Skólaslit
Skólaslit Grunn- og Tónskóla verða 1. júní klukkan 12.00 í Hólmavíkurkirkju.
Öll velkomin
Skólaþjónustan Ásgarður og fjórtán grunnskólar hafa í vetur unnið að því að skipuleggja valgreinar fyrir unglingastig þvert á skóla, þvert yfir landið.
Upphaf þessarar vinnu var rausnarlegur styrkur til Ásgarðs og Skóla í skýjunum síðastliðið haust frá samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra SSNV. Styrkurinn var meðal annars nýttur til að þróa miðlægt tvær valgreinar. Nemendur í níu skólum tóku þátt í náminu á netinu sem heppnaðist afar vel og framhaldsstyrkur varð svo til þess að farið var í að þróa valgreinaval í samstarfi við fleiri skóla.
Í samráði við skólastjórnendur í fjórtán skólum var nemendum gefinn kostur á að koma með tillögur að valgreinum og taka þátt í forvali. Að öllum líkindum verður hægt að bjóða upp á allt að fjórtán valgreinar í Valgreinaskólanum næsta haust. Meðal valgreina í boði verða Kökuskreytingar, íþróttaval, eðlis- og efnafræðival, kvikmyndagerð, franska, þýska, hljóðblöndun, kynjafræði, rafíþróttir, tölvuleikjahönnun og leiklist.
Samstarfsskólarnir eru: Reykhólaskóli, Patreksskóli, Bíldudalsskóli, Tálknafjarðarskóli, Grunnskóli Bolungarvíkur, Grunnskólinn á Hólmavík, Hríseyjarskóli, Stórutjarnaskóli, Þingeyjarskóli, Reykjahlíðarskóli, Öxarfjarðarskóli, Grunnskóli Raufarhafnar, Skóli í skýjunum og Þórshafnarskóli.
Valgreinarnar verða settar upp á Námsgagnatorgi í Valgreinaskólanum. Kennarar koma úr þátttökuskólunum. Þetta er þess vegna tækifæri í starfsþróun fyrir kennara í Valgreinaskólanum auk þess sem þekking þeirra og hæfni nýtist fleirum. Þetta er líka tækifæri fyrir nemendur í fámennum skólum sem fá þá aðgang að fjölbreyttum valgreinum í samræmi við áhugasvið sitt og efla tengslanet sitt með því að kynnast nemendum úr öðrum skólum. Annað eins framboð af valgreinum er ekki mögulegt að bjóða án þessa samstarfs.
Í vikunni var formleg afhending grænfána til skóla í Strandabyggð. Í ár bættist við þriðji skólinn sem fær þessa umhverfisvottun sem grænfáninn er, en það er Vinnuskóli Strandabyggðar.
Grænfáninn er umhverfisverkefni sem skólar á öllum skólastigum geta tekið þátt í og er helsta innleiðingartæki menntunar til sjálfbærni í heiminum í dag.
Grunn- og tónskólinn á Hólmavík hefur verið í grænfánaverkefninu síðan 2007 og fær nú sinn fimmta fána. Leikskólinn Lækjarbrekka er að fá sinn þriðja fána eftir nokkurt hlé. Þessir tveir skólar voru sameinaðir árið 2020 og munu framvegis vinna sem einn skóli og setja sér sameiginleg þemu og markmið til næstu tveggja ára. Nú þegar hafa umhverfisnefndir skólans ákveðið að annað þemað af tveimur verði lýðheilsa en samtímis er sameinaður skóli að fara í verkefnið „heilsueflandi grunnskóli“ sem Landlæknisembættið stendur fyrir.
Umhverfisnefnd grunnskólans skipulagði samverustund í skógi í tilefni afhendingarinnar.
Þar afhenti Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri viðurkenningarspjöld frá Landvernd og fulltrúar hvers skóla tóku við þeim ásamt grænfánaskiltum. Þá var boðið upp á kakó og piparkökur, leiki við allra hæfi og jólasveinarnir létu sig ekki vanta.
Skólar á grænni grein, grænfánaverkefnið er alþjóðlegt umhverfismenntaverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla. Verkefnið er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education.
Jólalestin er nýtt og spennandi frumkvöðlaverkefni á Vestfjörðum. Verkefnið snýst um að gefa af sér til samfélagsins og er unnið í samvinnu við FabLab nýsköpunarsmiðju á Ísafirði og stutt af fjölmörgum fyrirtækjum á Vestfjörðum. Smíðaðir hafa verið 12 jólapóstkassar og 12 jólasleðar.
Börn í Strandabyggð og annars staðar á Vestfjörðum fá tækifæri til að skrifa jólasveininum bréf og fá svar og óvæntan glaðning til baka. Bréfin eru skrifuð á sérstakt bréfsefni og þar er meginhugmyndin að allir geti látið gott af sér leiða og gert góðverk.
Einar Mikael Sverrisson stýrir verkefninu. Einar Mikael er einnig þekktur töframaður og hefur komið á Strandir sem slíkur.
Næstu daga verður póstkassinn til skiptis í Leikskólanum Lækjarbrekku og Grunn- og Tónskólanum á Hólmavík.