A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 06. nóvember 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaganna

Vikan byrjaði á fundi um yfirfærslu grunnskóla yfir til sveitarfélaga, en um 25 ár eru síðan það var gert.  Ég fylgdist með fundinum í streymi framan af og þar kom ýmislegt áhugavert fram.  Við (á Íslandi) erum með eitt dýrasta skólakerfi í OECD.  Hár kostnaður er þó ekki vegna launahækkanna kennara, heldur er stoðkerfið að vaxa, framleiðni í skólastafi dregst saman (OECD könnun) og mikill tími fer í samskipti kennara og foreldra. Einnig var rætt um árangur.  Hvað er árangur?  Og þá má spyrja; Hvað er námsárangur? Hvernig á að mæla hann?  Hugsanlega mætti mæla hann með því að spyrja;  inn í hvaða framhaldsskóla komast nemendur eftir grunnskólanám?  Inn í hvaða háskóla komast nemendur?  Og komast þeir í það nám sem þeir ætluðu sér?  Þetta þurfum við að vita hvað okkar nemendur varðar og mun fræðslunefnd Strandabyggðar skoða þetta í vetur.

 

Það er margt að breytast i skólastarfi á Íslandi þessa dagana.  Innleiðing laga um farsæld barna er t.d. ein breytingin sem var innleidd um áramót og fram kom á fundinum að innleiðingin gæti tekið allt að fimm ár.  Það eru blikur á lofti hvað námsgagnagerð vaðar, sérþjónustu, bið eftir greiningu, fjölgun starfsmanna í stoðþjónustu á kostnað kennara og spurt var hvaða áhrif fjölgun ófaglærðra starfsmanna hefði á nemendur.

 

Sveitarfélögin eiga að móta sína eigin stefnu, með sínum foreldrum og sínu umhverfi.  Þau verða að vera sterkari og verða að horfa á hvernig hægt er að gera skólakerfið betra. Framundan hjá okkur í Strandabyggð er lestur og greining á Menntastefnu Vestfjarða, sem Vestfjarástofa kynnti á Fjórðungsþingi í síðasta mánuði.  Þessa stefnu munum við nota til að endurskoða okkar eigin „Menntastefnu í Strandabyggð“.

 

Skipulagsmál

Áfram er unnið að endurgerð Aðalskipulagsins. Í liðinni viku var m.a. einblínt á aðkomu inn á svæðið við félagsheimilið og íþróttamiðstöðina og tók ég það mál upp á fundi með fulltrúum Vegagerðarinnar.  Við erum einnig að skoða uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla á bílastæðinu við Félagsheimilið. 

 

Hrekkjavaka

Hrekkjavaka fór fram í vikunni og tókst mjög vel, í frábæru veðri.  Slökkt var á ljósastaurum frá kl 18 til 21 sem gerði þetta allt meira spennandi.  Það var frábært að sjá hvað margir íbúar lögði mikinn metnað í skreytingar og ekkert vantaði upp á hugmyndaflugið.  Krakkarinr voru alsælir.

 

Fjárhagsáætlanagerð

Sveitarstjórn hélt vinnufund í vikunni og nú var einblínt á forsendur og áherslur hvað rekstarliðina varðar.  Þar var m.a. rætt um gjaldskrárbreytingar, breytingar á útsvari og fasteignaskatti o.s.frv.  Fjárhagsáætlun fer í fyrri umræðu á sveitarstjórnarfundi þann 14.11. n.k.

 

Starfrænt umhverfi sveitarfélaga

Ég sat fjarfund um stafræna umbreytingu sveitarfélaga en þar er mikil þróun í gangi.  Við í Strandabyggð tökum þátt í þessu verkefni sem er á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Á næsta ári verður farið í endurgerð heimasíðu sveitarfélagsins og stofnanna þess og þá þarf að taka tillit til þeirra stafrænu lausna sem í boðu eru.  Við munum sjá breytingu hvað öll samskipti við íbúa varðar, sem m.a. felur í sér gagnvirk samskipti, auðveldara umsóknarferli ofl.

 

Starfsmannamál

Eins og fram hefur komið, höfum við staðið frammi fyrir erfiðleikum við að manna nokkrar stöður hjá sveitarfélaginu.  Það hefur þó heldur snúist til betri vegar og í vikunni var t.d. gengið frá samningi varðandi deildarstjórastöðu í leikskólanum, komin er tímabundin lausn hvað varðar tónlistarkennara og einnig var formlega gengið frá ráðingu matráða við grunnskólann.  Sömuleiðis er kominn matráður í leikskólann.  Þetta er allt mjög gleðilegt en áfram leitum við hins vegar að þroskaþjálfa.

 

Að auki var vikan full af alls kyns samskiptum, vangaveltum og hugmyndavinnu sem miðar að því að gera Strandabyggð betra og öflugra sveitarfélag.

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti

 

 

 

 

Dýralæknir - Ormahreinsun hunda og katta.

Bára Örk Melsted | 03. nóvember 2023

Gísli Sverrir Halldórsson dýralæknir sinnir hreinsun á hundum og köttum fimmtudaginn 16 nóvember n.k. í Áhaldahúsinu milli kl. 16:00 og 18:00.

 

Gott væri ef hundaeigendur gætu komið á milli 16:00 og 17:00 kattaeigendur á milli 17:00 og 18:00. Hundar þurfa að vera í taumi og kettir í búri en einnig er í boði að sækja lyfin fyrir kettina á auglýstum tíma til Gísla.

 

Hunda og kattaeigendur í Strandabyggð, bæði þéttbýli og dreifbýli eru hvattir til að mæta og nýta sér þjónustuna.

 

Allir hundar og kettir innan þéttbýlis skulu skráðir og bera merkingar skv. reglugerð um hunda og kattahald sem finna má á vef Strandabyggðar.  Ný samþykkt um gæludýrahald í Strandabyggð tók gildi í maí 2022. Skylt er að færa hunda og ketti til hreinsunar árlega.

 

Þeir sem óska eftir annari dýralæknisþjónustu eða upplýsingum er velkomið að hafa samband við Gísla í síma 862 9005 á milli 9 og 11 alla virka daga eða á netfangið gissve@simnet.is

 

Vatnslaust í stutta stund vegna viðgerða-breyting

Salbjörg Engilbertsdóttir | 31. október 2023
Vegna viðgerða á vatnslögn í Miðtúni verður vatnslaust í stutta stund frá kl. 13:00

Vatnslaust í íbúðahverfi í túnum

Salbjörg Engilbertsdóttir | 30. október 2023
Góðan daginn

Vegna skyndilegrar bilunar í vatnslögn í Miðtúni verður vatnslaust eitthvað fram eftir degi. Unnið er að viðgerð


Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 29. október 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Tíminn líður hratt og enn ein vikan er liðin.

Sterkar Strandir

Þessi vika byrjaði á samráðsfundi með fulltrúum verkefnastjórnar Sterkra Stranda og verkefnastjóra og var þar farið yfir þau verkefni sem fram komu sem áhersluefni á íbúafundi í upphfi verkefnisins.  Mörg þessara verkefna eru afgreidd, önnur í farvegi en eitt og eitt er enn á byrjunarreit.  Og það er gjarnan þannig að sum þessara verkefna, eins og t.d. samgöngubætur og stærri innviðamál, eru í raun á borði stjórnvalda en ekki sveitarfélagsins.  Hlutverk sveitarfélagsins gagnvart þessum verkefnum er þá frekar að þrýsta á stjórnvöld um aðgerðir og sú vinna er stöðugt í gangi af hálfu sveitarfélagsins

Í byrjun nóvember tekur stjórn Byggðastofnunar fyrir beiðni Strandabyggðar um áframhaldandi aðild að Brothættum byggðumk og við skulum vona að niðurstaðan verði okkur hliðholl.  Á bak við þessa um sókn er amk samstíga sveitarstjórn og samfélag, því öll sjáum við án efa kostina við verkefnið.

Fjárhagsáætlanagerð

Unnið var áfram að gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2024 og næstu þrjú ár þar á eftir.  Sveitarstjórn hittist á vinnufundi í vikunni og ræddi áherslur næsta árs.  Sem fyrr er grunnskólinn þar ofarlega á blaði, en einnig leikskólalóðin, áframhaldandi malbikun og vinna við að bæta ásýnd bæjarins. 

Við stöndum frammi fyrir talsverðri innviðaskuld, sem við munum vinna á smátt og smátt, en það mun taka tíma og kalla á umtalsvert fjármagn.  Það er því mikilvægt að við skipuleggjum það verkefni vel og forðumst of mikla skuldsetningu sveitarfélagsins, nú þegar við erum á réttri leið hvað fjárhagslega uppbyggingu sveitarfélagsins varðar.

Heilbrigðisþjónusta og þjónustukjarni fyrir aldraða

Það gleymist oft í daglegu tali, en við hér í Strandabyggð eru það lánsöm að hér er nokkuð gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu.  Hér er ávallt læknir og mjög gott starfsfólk heilbrigðisstofnunarinnar.  En við skulum samt hafa það hugfast, að stöðugildum hefur fækkað á undanförnum árum og það er óásættanlegt.  Hér er ekki hjúkrunarfræðingur að staðaldri, meinatæknir eða full mönnuð heilbrigðisstofun.  Sveitarstjórn kom þessari stöðu á framfæri á nýliðnu Fjórðungsþingi.  Þessa staðreynd ræddi ég einnig við heilbrigðisráðherra á fundi okkar í vikunni.  Hann tók vel í okkar sjónarmið og við munum þrýsta á leiðréttingu hvað þetta varðar.

Við ræddum einnig þá hugmmynd, að í nýju íbúðarhverfi í Brandskjólum, verði þjónustukjarni fyrir aldraða.  Ráðherra leist mjög vel á þessa hugmynd og fellur hún vel að hugmyndafræðinni sem birtist í verkefninu „það er gott að eldast“  Upplýsingar um það verkefni má finna hér en þarna er um að ræða samþættingu margs konar þjónustu í þágu eldra fólks.  Og hér í Strandabyggð er öll grunnþjónusta til staðar til að styðja við svona þjónustukjarna;  heilbrigðisþjónusta, góð íþróttaaðstaða og sundlaug, öflugt félagsstarf eldri borgara o.s.frv.  Við munum vinna áfram með þessa hugmynd og getum sagt nánar frá henni á síðari stigum.

Ýmislegt annað

Það var ýmislegt annað áhugavert í vikunni;  kynningarfundur um sorpbrennslustöðvar, umræða um nýtingu sláturhússins og atvinnutækifæri í tengslum við það, við auglýstum eftir hugmyndingum um réttarstæði í Kollafirði, auglýst var eftir áhugasömum aðilum um snjómokstur í sveitarfélaginu ofl.

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón