A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Kynningarfundur á Leikskólanum Lækjarbrekku

| 20. september 2011
Nemendur á leikskólanum Lækjarbrekku - ljósm. IV
Nemendur á leikskólanum Lækjarbrekku - ljósm. IV

Leikskólinn Lækjarbrekka er öflugur leikskóli á Hólmavík, en þar eru 32 börn við nám, leik og störf á hverjum degi ásamt góðum hópi starfsfólks. Kynningarfundur um vetrarstarfsemi leikskólans verður haldinn í leikskólanum kl. 21:00 miðvikudagskvöldið 21. september. 

Meðal þess sem eflaust verður rætt er innleiðing nýrrar leikskólastefnu í leikskólanum Lækjarbrekku, en hún hefur verið í mótun hjá starfsfólki undanfarið. Stefnan byggir á svokölluðu "flæði" og er byggð á kenningum og aðferðum Mihaly Csikszentmihalyi. Allir foreldrar eru hvattir til að mæta og fræðast um starfsemina leikskólans í vetur.
 

Mótorkross í Landanum

| 19. september 2011
Á fleygiferð í brautinni - ljósm. Ingimundur Pálsson
Á fleygiferð í brautinni - ljósm. Ingimundur Pálsson
Í sjónvarpsþættinum Landanum sem sýndur var í Ríkissjónvarpinu á sunnudaginn var rætt við unga og sprellfjöruga iðkendur í Mótorkrossfélagi Geislans sem hefur aðsetur sitt á mótorkrossbrautinni rétt utan við Hólmavík. Mikil vinna hefur verið lögð í uppbyggingu brautarinnar undanfarin ár, en hún ber nafnið Skeljavíkurbraut og er lögleg 1.400 metra löng keppnis- og æfingabraut fyrir fyrir minni hjól eða fyrir hjól með allt að 85cc tvígengis- eða 125 fjórgengisvélum. 

Strandabyggð hefur stutt við uppbyggingu brautarinnar í gegnum tíðina með styrkjum, en mestöll vinna við uppbyggingu hefur verið unnin af sjálfboðaliðum.  Unga fólkið okkar kom að vanda vel fyrir í þættinum og var Ströndum til sóma.

Hægt er að horfa á umfjöllunina með því að smella hér.
 
 

Samræmd könnunarpróf í grunnskólum landsins

| 19. september 2011
Hressir krakkar í Grunnskólanum á Hólmavík: Matthías, Ásbjörn, Díana og Sólrún - ljósm. af vef Grunnskólans
Hressir krakkar í Grunnskólanum á Hólmavík: Matthías, Ásbjörn, Díana og Sólrún - ljósm. af vef Grunnskólans
Í vikunni sem er nýhafin verða haldin samræmd könnunarpróf í öllum grunnskólum landsins. Grunnskólinn í Hólmavík er þar engin undantekning, en þar mun elsti bekkur grunnskólans taka þrjú samræmd próf fyrripart vikunnar; í íslensku, ensku og stærðfræði. Á fimmtudag og föstudag taka síðan 4. og 7. bekkur samræmd próf í íslensku og stærðfræði. Fræðast má um nánar um prófin á vefsíðunni www.namsmat.is.

Í tilkynningu frá skólanum á vefsíðu hans eru nemendur hvattir til að hvílast vel, óttast ekki prófin en um leið leitast við að gera sitt besta. Þá er þeim einnig óskað velgengni í hvívetna. Starfsfólk Strandabyggðar tekur heilshugar undir þessar góðu kveðjur til unga fólksins.
 

Atburðadagatal fyrir alla

| 17. september 2011
Fjölmenni á Hamingjudögum - ljósm. JG
Fjölmenni á Hamingjudögum - ljósm. JG

Það er alltaf nóg að gerast í menningarlífinu á Ströndum og margt er á döfinni næstu daga; opnun Frásagnasafns í Þróunarsetrinu, réttað í Kirkjubóls-, Skarðs- og Staðarréttum, réttarkaffi í Sævangi, dansleikur á Laugarhóli, tónleikar með Tómasi R. Einarssyni, tónleikar með Herði Torfasyni og karaoke-keppni í Bragganum svo fátt eitt sé nefnt.

Á valstikunni hér hægra megin á heimasíðu Strandabyggðar gefur að líta atburðadagatal sem er uppfært mjög reglulega. Einfalt er að skoða hvaða atburðir eru á næstunni, einungis þarf að smella á dagsetningar til að sjá hvað er að gerast á viðkomandi dögum. Einnig er hægt að smella á "Skoða alla atburði", en þá birtast allir atburðir í völdum mánuði.

Þeir sem standa fyrir viðburðum ef einhverju tagi eru sérstaklega hvattir til að koma þeim á framfæri með því að senda póst í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is.

 

Íbúafundur um málefni aldraðra

| 16. september 2011
Heiðursfólk á Hólmavík - ljósm. IV
Heiðursfólk á Hólmavík - ljósm. IV
Þann 19. september kl. 14:00 verður haldinn íbúafundur í Strandabyggð um málefni aldraðra. Eldri borgurum í Strandabyggð er boðið að mæta á fundinn sem fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík, en á honum verður farið yfir stöðu málaflokksins í sveitarfélaginu með það að markmiði að bæta það sem betur má fara. Hildur Jakobína Gísladóttir félagsmálastjóri Stranda og Reykhólahrepps stendur fyrir fundinum, en Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar mun einnig mæta á hann auk þess sem Inga Sigurðardóttir mun kynna félagsstarf aldraðra í sveitarfélaginu í vetur. Allir eldri borgarar í Strandabyggð eru boðnir hjartanlega velkomnir á fundinn. ...
Meira
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón