A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Framboð á vörum framleiðenda í heimabyggð

Þorgeir Pálsson | 16. nóvember 2023
Kæru íbúar Strandabyggð, birgjar sem aðrir,

Nú þegar sveitarfélagið hefur tekið við rekstri skólamötuneytis, færast innkaup á herðar matráða sveitarfélagsins.  Það er sérstök áhersla lögð á að kaupa hraéfni í heimabyggð og því óskum við eftir því að allir birgjar í Strandabyggð sem telja sig geta boðið mötuneyti sveitarfélagsins vörur sínar, sendi inn upplýsingar um vöruflokka, magn og verð sem í boði væri.

Vinsamlegast sendið svör ykkar á netfangið raimonda@strandabyggd.is

Kveðja
f.h. matráða,
Þorgeir Pálsson
oddviti

Um álit innviðaráðuneytisins

Þorgeir Pálsson | 16. nóvember 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nú er talsvert í umræðunni álit innviðaráðuneytis á stjórnsýslu oddvita og sveitarstjórnar og er mikið um einhliða framsetningu á niðurstöðu ráðuneytisins.  Hér má finna fundargerð sveitarstjórnarfundar nr. 1352 í sveitarstjórnar Strandabyggðar frá 14.11 og undir lið 8 er bókun frá meirihluta sveitarstjórnar, sem ég hvet íbúa til að lesa.  Í yfirskrift þessa liðar í fundargerðinni, er síðan tenging við álitið sjálft, sem einnig er vert að lesa, ef menn vilja vita allar hliðar málsins.

Þar sem umræðan hefur verið nokkuð einhliða fram að þessu, er rétt að hnykkja aðeins á niðurstöðu ráðuneytisins, þannig að íbúar geti séð hvað það þýðir í raun fyrir sveitarfélagið:

  • Ráðuneytið telur að afgreiðsla á erindi fyrrum sveitarstjórnarmanns, hafi ekki verið í samræmi við almennar skyldur um svör við erindum
  • Ráðuneytið telur hins vegar ekki ástæðu til að fjalla formlega um eldri mál í stjórnsýslu Strandabyggðar á grundvelli sveitarstjórnarlaga, gr 112, sem snýr að ólögmætri stjórnsýslu. Má reikna með að ráðuneytinu þyki þar með, líkt og meirihlutanum, að þetta mál tilheyri fortíðinni og þurfi að afgreiða á öðrum vettfangi en í núverandi sveitarstjórn. Ráðuneytið telur málið falla utan við eftirlitshlutverk sitt
  • Hvað það varðar að hafna beiðni kjörinna fulltrúa um að setja mál á dagskrá, telur ráðuneytið þá ákvörðun stangast á við 27. gr sveitarstjórnarlaga
  • Þá telur ráðuneytið einnig það stangast á við 26. gr sveitarstjórnarlaga, að hafa ekki umræðu um ákveðin mál, en sú venja hefur verið lengi í sveitarstjórn Strandabyggðar að sum mál eru lögð fram til kynningar og þá ekki rædd. Með þessu sé komið í veg fyrir rétt kjörinna fulltrúa til málfrelsis og að tjá sig
  • Ráðuneytið telur ekki grundvöll til að aðhafast neitt frekar í málinu og að málið sé ekki þess eðlis að til greina komi að sveitarfélagið þurfi að taka ákvörðun í málinu eða fella úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins, eins og segir í álitinu.

Og hvað þýðir þetta síðan svona í daglegu tali, jú, það má bæta stjórnsýslu sveitarfélagsins og oddvita hvað það varðar að taka mál á dagskrá.  Um það verður ekki deilt og verður tekið mið af því í framtíðinni.

Það er ekki ástæða til að fjalla formlega um eldri mál í stjórnsýslu Strandabyggðar, þ.e. bréf fyrrverandi sveitarstjórnar og það er ekki ástæða fyrir sveitarfélagið að taka ákvörðun í þessu málið eða fella úr gildi ákvarðanir.  Málinu er lokið af hálfu ráðuneytisins.

Við í meirihluta sveitarstjórnar, munum áfram byggja okkar stjórnsýslu á þeim venjum sem hafa gilt í sveitarstjórn Strandabyggðar, sem t.d. fyrrverandi sveitarstjórn vann eftir, sem og ráðleggingum lögfræðinga og þeim ábendingum sem komu frá ráðuneytinu.  Að öðru leyti er þessu máli lokið og vonandi skapast nú vinnufriður í sveitarfélaginu og innan sveitarstjórnar.

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Stuðningur við Grindvíkinga

Þorgeir Pálsson | 13. nóvember 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Hér eru tveir tenglar sem hægt er að nota í tengslum við stuðning við Grindvíkinga:

Heimasíða Rauða krossins, hér og tengill á síðu þar sem hægt er að bjóða fram húsnæði, hér.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 13. nóvember 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Vikan sem leið verður sjálfsagt ávallt tengd Grindavík í hugum okkar og þeirri stöðu sem þar er nú komin upp, í kjölfar mikila jarðhræringa og yfirvofandi eldgoss.  Hugur okkar er þar og hjá því fólki sem nú horfist í augu við sögulegar hamfarir, hugsanlegan eignamissi og eyðileggingu.  Við þurfum að huga að því hvað við sem sveitarfélag og íbúar getum gert til að aðstoða og hvað við getum boðið Grindvíkingum.  Sú vinna er hafin innan sveitarfélagsins og verður meira sagt frá því síðar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Vikan var annars annasöm og áhugaverð.  Það er sem betur fer lang oftast þannig, að þessi vinna færir manni skemmtileg og krefjandi verkefni.

Styrkjamál

Fyrsti fundur vikunnar var fundur sveitarstjórnar með fulltrúum Vestfjarðastofu, þar sem rætt var um styrkumsókn í C1 styrk á byggðaáætlun, sem er styrkur til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða. Þetta var góður fundur og málinu komið í farveg, þar sem amk tvo verkefni verða þróuð lengra m.s.s. styrkumsóknar.

Almannavarnir

Á þriðjudaginn fór ég til Ísafjarðar á fund sem lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafði boðað til og voru þar fulltrúar almannavarnarnefnda Vestfjarða.  Þetta var mjög gagnlegur fundur og mikill samhugur í fólki um að samræma og treysta samskipti allra hlutaðeigandi bráðaaðila. 

Frá Ísafirði keyrði ég suður til Reykjavíkur um sunnanverða Vestfirði og það verður að segjast að það var mjög ánægjulegt að keyra nýja vegkafla á Dynjandisheiði og sjá aðra í uppbyggingu.  Það var komið myrkur þegar ég ók um nýja Þorskafjarðarbrú, en það er glæsilegt mannvirki.  Þessar vegaframkvæmdir, hversu seint sem þær kunna að vera tilkomnar, munu gerbreyta samgöngum og skapa tækifæri um alla Vestfirði, ekki síst hér á Ströndum, því með þessum úrbótum, verður hægt að fara hringinn með góðu móti.  Og þegar Álftafjarárgöng verða komin, verður hægt að fara þessa leið allan ársins við allt annað öryggi en nú er.  En þrátt fyrir að þau göng komi, verða enn margar nauðsynlegar vegaúrbætur á Vestfjörðum eftir og má þar nefna göng um Mikladal og Hálfdán, Klettsháls, Innstrandarveg og vegaúrbætur í Árneshreppi.  Það er af nógu að taka, því miður og ljóst að sú tímaröð framkvæmda sem okkur á Vestfjörðum er kynnt og boðið upp á af hálfu stjórnvalda, er ekki á nokkurn hátt ásættanleg. 

Heimsókn í íþróttamiðstöðina

Sveitarstjórn heimsótti íþróttamiðstöðina í vikunni í tengslum við fjárhagsáætlanagerðina.  Það var mjög upplýsandi fyrir fulltrúa sveitarstjórnar og það er alltaf þannig, að skilningur á aðstæðum eykst við svona heimsóknir.  Mikið hefur þróast til betri vegar hvað tækjakost og aðbúnað varðar, enda endurnýjun löngu tímabær.  Gufubaðið vakti athygli, enda vel gert í alla staði. 

Það er enn þörf á framkvæmdum, t.d. í tækjasal, það þarf að bæta aðstöðu íþróttakennara og flísalagning pottana er forgangsmál, svo örfá atriðið séu nefnd.

Grunnskólinn

Haldnir voru fundir með málarameistaranum sem hefur tekið að sér að mála skólann.  Einnig var samráðsfundur með verkefnastjóra og arkitekt ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins.  Framkvæmdir ganga vel og engin stórkostleg vandamál hafa komið upp.

Samráðsfundur sveitarstjórna

Vikan endaði á samráðsfundi sveitarstjórna Stranda, Reykhóla og Dalabyggðar og taldi hópurinn um 25 manns.  Við funduðum í Hnyðju og er rétt að þakka umsjónarkennara og nemendum á miðstigi kærlega fyrir lánið á skólastofunni þeirra.  Hlýlegri fundarstaður er vandfundinn.

Þarna voru ræddir allir þeir formlegu og óformlegu samstarfsfletir sem í dag tengja okkur saman og var þetta mjög góð og heiðarleg umræða.  Í lokin var umræðan dregin saman og mál sett í farveg.  Verður hægt að gera grein fyrir því síðar.  Fundurinn endaði með máltíð á Kaffi Galdri og heimsókn í Galdur Brugghús.

Margt annað kom auðvitað upp í liðinni viku og mun sumt af því fá nánari umfjöllun á næstunni.

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Kveðja til Grindvíkinga

Þorgeir Pálsson | 11. nóvember 2023
Strandabyggð sendir íbúum Grindavíkur hlýjar kveðjur vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem upp eru vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.  Hugur okkar er hjá ykkur. 


Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón