Jólaball í leikskólanum

Leikskólinn Lækjarbrekka | 15. desember 2017
Mikið sérdeilis vorum við nú heppin í dag. Við í leikskólanum vorum búin að ákveða að halda jólaball og allir komu spariklæddir í skólann. Við fórum inn í stofuna þar sem jólaballið var haldið og röðuðum okkur upp í kringum jólatréð. Íris á Klúku kom og spilaði undir með okkur til að styðja við sönginn. í miðju lagi um röltið í kringum einiberjarunnann tókum við eftir einhverri hreyfingu fyrir utan gluggann, á leiksvæðinu. Voru þar ekki bara komnir tveir jólasveinar. Þeir voru sko algerir jólasveinar og höfðu sennilega ekki oft komið á leikvelli. Þeir ætluðu fyrst ekki að komast yfir grindverkið en tókst það eftir dágóðan tíma. Þá rúlluðu þeir niður brekkuna afturábak. Síðan fóru þeir að reyna að klifra í klifurgrindinni og loks ákvað einn að reyna að renna sér í rennibrautinni. það vildi nú ekki betur en svo að karlgreyið rann afturábak niður rennibrautina og lá fastur á bakinu. Bróðir hans reyndi þá að koma að hjálpa honum að standa upp og það var nú þrautin þyngri. Blessunarlega fyrir jólasveininn þá gekk það upp fyrir rest. Þá heyrðu þeir í börnunum sem voru fyrir innan gluggann að fylgjast með herlegheitunum og komu upp að glugganum til að tala við þau. Börnin buðu þeim á jólaballið og inn komu þeir bræður Stekkjastaur og Giljagaur á hestbaki hver á öðrum.
Þeir voru með svolítil læti en ekki svo mikil að börnin yrðu hrædd við þá. Stekkjastaur var mjög hrifinn af jólaskrautinu á jólatrénu og reyndi að hnupla smá skrauti, en þegar börnin sögðu að það væri bannað að stela, þá skilaði hann því aftur á sinn stað. Þeir sungu og trölluðu með börnunum og starfsfólkinu og voru hinir skemmtilegustu.
Það sem gerði þetta enn skemmtilegra fyrir börnin var að þeir höfðu með sér poka með pinklum í og fengu börnin afhendan einn pakka hvert. Þeir reyndu svo að setja tvo stráka í pokann í staðinn og ætluðu að hafa þá með sér heim á leið.. en sem betur fer voru þeir bara að grínast. Þeir eru sko algerir grínarar þessir jólasveinar. Því miður gátu þeir ekki verið með okkur í allan dag þar sem þeir þurftu að halda áfram ferð sinni á annað jólaball. En mikið var nú gaman að fá þessa fjörkálfa í heimsókn og þökkum við hér á leikskólanum kærlega vel fyrir að þeir skildu akkúrat hafa verið á ferðinni í dag og hitt á jólaballið okkar.
Fleiri myndir af jólaballinu er að finna á myndasíðu heimasíðunnar.
Vefumsjón