Jólaball í leikskólanum

Leikskólinn Lćkjarbrekka | 14. desember 2022
Í morgun héldum við jólaball í leikskólanum. Börnin mættu í sínu fínasta pússi og röðuðu sér í tvo hringi kring um jólatréð og hófu upp raust sína á sama tíma og Siggi Villa sló taktinn á gítarinn. Eftir nokkra stund bárust tónar leikskólabarnanna upp í Borgir og fljótlega létu þeir Þvörusleikir og Kertasnýkir sjá sig í neðri byggðum. Þeir príluðu yfir grindverkið og léku sér í garðinum. Réttara sagt þá reyndu þeir að leika sér, þeir kunnu ekki alveg á leiktækin og stundum var eins og þeir væru frekar áhættuleikarar í hasarmynd heldur en jólasveinar af fjöllum. Börnin höfðu gaman af þessum uppátækjum og buðu þeim svo inn til sín að syngja og dansa. Þeir voru alveg til í að koma innúr frostinu og hlýja sér. Börnin voru óskaplega kurteis og sungu og léku á alls oddi með jólasveinunum. í lok ballsins laumuðust sveinarnir fram og komu inn með pokana sína og gáfu öllum leikskólabörnunum sinn pakkann hverju. Það voru því afskaplega þakklát og glöð börn sem skottuðust í hádegismat á deildinni sinni og fengu jólamat; hangikjöt, kartöflur, uppstúf, baunir, rauðkál og laufabrauð með smjöri.
Í kaffitímanum voru piparkökur sem börnin sjálf höfðu bakað og skreitt fyrr í mánuðinum og kakó sem Reimonda okkar lagaði fyrir okkur.
Svo toppaði nú daginn fyrir þeim þegar byrjaði að snjóa og jólasnjónum kingir nú niður og minnir okkur stór og smá að jólahátíðin er skammt undan.
Frábær dagur í alla staði.
Á föstudaginn verður svo náttfata og kósídagur þar sem við horfum á bíómynd og léttum okkur lundina í jólaundirbúningnum. Það verður fínt að vera með kósidag á föstudag því spáð er miklu frosti.
Vefumsjón