Námsmatsstefna
Námsmatsstefna Strandabyggðar byggir fyrst og fremst á því að varða leið nemenda að einstaklingsmiðuðum framförum með skýrum námsmarkmiðum á fjölbreyttan hátt. Námsmat á að byggja á stöðugri staðfestingu á því að nemandinn sé á réttri leið.
Það er yfirlýstur vilji skólans að hjálpa nemendum að ná markmiðum sínum, að námsmarkmið séu ávallt skýr nemendum og viðmið um árangur greinileg og skiljanleg. Það er mikilvægt fyrir nemendur og foreldra/forsjáraðila að sem mestur hluti námsmats fari fram í rauntíma, þ.e. að um leið og nám á sér stað fái nemendur staðfestingu á því hvort að þeirra skilningur, þekking og færni sé í samræmi við það markmið sem sett var um námið.
Námsmat fer fram reglulega yfir veturinn og liggur fyrir og er aðgengilegt nemendum og foreldrum um leið og verkefnum lýkur og í sumum tilvikum á meðan á þeim stendur inni á námsumsjónarkerfi skólans. Nemendur taka þátt í að leggja mat á eigin verkefni, verða sérfræðingar í því að bæta sig og að fylgjast með eigin framförum. Námsvísir skólans sýnir hvaða verkefni og grunnþættir hafa forgang á hverju ári. Þar sjást þau áhersluatriði sem unnið er með á hverju tímabili.
Í Strandabyggð eru námsvísar endurskoðaðir á hverju vori í takt við þarfir og áherslur skólans. Allar ákvarðanir um nám nemenda byggja á áhersluþáttum aðalnámskrá grunnskóla, en það eru helst grunnþættir menntunar og í hæfniviðmiðum sem þar birtast. Hæfniviðmiðin gefa mynd af þeirri hæfni sem á að hafa náðst við lok 4. bekkjar, við lok 7. bekkjar og við lok 10. bekkjar. 1. - 4. bekkur (yngsta stig) vinnur að hæfniviðmiðum við lok 4. bekkjar í fjögur ár. Sama á við um 5. - 7. bekk (miðstig) og 8. - 10. bekk (elsta stig) sem hafa þrjú ár að vinna að hæfniviðmiðum sem í gildi eru við lok þeirra skólastiga. 10. bekkur vinnur líka með matsviðmið einkum eftir áramót. Allt mat byggir á skýrum viðmiðum um árangur hverju sinni.
Námsmatsstefna
Uppfært í mars 2025. Næsta endurskoðun vor 2027.