A A A

Valmynd

Blár dagur - föstudagurinn 10. apríl

Hrafnhildur Guđbjörnsdóttir | 09. apríl 2015
 
Við ætlum að hafa bláan dag, föstudaginn 10. apríl í Grunnskólanum á Hólmavík í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfunnar. Alþjóðlegur dagur einhverfunnar er haldinn um allan heim þann 2 apríl ár hvert og er fólk um allan heim hvatt til að klæðast bláum fötum þennan ágæta dag til að vekja athygli á málefninu. Þar sem 2. apríl bar upp á skírdag í ár verður blái dagurinn haldinn þann 10. apríl og í ár ætlum við að taka þátt. Því hvetjum við ykkur til að senda börnin bláklædd í skólann á föstudaginn.

Áhugasamir eru hvattir til að smella myndum af sér og börnunum og setja á netið með skilaboðunum „Við klæðumst bláu til vitundarvakningar um málefni barna með einhverfu“. Ef myndirnar eru settar inn á Instagram má endilega merkja þær #blarapril. Þannig má taka þátt í að breiða út boðskapinn og vekja athygli á þessu góða málefni sem snertir svo marga.

Athyglisverðar staðreyndir um einhverfu:
·      1 af hverju 88 barni fæðist með röskun á einhverfurófi
·      Hjá drengjum eru líkurnar 1 á móti 54 – fimm sinnum meiri en hjá stúlkum
·      Einhverfa er fötlun - ekki sjúkdómur (algengur misskilningur) og því ólæknandi
·      Það skiptir sköpum fyrir einhverfa að fá viðeigandi þjálfun eins fljótt og hægt er

Einhverfa er skilgreind sem röskun í taugaþroska heilans. Þessi röskun í taugaþroska heilans leiðir af sér ákveðin hegðunareinkenni en út frá þeim eru einstaklingar greindir með röskun á einhverfurófi. Þeir einstaklingar sem greinast með röskun á einhverfurófi eiga í erfiðleikum með félagslegt samspil, mál og boðskipti og eru oftar en ekki með sérkennilega eða áráttakennda hegðun. Erfiðleikar varðandi félagslegt samspil geta komið fram sem skortur á augnsambandi, skortur á frumkvæði í samskiptum eða sem erfiðleikar við að mynda vinasambönd við jafnaldra. Erfiðleikar varðandi mál og boðskipti geta komið fram sem skortur á látbragði og eftirhermu, ekkert talmál eða erfiðleikar með mál. Sérkennileg og áráttukennd hegðun einstaklinga með röskun á einhverfurófi getur komið fram í ákveðnum venjum og eru því athafnir oft framkvæmdar í ákveðinni röð. Einnig er algengt að einstaklingar með röskun á einhverfurófi sýni ákveðnum hlutum óvenju mikinn áhuga og tali því óeðlilega mikið um sín hugarefni. Þessi ofangreind hegðunareinkenni þurfa einstaklingar að sýna til þess að greinast með röskun á einhverfurófi. Þó er mjög mismunandi á milli einstaklinga hvernig birtingarmynd einkennanna er og hversu alvarleg eða hamlandi þau eru fyrir einstaklinginn. Einstaklingar með röskun á einhverfurófi eru jafn ólíkir og þeir eru margir og því er oft sagt að hafir þú hitt einn einstakling með einhverfu hafir þú einungis hitt einn einstakling með einhverfu.
 
Fögnum fjölbreytileikanum og mætum í bláu föstudaginn 10 apríl!
 
Nánari upplýsingar um einhverfu er að finna á einhverfa.is og greining.is. Þeim sem vilja fræða börnin sín um einhverfu er jafnframt bent á skemmtilegt YouTube myndband eftir Jóhönnu Ýr Jónsdóttur sem kallast „Introvert“ sem ætlað er að útskýra einhverfu á einfaldan hátt. Hægt er að nálgast myndbandið á eftirfaraandi vefslóð: http://www.youtube.com/watch?v=ZFjsW2bozmM

Bekkjavefir

Atburđadagatal

« Apríl 2024 »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nćstu atburđir