Þorgeir Pálsson | 08. september 2024
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Sumir kunna að minnast síðustu viku fyrir mjög vont veður sem gerði í vikunni. Þetta var mikill hvellur sem olli nokkrum skaða en sem betur fer engum slysum. En það var líka margt annað og jákvæðara sem gerðist í vikunni og sl daga og verður hér stiklað á stóru.
Réttarsmíði í Kollafirði. Í Kollafirði er nú að rísa rétt í landi Litla Fjarðarhorns. Það eru hjónin í Steinadal ásamt vöskum hópi fólks, sem tók að sér að reisa réttina. Bændur í sveitinni tóku að sér að gera svokallaðan púða undir réttina. Smíðin gengur mjög vel, eins og myndirnar sýna, enda dugmikill hópur á ferð. Við þökkum öllum þeim sem vinna þarna þarft og gott verk.
Flísar á pottana í sundlauginni. Eftir sumarlanga bið er nú byrjað að flísaleggja pottana. Ástand þeirra hefur verið slæmt undanfarin ár. Bæði hafa flísar losnað af þeim og eins var kominn leki á milli þeirra sem ruglaði alla hitastýringu. Nú er búið er að laga pottana og því komið að flísalögn. Í öðrum þeirra verður nuddtæki, sem er mikilvægt lýðheilsumál sem við þykjumst vita að margir munu fagna.
Sótthreinsun í grunnskólanum. Eins og flestir vita, hófst starfsemi i grunnskólanum að nýju nú í ágúst og ríkir almenn ánægja með endurbæturnar sem staðið hafa í um tvö ár. Það var talið rétt að sótthreinsa húsið einu sinni enn, eftir að starfsemi hæfist og var það gert sl föstudag. Það er fyrirtækið Dysact sem sér um það verk, nú sem fyrr.
Leikskólalóðin. Einhverjir hafa sjálfsagt tekið eftir nokkru magni af stórum hleðslusteini sem er á brettum við Braggann. Þetta eru hleðslusteinar sem verða undistaða fyrir nýja girðingu í leikskólalóðinni. Fyrirtækið Krafla ehf, sem er dótturfyrirtæki Litla Kletts, sem við þekkjum vel, munu fljótlega byrja að vinna við lóðina. Brekkan verður drenlögð og hallanum breytt, þannig að hún verður meira aflíðandi. Skipt verður um jarðveg og lagðar þökur. Næsta vor er síðan stefnt að því að klára lóðina með nýju yfirborðsefni og leiktækjum. Stuðst er við hugmyndir leikskólakrakkana, foreldra og starfsmann.
Raðhúsasmíði í Víkurtúni. Búast má við að grunnur verðir settur upp á næstu dögum og húseiningarnar eru væntanlegar í kjölfarið.
Það er margt fleira sem hægt væri að telja upp, sem verður sýnilegt á næstunni, eins og afmörkun lóðar við Sorpsamlagið, kynning á deiliskipulagi vegna hótelbygginar og endurhönnunar á öllu svæðinu við íþróttamiðstöðuna/félagsheimilið, afmörkun lóðar á Kópnesbraut fyrir smáhýsi, svo dæmi séu tekin.
Það er mikilvægt að halda áfram þeirri uppbyggingu í Strandabyggð sem við í sveitarstjórn höfum einsett okkur að vinna að og láta verkin taka í stað þess að festast í dægurþrasi. Tíminn er of stuttur og dýrmætur og innviðaskuldin of stór til að við getum leyft okkur slíkt. Að auki blasa tækifæri við sem við verðum að nýta, núna.
Áfram Strandabyggð!
Þorgeir Pálsson
oddviti