A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur Strandabyggðar nr. 1377, 13.05.2025

Sveitarstjórnarfundur nr. 1377 í sveitarstjórn Strandabyggðar

Fundur nr. 1377 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 13. maí 2025 kl. 16:00 í Hnyðju, Höfðagötu 3, 510 Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarfulltrúar sátu fundinn: Þorgeir Pálsson, Júlíana Ágústsdóttir, Grettir Örn Ásmundsson, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir ritaði fundargerð. Fundurinn var jafnframt tekinn upp í hljóðskrá.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

 

1. Ársreikningur Strandabyggðar 2024, seinni umræða ásamt endurskoðunarskýrslu

2. Viðauki I við fjárhagsáætlun 2025 ásamt stöðu í bókhaldi, 30.4.25

3. Aðalskipulag Strandabyggðar, seinni umræða

4. Húsnæðisáætlun Strandabyggðar

5. Innkaupareglur Strandabyggðar

6. Sumarleyfi sveitarstjórnar og sumarlokun skrifstofu Strandabyggðar

7. Erindi til sveitarstjórnar, Áskorun frá skólaráði, 9.5.25

8. Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd, fundargerð nr. 86, 29.4.25

9. Fræðslunefnd, fundargerð frá 8.5.25

10. Skóladagatal grunn- og tónskóla 2025-2026 til samþykktar

11. Skóladagatal leikskóla 2025-2026 til samþykktar

12. Vinnuskýrsla sveitarstjóra

13. Fræðslumiðstöð Vestfjarða, erindi um Samræmda móttöku sveitarfélaga á Vestfjörðum, 6.5.25

14. Vegagerðin, Endurskoðun samgönguáætlunar 2006-2030, 6.5.25, til kynningar

15. Skógfræðingafélag Íslands, ályktun aðalfundar 2025

16. Fjórðungssamband Vestfjarða, þinggerð 70. Fjórðungsþings að vori, 2.4.25 ásamt ársreikningi Fjórðungssambands Vestfjarða

17. Vestfjarðastofa og Fjórðungssamband Vestfirðinga, fundargerð 68. Stjórnarfundar, 9.4.25

18. Heilbrigðisnefnd Vestfjarðasvæðis, fundargerð 152. fundar ásamt ársskýrslu 2024, 10.4.25

19. Hafnasamband Íslands, fundargerð stjórnarfundar nr. 472, 28.04.25 ásamt ársreikning 2024

20. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, fundargerðir 15. og 16. fundar, 10.3.25 og 31.3.25

21. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerðir 973., 974., 975., 976., 977. og 978 fundar stjórnar, 14.3.25, 19.3.25, 20.3.25, 4.4.25, 11.4.25 og 30.4.25

 

Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort einhverjar athugasemdir væru við fundarboðun.

Engin athugasemd er gerð við fundarboðið.

 

Oddviti leggur til afbrigði við boðaða dagskrá sem væri afstaða Strandabyggðar og ákvörðun um innleiðingu Grænna skrefa á vegum Vestfjarðarstofu sem fengi þá númerið 22 í dagskránni. Borið undir atkvæði sveitarstjórnar og samþykkt samhljóða.

 

Sömuleiðis er gerð tillaga um afbrigði við boðaða dagskrá sem er trúnaðarmál og fengi það númerið 23 í dagskrá. Borið undir atkvæði sveitarstjórnar og samþykkt samhljóða.

 

Þá var gengið til dagskrár:

 

1. Ársreikningur Strandabyggðar 2024, seinni umræða ásamt endurskoðunarskýrslu


Niðurstaða ársreiknings sýnir að rekstrarhalli ársins nam kr. 45.191.000 á A-hluta og 48.849.000 á A og B hluta samanlögðum. Rekstrartekjur milli ára lækka úr 1.058.924.000 í 915.041.000 á A og B hluta. Eigið fé í efnahagsreikningi eru 340.314.000 á A og B hluta. Handbært fé frá rekstri A og B hluta eru í árslok 9.592.000. Handbært fé frá rekstri er í raun það fjármagn sem sveitarfélag hefur til framkvæmda og afborgana af lánum. Á síðasta ári nam fjárfesting í rekstrarfjármunum kr. 321.550.000 og ljóst að sveitarfélagið tók á sig meiri skuldbindingar en efni standa til. Hafa ber í huga, að sveitarfélagið stendur í kostnaðarsömum verkefnum áfram þótt hægja þurfi á framkvæmdum á árinu 2025.

 

Oddviti rakti fyrri umræðu frá aukafundi 2. maí s.l. Kom oddviti inn á helstu niðurstöður úr ársreikningi 2024, en þar er gert ráð fyrir tapi upp á 49.000.000 Er megin ástæða þessa taps, veruleg skerðing á tekjum Jöfnunarsjóðs, eða um kr. 160.000.000 á sl ári. Er ljóst, að sveitarfélagið verður að byggja upp reglubundnari og sjálfbærari tekjur, að mati oddvita. Oddviti gaf síðan orðið laust.

 

Matthías Lýðsson tók til máls og taldi útkomuna betri en hann bjóst við miðað við framkvæmdir ársins. Tekjur Jöfnunarsjóðs eru viðkvæmar og ekki gott að treysta á þær. Matthías nefnir einnig athugasemdir frá fyrri umræðu varðandi lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga og höfuðstól á móti útborgun láns en tekur fram að þrátt fyrir þessar athugasemdir muni hann samþykkja ársreikninginn. Matthías leggur fram eftirfarandi bókun:

 

„Sveitarstjórnarmenn A-lista geta ekki fallist á að lántaka á síðasta ári sé rétt bókuð. Eins og kom fram á sveitarstjórnarfundi 2. maí þá gerðum við athugasemd vegna lántökunnar sem sögð var vera 95.000.000,- sem var útborguð upphæð. Aftur á móti var höfuðstóll lánsins 110.362.915,- Við teljum rétt að bóka höfuðstól lánsins þar sem það er sú upphæð sem sannarlega þarf að greiða til baka. Undir þetta sjónarmið okkar tók endurskoðandi sveitarfélagsins. Þarna munar kr. 15.362.915,- og því sýna reikningarnir ekki rétta skuldastöðu sveitarfélagsins.“

 

Oddviti tók til máls og felur skrifstofustjóra að kalla eftir útskýringu endurskoðanda á þessu misræmi í lántökunni til útskýringar fyrir sveitarstjórn og íbúum.

 

Oddviti lagði síðan til að ársreikningurinn yrði samþykktur og óskaði samþykkis fundarmanna með handauppréttingu. Sveitarstjórn samþykkir ársreikninginn samhljóða.

 

2. Viðauki I við fjárhagsáætlun 2025 ásamt stöðu í bókhaldi, 30.4.25


Oddviti gaf skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur orðið og bað hana að fara yfir helstu atriði viðaukans. Salbjörg útskýrði stöðu á fyrsta þriðjungi ársins og viðauka nr. 1

 

Viðauki I

 

Framkvæmdir:

Hækkun framkvæmdakostnaðar við Grunnskólann á Hólmavík. Í fjárhagsáætlun 2025 var upphaflega gert ráð fyrir 10 milljón króna framkvæmdum við grunnskólann á árinu 2025 vegna lóðavinnu og sprunguviðgerða á veggjum, sú vinna er ekki hafin. Kostnaður vegna annarra endurbóta, tækjakaupa og innviða er kominn í 6.118.000 í lok apríl og er um að ræða ýmsan frágang sem náðist ekki að ljúka á síðasta ári. Lagt er til að hækka framlag til grunnskóla um kr. 5.000.000 úr 10.000.000 í 15.000.000.


Hækkun framkvæmdakostnaðar við Íþróttamiðstöðina á Hólmavík. Í fjárhagsáætlun 2025 var gert ráð fyrir framkvæmdakostnaði vegna viðgerðar á dúk í laug og tækjakaupum í þreksal alls kr. 1.640.000. Kostnaður vegna uppsetningar á nuddkerfi, lagnaviðgerða, kaupum á klórdælu og ræstingavél er nú kominn í 3.500.000 kr. Lagt er til að framlag hækki um 3.860.000 úr 1.640.000 í 5.500.000 milljónir.


Samtals hækkun framkvæmda kr. 8.860.000

Greitt með eigin fé og lántöku


Breytingar:

Stofnfjárframlag í Brák sem upphaflega var gert ráð fyrir í málaflokki 3150 færist á málaflokki 291142 Eignarhlutar í öðrum félögum. Áætluð fjárhæð 18.000.000.

 

Oddviti kom inn á að hér sé ekki um að ræða nýtilkominn kostnað, heldur sé þetta kostnaður sem tengist framkvæmdum síðasta árs. Rétt sé að halda því til haga. Oddviti gaf síðan orðið laust.

 

Matthías Lýðsson tók til máls.

 

Oddviti lagði til að sveitarstjórn samþykkti viðaukann og óskaði samþykkis fundarmanna með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.

 

 

3. Aðalskipulag Strandabyggðar, seinni umræða


Oddviti rakti tilurð þessa viðamikla verkefnis og sagði frá afgreiðslu sveitarstjórnar í fyrri umræðu frá 2. maí sl. Gaf hann síðan orðið laust.

 

Matthías Lýðsson tók til máls og sagði að nokkrir smávægilegir hnökrar væru enn á skýrslunni.

 

Oddviti tók til máls og lagði til að Landmótun myndu laga þessi atriði fyrir skilin til Skipulagsstofnunar.

 

Oddviti lagði til að endurskoðað aðalskipulag Strandabyggðar yrði samþykkt og óskaði samþykkis fundarmanna með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.

 

 

4. Húsnæðisáætlun Strandabyggðar


Oddviti sagði lauslega frá tilurð þessa skjals, sem er fyrst og fremst viðmiðunarskjal fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem sér þar helstu breytur ár frá ári um þróun mannfjölda, framboð og eftirspurn húsnæðis ofl. Oddviti gaf síðan orðið laust.

 

Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls og nefndi aldursþróun væri einsleit í áætluninni og þar vantaði inn yngri aldurshópa. Eins spurði hún um lóðaframboð og lausar lóðir.

 

Grettir Ásmundsson tók til máls og útskýrði lóðaframboð.

 

Oddviti tók til máls.

Matthías Lýðsson tók til máls.

 

Oddviti lagði síðan til að húsnæðisáætlun Strandabyggðar 2025 yrði samþykkt og óskaði samþykkis fundarmanna með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.

 

 

5. Innkaupareglur Strandabyggðar


Oddviti rakti forsögu málsins og sagði frá því að hér væri um að ræða breytingar á innkaupareglum sem byggja á lagabreytingum og hafa fyrri innkaupareglur Strandabyggðar hér verið aðlagaðar að þeim lagabreytingum sem um ræðir. Á sveitarstjórnarfundi 8.4 s.l. kom fram viss gagnrýni á að þær breytingar sem þar voru lagðar fram, þó svo þær breytingar væru fyllilega í takt við breytingar á lögunum. Á þessum fundi eru lagðar fram tvær útgáfur á breyttum innlaupareglum, þar sem annars vegar er vísað í fastsettar upphæðir hvað varðar verðfyrirspurn, en hins vegar eru engar tölur tilgreindar og aðeins vísað í lögin, eins og þau eru á hverjum tíma.

 

Gaf oddviti síðan orðið laust.

 

Matthías Lýðsson tók til máls.

Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls.

 

Oddviti lagði til að Innkaupareglur Strandabyggðar, tillaga 2 yrði samþykkt og óskaði samþykkis fundarmanna með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða

 

6. Sumarleyfi sveitarstjórnar og sumarlokun skrifstofu Strandabyggðar


Oddviti gaf skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur orðið og bað hana af fara yfir sumarlokun og sumarleyfi sveitarstjórnar. Salbjörg tók við og útskýrði minnisblaðið.

 

Oddviti lagði síðan til að þessar lokanir og leyfi yrðu samþykkt. Skrifstofa Strandabyggðar yrði lokuð vegna sumarleyfa frá 21. júlí til 5. ágúst. Næstu fundir sveitarstjórnar verða sem hér segir: 10. júní, fundur fellur niður 8. júlí og næsti fundur sveitarstjórnar eftir sumarleyfi er því 12. ágúst.

 

Orðið gefið laust og enginn tók til máls.

 

Oddviti óskaði samþykkis fundarmanna hvað þetta fyrirkomulag varðar með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.

 

 

7. Erindi til sveitarstjórnar, Áskorun frá skólaráði, 9.5.25


Oddviti rakti eðli máls. Ljóst væri að aldrei yrði farið í framkvæmd þessa verkefnis nema í nánu samráði við skólastjórnendur. Eins liggur það alveg fyrir að eina ástæða þessa verkefnis, að flytja leikskólabörn í grunnskólann þegar kennslu þar lýkur, er fyrst og fremst til að tryggja öryggi þeirra, meðan unnið er að lagfæringum á lóð Leikskólans Lækjarbrekku.

 

Oddviti lagði til að skólaráði verði svarað formlega og væri sveitarstjóra falið að svara erindinu.

 

Óskaði oddviti samþykkis fundarmanna með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.

 

 

8. Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd, fundargerð nr. 86, 29.4.25


Oddviti gaf formanni TÍM nefndar, Júlíönu Ágústsdóttur, orðið og bað hana að fara yfir efni fundarins. Júlíana útskýrði efni fundarins.

 

Oddviti tók til máls

 

Matthías Lýðsson tók til máls og tók fram að nýverið hefði Leikfélag Hólmavíkur hlotnast sá heiður að sýningin 39 þrep hafi verið valin sem sýning ársins og mun leikfélagið sýna í Þjóðleikhúsinu 29. maí n.k. er þetta mikið gleðiefni.

 

Matthías Lýðsson vildi bera fram þakkir til þeirra sem leggja vinnu sína fram í þágu félags- og menningarstarfs í Strandabyggð.

 

Oddviti tók til máls og fagnaði fjölbreyttu úrvali menningarviðburða og tók undir með Matthíasi.

 

Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls.

 

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

 

9. Fræðslunefnd, fundargerð frá 8.5.25


Oddviti, rakti efni fundarins.

 

Oddviti gaf orðið laust.

 

Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls og styður lið nr. 1, ennfremur óskar hún eftir að sjá nánari útfærslur varðandi gjaldfrjálsan leikskóla.

 

Grettir Örn Ásmundsson tók til máls og tekur undir með Hlíf.

 

Matthías Lýðsson tók til máls

 

Varðandi lið nr. 1 í fundargerð um nánari skoðun á möguleikum þess að breyta tímalengd sumarlokunar leikskóla beinir fræðslunefnd því til sveitarstjórnar að endurskoða sumarlokun leikskólans fyrir næsta skólaár.

 

Síðan lagði oddviti til að málið yrði sett í hendur skrifstofustjóra, skólastjóra og sveitarstjóra til frekari skoðunar og óskaði samþykkis sveitarstjórnar á þeirri tilhögun með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.

 

Fundargerðin að öðru leyti lögð fram til kynningar.

 

10. Skóladagatal grunn- og tónskóla 2025-2026 til samþykktar


Með vísan í lið 9 og umfjöllun um fundargerð fræðslunefndar frá 8.5.25, leggur oddviti til að sveitarstjórn staðfesti skóladagatal grunn- og tónskóla 2025-2026 og óskaði samþykkis fundarmanna með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.

 

 

11. Skóladagatal leikskóla 2025-2026 til samþykktar


Með vísan í lið 9 og umfjöllun um fundargerð fræðslunefndar frá 8.5.25, leggur oddviti til að sveitarstjórn staðfesti skóladagatal Leikskólans Lækjarbrekku 2025-2026 og óskaði samþykkis fundarmanna með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.

 

 

12. Vinnuskýrsla sveitarstjóra


Oddviti gaf orðið laust.

 

Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls.

Oddviti tók til máls.

Grettir Örn Ásmundsson tók til máls.

Matthías Lýðsson tók til máls.

 

 

13. Fræðslumiðstöð Vestfjarða, erindi um Samræmda móttöku sveitarfélaga á Vestfjörðum, 6.5.25

 

Oddviti gaf orðið laust.

 

Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls og bauð fram sína aðstoð. Sveitarstjórnarmenn fagna afstöðu Hlífar og hennar framlagi.

 

Oddviti tók til máls og tók fram að unnið hafi verið að íbúahandbók áður fyrr og leggur til að skrifstofa taki að sér að fara yfir það sem er til og uppfæri.

 

Matthías Lýðsson tók til máls og tók undir með með oddvita.

 

 

14. Vegagerðin, Endurskoðun samgönguáætlunar 2006-2030, 6.5.25, til kynningar

Erindið lagt fram til kynningar.

 

Oddviti gaf orðið laust.

 

Matthías Lýðsson tók til máls.

Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls.

 

 

15. Skógfræðingafélag Íslands, ályktun aðalfundar 2025


Erindið lagt fram til kynningar.

 

Oddviti gaf orðið laust

 

Matthías Lýðsson tók til máls.

 

 

16. Fjórðungssamband Vestfjarða, þinggerð 70. Fjórðungsþings að vori, 2.4.25 ásamt ársreikningi Fjórðungssambands Vestfjarða


Erindið lagt fram til kynningar. Enginn tók til máls

 

 

17. Vestfjarðastofa og Fjórðungssamband Vestfirðinga, fundargerð 68. Stjórnarfundar, 9.4.25

 

Fundargerðin lögð fram til kynningar. Enginn tók til máls.

 

 

18. Heilbrigðisnefnd Vestfjarðasvæðis, fundargerð 152. fundar ásamt ársskýrslu 2024, 10.4.25

 

Fundargerð og ársskýrsla lögð fram til kynningar. Enginn tók til máls.

 

 

19. Hafnasamband Íslands, fundargerð stjórnarfundar nr. 472, 28.04.25 ásamt ársreikningi 2024

 

Fundargerð og ársreikningur lögð fram til kynningar. Enginn tók til máls.

 

20. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, fundargerðir 15. og 16. fundar, 10.3.25 og 31.3.25

 

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar. Oddviti gaf orðið laust.

 

Matthías Lýðsson tók til máls og minnti á staðfund vegna Svæðisskipulags Vestfjarða í Sævangi 26. Maí 2025.

 

Oddviti tók til máls

 

 

21. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerðir 973., 974., 975., 976., 977. og 978

fundar stjórnar, 14.3.25, 19.3.25, 20.3.25, 4.4.25, 11.4.25 og 30.4.25

 

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar. Enginn tók til máls.


Fundargerð nr. 973. 

Fundargerð nr. 974.
Fundargerð nr. 975.
Fundargerð nr. 976.
Fundargerð nr. 977.
Fundargerð nr. 978.

 

22. Erindi frá Vestfjarðarstofu, afstaða Strandabyggðar v. Grænna skrefa

 

Oddviti reifaði málið sem var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar nr. 1373 frá febrúar 2025 og leggur til að Strandabyggð taki þátt í þessu verkefni.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka þátt í verkefninu.

 

23. Trúnaðarmál.

 

Fært í trúnaðarbók

 

Fleira ekki fyrirtekið, fundargerð lesin upp og fundi slitið kl.18:18

Hljóðupptöku má finna hér: strandabyggd.is/stjornsysla/tilkynningar/skra/4668/
Við mælum með að hlaða upptökunni niður. 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón