A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Íbúafundur um Kvíslatunguvirkjun

Þorgeir Pálsson | 07. júní 2023

Íbúafundur í félagsheimilinu á Hólmavík kl. 18.00, 14. júní 2023.


Kæru íbúar Strandabyggðar,

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að kynna skipulagslýsingu og hefja skipulagsgerð vegna fyrirhugaðrar virkjunar í Selárdal.  Um er að ræða Kvíslatunguvirkjun, sem Orkubú Vestfjarðar stendur að.

Við boðum til íbúafundar til að ræða þessa framkvæmd, áhrif hennar og ávinning fyrir Strandabyggð og svara spurningum íbúa.

Dagskrá fundarins er svohljóðandi

1. Forsendur og markmið Kvíslatunguvirkjunar. Sölvi R. Sólbergsson, Orkubú Vestfjarða

2. Matsáætlun, skipulag og rannsóknir. Sigmar Arnar Steingrímsson, Verkís

    1. Yfirlit yfir Kvíslatunguvirkjun og helstu kennistærðir
    2. Matsáætlun vegna Kvíslatunguvirkjunar, sem nú er til kynningar.
    3. Breyting á aðalskipulagi Strandabyggðar og nýtt deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar.
    4. Fyrirhugaðar rannsóknir sumarið 2023
3. Umræður.

Fundarstjóri er Þorgeir Pálsson, oddviti Strandabyggðar.

Matsáætlun liggur frammi á vef skipulagsstofnunar:

https://www.skipulag.is/skipulagsstofnun/mal-i-kynningu/safn/nr/3683


Vonandi sjáum við sem flesta íbúa, því þetta er mikilvægt málefni fyrir Strandabyggð.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti


Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 04. júní 2023
« 1 af 3 »

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Ársreikningur 2022

Í vikunni sem leið var auka sveitarstjórnarfundur, þar sem seinni umræða um ársreikning Strandabyggðar fór fram.  Var ársreikningurinn staðfestur af sveitarstjórn.  Niðurstaðan er ánægjuleg, því rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 8,6 millj.kr. en í A hluta var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 21,4 millj. kr.  Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 878,4 millj. kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 824,5 millj. kr.  Það var sem sagt hagnaður af rekstri sveitarfélagsins á árinu 2022 og við gleðjumst auðitað yfir því.  Það er líka ánægjulegt, að handbært fé frá rekstri í A og B hluta samanlögðum er 142.559 millj. kr. Rekstur sveitarfélagsins skilar þannig afgangi til að greiða af lánum og í framkvæmdir. 

Verður nánar gerð grein fyrir afkomu sveitarfélagsins og horfum fyrir næstu ár, í sérstökum pistli í komandi viku.

Vinna við grunnskólann

Í lok vikunnar kom verkefnastjórinn okkar frá VERKÍS, hingað og fundaði með sveitarstjórnarfólki og starfsmönnum sveitarfélagsins.  Nú er framundan hönnun á hitalagnakerfi í gólf, verðkönnun varðandi steypu í ílögn, verðkönnun vegna viðgerða og/eða nýsmiði glugga og hurða og verðkönnun varðandi undirbúning og málun skólans, svo dæmi séu tekin.  Færanlega skólaeiningin er síðan væntanleg innan nokkurra vikna.

Vordagur og  Skólaslit

Grunnskólinn lauk sínum vetri með skemmtilegum vordegi við félagsheimilið, þar sem andlitsmálaðir karkkarnir drógu skólabílinn léku sér á ærslabelgnum og borðuðu pylsur.   

Daginn eftir var síðan falleg stund í kirkjunni, þar sem grunn- og tónskólanum var formlega slitið þetta skólaárið.  Þar kom fram, að þrátt fyrir allt það óhagræði sem hlaust af mygluvandanum í grunnskólanum, þá hafði skólastjóri orð á því hvað kennarar hafi samt náð að vinna vel saman og krakkarnir blómstra og sýna framfarir.  Það er vert að hrósa og þakka nemendum, kennurum og starfsfólki skólans, sem og öðrum starfsmönnum Strandabyggðar, og ekki hvað síst foreldrum, fyrir vinnuframlag, þolinmæði og skilning við þessar aðstæður. 

Geislahátið

Vikunni lauk síðan með frábærri skemmtun inni við Stórugrund, en þar hittust krakkar og foreldrar á lokahófi Geislans þennan veturinn.  Farið var á kajak, grillað og spjallað.  Frábær hópur krakka og foreldra.  Frábær skemmtun.

Það er nóg að gerast í Strandabyggð þessa dagana.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Hreinsitæknir á Hólmavík

Þorgeir Pálsson | 31. maí 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nú er hér á svæðinu hreinsitæknir sem getur tekið að sér hreinsun á rotþróm og fráveitulögnum  

Vinsamlegast hafið sambandi við Hadda, í síma 772-6739.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Aðalfundur Sorpsamlags Strandasýslu

Þorgeir Pálsson | 30. maí 2023

Aðalfundur Sorpsamlags Strandasýslu verður haldinn þriðjudaginn 6. Júní n.k. í Hnyðju og hefst kl 14.

Dagskrá fundarins:

  1. Kjör fundarstjóra og ritara
  2. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra
  3. Staðfesting ársreiknings
  4. Ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar
  5. Kjör stjórnar og endurskoðanda félagsins
  6. Tillaga stjórnar um hækkun á mánaðarlegu framlagi aðildarsveitarfélaga
  7. Önnur mál.

 

Hólmavík, 30.5.23

Þorgeir Pálsson

Formaður stjórnar Sorpsamlagsins.

 

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 29. maí 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nokkur orð um síðustu viku, sem var um margt viðburðarrík.

Hótelbygging

Hápunktur liðinnar viku er að mínu mati undirskrift viljayfirlýsingar um hótelbyggingu hér á Hólmavík.  Þessi undirskrift er stórt skref í þá átt að hér rísi glæsilegt, 60-70 herbergja hótel.  Með tilkomu slíks hótels hér á Hólmavík, er augjóst að staða okkar í ferðaþjónustu á Vestfjarða- og landsvísu, styrkist mikið. Með alla þá afþreyingu sem hér er í boði, er líka ljóst að samstarfsmöguleikar milli ferðaþjóna og hótelsins eru miklir og vonandi hvetur þetta til aukins framboðs á hvers kyns afþreyingu í Strandabyggð.  Það verður því mjög spennandi að fylgjast með þeirri skipulags- og hönnunarvinnu sem nú er framundan.  Þetta er mikið og tímabært tækifæri fyrir Strandabyggð!

Starfsmaður í sorpi

Á miðvikudag skrapp ég sem starfsmaður Sorpsamlagsins í Árneshrepp, við annan mann.  Það var hressandi að komast aðeins út og takast á við það verkefni að sækja rusl.  Og það var nóg af því.  Ferðin gaf okkur líka tækifæri til að hugleiða og endurmeta þjónustuframboð okkar gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum í Árneshrepi og raunar í Bjarnarfirði líka.  Svo er náttúrufegurðin á þessari leið auðvitað einstök. 

Grunnskólinn

Vinna við grunnskólan heldur áfram. Búið er að sótthreinsa yngri hlutann og raunar hluta gamla hlutans líka, en það liggur fyrir að við getum nýtt anddyrið, salernin og sérkennslustofurnar í gamla hlutanum.  Verður lokað inn á ganginn, og aðeins þetta rými nýtt.  Næsti verkþáttur er að leggja hitalagnir í gólf og steypa ílögn.  Samhliða þessu verður kallað eftir verðhugmyndum í glugga og hurðir.  Þetta þróast allt í rétta átt.

Sauðfé og girðingar

Brátt sér fyrir endann á sauðburði og vonandi hefur þetta gengið vel hjá öllum.  Girða þarf nokkuð stóran kafla á leiðinni frá Heiðabæ út að Heydalsá og viðræður eru í gangi við Vegagerðina um amk eitt ristarhlið á þeirri leið, inn í Miðdal.  Verður girðingarefni, staurar og tilheyrandi pantað í komandi viku.

Verktakavinna

Ein umsókn barst um viðhald með girðingunni frá Grjótá að Hrófá og verður gengið frá samningi í komandi viku.  Kominn er verktaki í jarðvegsvinnu vegna drenlagna við grunnskólann.  Enginn sótti formlega um slátt á opnum svæðum í sveitarfélaginu, en við erum þó vongóð um að lausn finnist.  Þá er verið að vinna að því að fá verktaka í leikskólalóðina, en þar þarf að hefja framkvæmdir sem fyrst.  Mönnun verkefna er eitt helsta vandamál sveitarfélaga um allt land þessa dagana og við erum þar engin undantekning.

Það er nóg í gangi enn meira framundan í Strandabyggð.  Svo er bara að vona að veðrið fari að spila betur með okkur, þannig að við getum farið að vinna í görðunum okkar og njóta umhverfisins. 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Eldri færslur

Facebook

Vefumsjón