar þurfum að vera þeim
fyrirmynd og meðvituð um okkar eigin fordóma.
Foreldrar barna með ADHD þurfa einnig á skilningi annarra að halda og stuðningi því að það er ekki alltaf auðvelt að glíma við barn með ADHD. Góðu fréttirnar eru þær að almenningur er orðinn mjög meðvitaður um hvað það felur í sér að eiga barn með ADHD og því hafa fordómar samfélagsins minnkað til muna. Þetta hjálpar foreldrum barnanna mikið fyrir utan hvað það skiptir einstaklinginn sjálfan miklu máli sem glímir við röskunina.
Stöndum saman og sýnum skilning, það skilar alltaf bestum árangri.
Hildur Jakobína Gísladóttir
félagsmálastjóri Stranda og Reykhólahrepps
JÓLAFÖNDUR FORELDRAFÉLAGSINS
Í ár ætlum við að mála á keramik:
- Fólki gefst kostur á að kaupa eina keramikstyttu til þess að mála á kr. 1.500 kr.
- Innifalið í verði er afnot af málningu og penslum sem verða á staðnum (ef að fólk á pensla má það gjarnan hafa þá meðferðis).
- Ef að fólk vill koma og föndra eitthvað annað er það velkomið, t.d jólakort eða það sem fólki dettur í hug.
Nemendur sem eru á leið í nemendaferð til Danmerkur munu selja kakó og piparkökur á vægu verði. Svo er aldrei að vita nema jólasveinninn kíki í heimsókn til okkar. Ljúf og notaleg stemning og jólalögin munu óma. Allir hjartanlega velkomnir.
Með kveðju frá stjórn foreldrafélags Grunnskólans á Hólmavík.
Breyting á skólastarfi vegna námskeiđs starfsmanna
Eins og áður hefur komið fram verður er vikan 23.- 30. nóvember nk. helguð fróðleik um ADHD (sem er athyglisbrestur og ofvirkni). Grunnskólinn og Tónskólinn hafa lagt á það ríka áherslu allt starfsfólk og foreldrar eigi þess kost að sitja námskeið um ADHD sem fram fer á fimmtudag og föstudag. Námskeiðið sem er haldið í fjarfundi fimmtudaginn 24. nóvember kl. 13:00-17:00 og framhald verður daginn eftir föstudaginn 25. nóvember frá kl. 10:00-12:00 og frá kl. 13:00-17:00. Því hefur verið tekin ákvörðun um að allt starf í Grunn- og Tónskólanum falli niður frá því að nemendur bekkjardeilda hafa lokið síðustu kennslustund fyrir hádegishlé þessa tvo daga.
Kennslu í 1. - 6. bekk lýkur því klukkan 12:20 báða
dagana og kennslu í 7. - 10. bekk lýkur því
klukkan 11:50 báða dagana. Þeir sem eru að nýta þjónustu mötuneytis á Café Riis
snæða hádegisverð áður en þeir fara heim. Skólabílar fara frá Grunnskóla kl. 13:00 þessa daga. Öll starfsemi fellur niður og skólahúsnæðið verður lokað frá kl. 13.
Ljósmyndataka
Á morgun, þriðjudaginn 22. nóvember, kemur hann Bjarni Jónsson ljósmyndari frá Mynd - Ljósmyndastofu og tekur myndir af nemendum og starfsfólki í Grunnskólanum á Hólmavík. Sú nýbreytni verður á að nú myndar hann hópmyndir af öllum deildum og tekur einstaklingsmyndir af öllum í viðkomandi deildum. Þegar þessu er lokið fara viðkomandi myndir inn á vef ljósmyndastofunnar, með aðgangslykli skólans, þar getur fólk skoðað, valið og pantað. Hverjum og einum er síðan frjálst að kaupa eftir hentugleik. Engin greiðsla fer fram áður og engin innheimta á sér stað í skólanum, eingöngu um leið og pantað er á vefnum. Hópmyndin kostar það sama og undanfarin ár, kr: 2500.- hún er í stærðinni 20x25cm með nöfnum allra sem á myndinni eru. Algengasta myndapöntun er sú sama og var í fyrra og kostar það sama núna kr: 2000.- í henni er innifalið eftirfarandi 1. mynd 13x18cm, 1.mynd 9x12cm og síðan fjórar passamyndir. Vinsamlegast athugið að vefurinn er ljósmyndavefur og öllum sem hafa aðgangsorð skólans opinn. Eftir myndatökuna tekur við vinnsla á myndunum, hún getur tekið tvær vikur, lykill vegna skólans verður sendur öllum þegar myndirnar eru tilbúnar á vefnum.
ADHD vika
Dagarnir 23. - 30. nóvember í
Grunnskólanum á Hólmavík verða helgaðir fróðleik um ADHD, sem er
athyglisbrestur og ofvirkni. Skipulagning stendur yfir og munum við, Hildur Guðjónsdóttir
og Jóhanna Hreinsdóttir, annast undirbúninginn í samvinnu við starfsmenn
skólans, foreldra og aðra áhugasama. Markmið með verkefninu er að auka fræðslu og skilning okkar á ADHD röskun sem
leiðir til betri hegðunar, líðan og viðhorfi allra í samfélaginu. Við viljum
byggja upp jákvætt og uppbyggjandi umhverfi fyrir einstaklinga með ADHD þannig
að þeir fari út í framtíðina með góða sjálfsmynd sem er forsenda velgengni. Við
viljum stuðla að því að því að börnin bíði ekki stöðuga ósigra í daglegu lífi
heldur mæti stuðningi og umfram allt skilningi. Við berum öll ábyrgð og getum
lagt okkar að mörkum með því að sýna jákvætt viðmót, hrós og viðurkenningu á
ADHD.
Í ADHD vikunni ætlum við að reyna að auka vitund og fræðslu um ADHD með því að
virkja alla nemendur og starfsfólk Grunnskólans á Hólmavík þannig að allir
leggi eitthvað að mörkum til vitundarvikunnar. Við ætlum að vinna með
viðfangsefnið á heildstæðan hátt og samþætta það hluta af námi og kennslu
skólans í eina viku. Í tilefni af ADHD vikunni stöndum við fyrir námskeiðinu Skólaganga barna með
athyglisbrest og ofvirkni, námskeið fyrir kennara og annað starfsfólk
grunnskóla. Námskeiðið verður haldið í fjarfundi. Kennslu í 1. - 6. bekk lýkur því klukkan 12:20 á fimmtudag og föstudag og kennslu í 7. - 10. bekk lýkur
klukkan 11:50 báða dagana.
Sigurvegarar myndbandakeppni 66°NORĐUR
Verðlaunaafhending fór fram í verslun 66°NORÐUR Faxafeni 12, núna á laugardaginn kl 11:00 og fjölmenntu nemendur og aðstandendur þeirra sem að sigurmyndbandinu unnu auk Arnars S. Jónssonar tómstundafulltrúa og stundarkennara og Hildar Guðjónsdóttur aðstoðarskólastjóra. Unnu nemendur hver fyrir sig 20 þúsund króna úttekt í verlsun 66°NORÐUR ásamt því að vinna veglega Sony myndbandsupptökuvél og blómvönd fyrir skólann. Stöð 2 var á staðnum og tók viðtöl sem sjá má hér. Einnig mátti lesa fréttir um þetta á hinum ýmsu vefmiðlum. Myndin fjallar á gamansaman hátt um raunir ungs bensínafgreiðslumanns sem þarf að berjast við kuldabola, skrítna viðskiptavini og latan samstarfsmann. Hægt er að sjá sigurmyndbandið með því að smella hér.
Við erum afar stolt af okkar fólki og óskum öllum innilega til hamingju með sigurinn!
Skipulagsdagur og foreldraviđtöl
Í dag fimmtudaginn 10. nóvember er skipulagsdagur starfsmanna skólans og því frí hjá nemendum. Á skipulagsdeginum verður m.a. fjallað um nemendaverndarráð, fyrirhugaða ADHD-viku skólans, eineltismál, samskipti nemenda, unnið að vitnisburðum nemenda, foreldraviðtöl undirbúin og fleiri fagleg mál.
Á föstudaginn 11. nóvember eru svo foreldraviðtöl í Grunn- og Tónskólanum þar sem foreldrar og forráðamenn fá viðtal með umsjónarkennara og tónlistarkennara barna sinna og fara yfir stöðuna eftir haustönnina, líðan og fleira. Þann dag er frí hjá nemendum.
Nemendur hafa fengið miða með sér heim þar sem fram kemur hvenær hver á að mæta. Einnig hafa upplýsingar um það borist með tölvupósti og eru aðgengilegar hjá riturum skólans í s. 451-3129. Hlökkum til að sjá ykkur.
Lestrarvika Arion banka og Disney
Krakkar á öllum aldri eru hvattir til þess að vera með í Lestrarviku Arion banka og Disney. Markmiðið er að hvetja krakka til að vera duglegir að lesa skemmtilegar bækur og skólaefni. Ekki skiptir máli hvað er lesið; skáldsögur, teiknimyndasögur, skólabækur, Andrés blöð eða annað skemmtilegt lesefni. Allt telst með. Nöfn þeirra sem skrá lestur sinn fara í pott og í lok vikunnar verða dregnir úr honum yfir 100 þátttakendur sem fá veglegan vinning. Á meðal vinninga er Disney kökubókin, Disney áskriftir og fleira. Við munum líka draga út skemmtilegan vinning daglega á meðan lestrarvikunni stendur og í lok vikunnar verður Lestrarhestur Arion banka valinn. Lestrarhesturinn hlýtur Ipad í verðlaun. Smellið hér til að skrá ykkur!