A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Lokun Höfðagötu vegna kennslu í Hnyðju

Þorgeir Pálsson | 28. nóvember 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Á sveitarstjórnarfundi þann 14.11 sl. var tekið fyrir erindi foreldrafélags grunn-, tón- og leikskólans, um tímabundna en daglega lokun þess hluta Höfðagötu sem snýr að Hnyðju, til að auka öryggi skólabarna sem þar eru.  Nú hefur sveitarstjórn, í samráði við Lögregluna á Vestfjörðum og umsjónarkennara, ákveðið að loka götunni frá kl 10 á morgnana til kl 15 á daginn, alla daga sem kennsla fer fram í Hnyðju. 

Lokunin verður þannig að hægt verður eftir sem áður að leggja í bílastæðin við Galdrasafnið og einnig verður hægt að aka meðfram austurgafli Þróunarsetursins inn á planið við Hólmadrang og Hlein.  Bent er á Skjaldbökuslóð og Kópnesbraut sem hjáleiðir meðan á lokuninni stendur.

Við biðjum ökumenn að sýna þessu skilning enda öryggi barnanna okkar í húfi. Lokunin tekur gildi frá og með miðvikudeginum, 29.11.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Til fjarnema og þeirra sem taka próf á Hólmavík

Salbjörg Engilbertsdóttir | 24. nóvember 2023
Próftökustaður fyrir öll sem stefna á að taka próf á Hólmavík er á skrifstofu Strandabyggðar að Hafnarbraut 25 en samkomulag er milli Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Háskólasetursins við skrifstofuna um að sjá um prófin.Tengiliður er Salbjörg Engilbertsdóttir salbjorg@strandabyggd.is. Athugið að mögulega þarf að tilkynna um próftökustað til viðkomandi skóla

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 21. nóvember 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Vikan sem leið var um margt áhugaverð.

Sterkar Strandir

Eitt af því sem þó stendur upp úr er íbúafundur í tengslum við Sterkar Strandir, sem var haldinn sl. miðvikudag.  Þar voru haldin erindi, farið yfir stöðu verkefna og markmið verkefnisins rædd í hópavinnu. 


Á íbúafundinum, var staðfest að stjórn Byggðastofnunar samþykkti áframhaldandi aðild Strandabyggðar að verkefninu og mun verkefnið Sterkar Strandir því halda áfram út árið 2024.  Við sendum stjórn Byggðastofnunar kærar þakkir fyrir þessa þessa ákvörðun.  Þetta eru mikil og góð tíðindi fyrir íbúa Strandabyggðar og það er rétt að hvetja íbúa Strandabyggðar nú til að koma fram með sínar viðskiptahugmyndir, á hvaða stigi sem þær eru, leita til verkefnastjóra Sterkra Stranda, Siguðar Líndal og þróa þær lengra. 

Á íbúafundinum kom líka fram, að augljósir vaxtarbroddar í atvinnulífi á Ströndum eru tengdir ferðaþjónustu, fiskeldi og jafnvel uppbyggingu þjóðgarðs.  Fjárfestingar í atvinnulífinu hafa gjarnan margföldunaráhrif í för með sér og það eru þessu margföldunaráhrif sem við verðum að nýta.  Við þurfum að byggja upp þekkingu og reynslu innan þeirra atvinnugreina sem fela í sér tækifæri framtíðarinnar.  Sterkar Strandir geta hjálpað okkur til þess.

 

Sértækur byggðakvóti

Stjórn byggðastofnunar ákvað einnig nýlega að, ef samningar næðust við hagsmunaaðila, væri hægt að úthluta 500 þorskígildistonnum af aflamarki stofnunarinnar til Strandabyggðar, á yfirstandandi fiskveiðiári, 2023/2024. Þarna eru tækifæri sem við verðum að reyna að nýta.  Hingað komu tveir fulltrúar Byggðastofnunar og áttu fundi með útgerðaraðilum og sjómönnum á Hólmavík.  Sértækur byggðakvóti er skilyrtur á þann hátt að honum ber að landa til vinnslu og verður mjög áhugavert að sjá hvort forsendur fyrir fiskvinnslu á Hólmavík séu til staðar eða ekki.

 

Önnur mál.

Í vikunni var haldinn sveitarstjórnarfundur, þar sem fram fór m.a. fyrri umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir 2024-2027, seinni og loka umræða um saming um Velferðarþjónustu Vestfirðinga undir leiðandi stjórn Ísafjarðarbæjar og fyrri umræða um viðauka sem heimilar visst valdframsal Strandabyggðar til Ísafjarðarbæjar vegna þessa samnings.  Þessi samningur um Velferðarþjónustu Vestfirðinga, snýr að umsjón barnaverndarmála og málefnum fatlaðra, eingöngu.  Félagsþjónusta Stranda, Reykhóla og Dalabyggðar mun sjá um alla almenna félagsþjónustu, sem fyrr.

Að auki var nokkuð um fundi með verktökum vegna endurbóta í grunnskólanum og komu verkefnastjórar í heimsókn í vikunni.  Allt þokast í rétt átt og engin stórvægileg vandamál hafa komið upp.  

Kveðja

Þorgeir Pálsson

oddviti

Niðurstöðir ungmennaþings Strandabyggðar

Bára Örk Melsted | 17. nóvember 2023

Ungmennaþing Strandabyggðar var haldið laugardaginn 4. nóvember síðastliðinn. Ungmennaþing er lýðræðislegur vettvangur þar sem öllum ungmennum í sveitafélaginu á aldrinum 14-25 ára, býðst að koma saman og ræða ýmis málefni sem brenna á ungu fólki hverju sinni og eru því umfjöllunarefni þinga eru ákveðin af ungmennum.
Á þessu þingi var umfjöllunarefnið kosning nýs ungmennaráðs. Ungmenaráð eru fulltrúar á aldrinum 13-25 ára sem eru kjörnir af ungmennaþingi til tveggja ára í senn, kosið er á hverju ári og er þá annað árið kosnir þrír fullrúar og tveir það næsta. Ungmennaráð hefur þann tilgang að gefa ungu fólki í sveitarfélaginu vettvang til aukinnar lýðræðislegrar þátttöku í samfélaginu. Ungmennaráð fundar reglulega og senda inn erindi og ályktanir til sveitarstjórnar. Þá hafa ungmennaráð seinustu ár staðið fyrir ýmsum viðburðum og verkefnum og tekið þátt í ýmsum fundum og ráðstefnum. Fulltrúar ungmennaráðs eru þá áheyrnarfulltrúar í nefndum sveitarfélagsins að velferðarnefnd undanskilinni.


Nýkjörið ungmennaráð er skipað eftirfarandi fulltrúum:
Unnur Erna Viðarsdóttir – Formaður
Jóhanna Rannveig Jánsdóttir – Áheyrnarfulltrúi fræðslunefndar
Þorsteinn Óli VIðarsson – Áheyrnarfulltrúi tómstunda-, íþrótta-, og menningarnefndar
Valdimar Kolka Eiríksson – Áheyrnarfulltrúi atvinnu-, dreyfbýlis-, og hafnarnefdar.
Elías Guðjónsson Krysiak – Áheyranrfulltrúi umhverfis- og skipulagsnefndar.

Varamenn:
Ólöf Katrín Reynisdóttir
Guðmundur Björgvin Þórólfsson
Kristbjörg Lilja Grettisdóttir
Við bjóðum nýkjörið ungmennaráð velkomið til starfa og hlökkum til samstarfs á komandi ári.

 

Starfsfólk í Félagsmiðstöðinni Ozon

Bára Örk Melsted | 17. nóvember 2023
« 1 af 2 »

Nýjir starfskraftar hafa nú tekið til starfa í félagsmiðstöðinni Ozon. Það eru þau Alexandar og Tóta, við bjóðum þau velkomin til starfa. 

Hér er stutt kynning á þeim: 

Ég heiti Aleksandar og ég er búinn að búa í fjögur ár á Hólmavík. Í landinu mínu Króatíu, hef ég unið á Þjóðskjalasafninu. Ég er með tvöfalt MA próf í hljóðfræði og skjalfræði frá Háskólanum í Zagreb, Króatíu. Áhugamálin mín eru bogfimi, badminton, borðtennis, bjórbruggun, pönukökkur og margt fleira. Mér finnst mjög gaman að búa á Ströndum.



Komið þið sæl og blessuð Þórey Hekla Ægisdóttir heiti ég en kölluð er Tóta. Ég er ný hér á Hólmavík en er út Dölunum. Ég ætla að sjá um OZON í vetur og langar mig smá að kynna mig. Ég er 23 ára hress og spræk dala skvísa, orkumikil og stór karakter Ég á 5 yngri systkin og er ég töluvert eldri en þau öll. Ég stundaði útivistarnám í 8 mánuði og elska að prufa nýja hluti. Núna síðustu þriðjudaga og fimmtudaga hef eg fengið þau forréttindi að kynnast börnunum ykkar og hlakkar mig mikið til að framkvæma hugmyndirnar sem við höfum komið með fyrir OZON. Endilega hvetjið börnin að mæta og vera með því fleiri því betra. Bestu kveðjur Tóta. 

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón