A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sumarstörf í Strandabyggð - umsóknarfrestur til 18. apríl

| 07. apríl 2011
Sveitarfélagið Strandabyggð auglýsir eftir sumarstarfsfólki á eftirtalda starfsstaði sumarið 2011:
- Áhaldahús Strandabyggðar
- Íþróttamiðstöð Strandabyggðar
- Vinnuskóli Strandabyggðar

Leitað er að dugmiklu fólki með ríka þjónustulund sem hefur áhuga á að vinna að áframhaldandi þróun og uppbyggingu í Strandabyggð. Umsóknum skal skila á Skrifstofu Strandabyggðar að Höfðagötu 3, og er umsóknarfrestur til og með 18. apríl 2011. Einnig er hægt að senda umsóknir í tölvupósti á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is  Umsóknareyðublöð um störf hjá Strandabyggð má sjá neðst til hægri hér á síðunni.


ÁHALDAHÚS STRANDABYGGÐAR 
Áhaldahús Strandabyggðar auglýsir eftir starfsfólki sumarið 2011. Um fjölbreytt og skemmtileg verkefni er að ræða sem fara að mestu fram utandyra:
- Hreinsunarstarf og tiltekt
- Málningarvinna
- Vinna við slátt
- Aðstoð við Vinnuskóla Strandabyggðar
- Aðstoð við Hamingjudaga
- Önnur verkefni

Gerð er krafa um dugnað, sjálfstæð vinnubrögð, góð samskipti og ríka þjónustulund.
 

ÍÞRÓTTAMIÐSTÖÐ STRANDABYGGÐAR
Íþróttamiðstöð Strandabyggðar auglýsir eftir sumarstarfsfólki til að sinna eftirtöldum verkefnum:
- Afgreiðslu
- Baðvörslu
- Sundlaugarvörslu
- Þrifum
- Önnur verkefni

Í nýrri reglugerð nr. 818/2010 um hollustuhætti á sundstöðum kemur fram að starfsmenn sem sinna laugargæslu, sundkennarar og sundþjálfarar skulu hafa náð 18 ára aldri og árlega standast hæfnispróf skv. III viðauka reglugerðarinnar.
 

Gefa skal út prófskírteini ef viðkomandi stenst hæfnispróf.  Einnig er gerð krafa um gott viðmót, ríka þjónustulund og kunnáttu í erlendum tungumálum.

Umsækjendur á öllum aldri, líka yngri en 18 ára, geta sinnt öðrum störfum í Íþróttamiðstöðinni en sundlaugarvörslu og eru því allir hvattir til að sækja um.

VINNUSKÓLI STRANDABYGGÐAR
Vinnuskóli Strandabyggðar auglýsir eftir verkstjóra sumarið 2011. Í starfinu felast eftirfarandi verkefni:
- Yfirumsjón með verkefnum vinnuskólans 2011
- Verkstjórn yfir aðstoðarfólki
- Verkstjórn yfir ungmennum í 7. - 10. bekk
- Yfirumsjón og skipulagning verkefna
- Ábyrgð á verkfærum og innkaupum á vegum Vinnuskólans
- Samskipti og samstarf við starfsmenn Áhaldahúss, tómstundafulltrúa Strandabyggðar og íbúa á svæðinu.
- Annað sem til fellur 

Gerð er krafa um góð samskipti og góð tengsl við fólk á öllum aldri, sjálfstæð vinnubrögð, skipulagshæfni og þjónustulund. 
 

 

 


 

,,Ekkert meira, ekkert minna, bara sama og aðrir“

| 07. apríl 2011
Ögmundur Jónasson, mynd af BB.is
Ögmundur Jónasson, mynd af BB.is
Eftirfarandi frétt birtist á fréttavefnum BB.is í dag:

„Þyrftum öll að vera frá Trékyllisvík," er yfirskrift pistils sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skrifar um ferð sína og ríkisstjórnarinnar til Ísafjarðar í vikunni. Ögmundi er tírætt um fund ríkisstjórnarinnar og vestfirskra sveitarstjórnarmanna um málefni sem á landshlutanum brenna. „Þar loga svo sannarlega eldarnir í þeim skilningi að fólki hefur fækkað og þrengt hefur að sveitarfélögunum í seinni tíð," skrifar Ögmundur. „Við áttum hins vegar ekki samræður við beygt fólk. Því fór fjarri. Sjaldan hefur ég setið fundi með eins kraftmiklu fólki, bjartsýnu og innblásnu af lífsvilja. Hver ræðumaðurinn á fætur öðrum hreyfði við þeim sem á hlýddu með ígrunduðum og sannfærandi málflutningi og sagði fundarstjórinn í fundarlok, hinn gamalreyndi sveitarstjórnarmaður, Magnús Reynir Guðmundsson, eitthvað á þá leið að síst færi sveitarstjórnarmönnum aftur ef dæma skyldi af þessum fundi," segir Ögmundur.

„Rauði þráðurinn í málflutningi sveitarstjórnarfólks var öllum augljós: Við viljum sitja við sama borð og aðrir landsmenn í samgöngumálum, hvað varðar húshitunarkostnað, flutningskostnað. Ekkert meira, ekkert minna, bara sama og aðrir," skrifar Ögmundur.

Erindi Ingibjargar Valgeirdóttur, sveitarstjóra Strandabyggðar, varð ráðherranum að umhugsunarefni. „Margt var vel sagt á þessum fundi. Eftirminnileg eru orð Ingibjargar sveitarstjóra Strandabyggðar, sem minntist æskuára sinna í Trékyllisvík. Sú vík væri ekki smá í sínum huga, heldur stór og hefði farið vaxandi í vitund sinni eftir því sem á ævina hefði liðið og hún sjálf farið víðar um heiminn," skrifar Ögmundur og heldur áfram „Mér varð að umhugsunarefni við þessi orð hve margt er afstætt. Stór staður getur verið lítill í huga manns en lítil vík mikil um sig. [...] Í stórum löndum fæðist fólk í þéttbýli eða dreifbýli, upp til fjalla eða til sjávar. Uppruninn er ekki höfuðatriði heldur sýn okkar á hann, sjálfsvitund okkar. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll frá okkar Trékyllisvík. Aðeins að við komum auga á hana."

Í niðurlagi pistilsins segir Ögmundur: „Það sem Ingibjörg Strandakona og valkyrjurnar af Vestfjöðrum voru að segja - fyrirgefið strákar, þið voruð líka flottir - var ef til vill fyrst og fremst þetta: Við megum aldrei gleyma því að alls staðar býr í fólki hæfileikar og sköpunarkraftur. Á hann má ekki stíga. Hann verður að virkja og láta blómstra okkur öllum til góðs."

Pistil Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, má sjá hér.

Breyttur opnunartími í sundlauginni

| 05. apríl 2011

Nú er hafið skólasund hjá krökkunum í Grunnskólanum. Þetta þýðir að gestir sundlaugarinnar geta mætt kl. 16:00 í stað 18:00 mánudaga til fimmtudaga. Einnig er vert að benda á að barnasundlaugin hefur verið opnuð á ný eftir vetrardvala. Allir í sund.

Fjöldi gesta í vöffluveislu 1. apríl

| 02. apríl 2011
Opið hús og vöffluveisla 1. apríl.  Myndir IV.
Opið hús og vöffluveisla 1. apríl. Myndir IV.
« 1 af 9 »

Fjöldi gesta lögðu leið sína í opið hús og vöffluveislu í Þróunarsetrinu 1. apríl þar sem starfsfólk setursins og sveitarstjórn Strandabyggðar tók á móti gestum og kynntu aðstöðu og starfsemi. Sveitarfélagið Strandabyggð flutti nýverið skrifstofur sínar af Hafnarbraut 19 í Þróunarsetrið að Höfðagötu 3 og er nú með öfluga starfsemi á miðhæðinni. Í Þróunarsetrinu eru einnig starfsstöðvar Þjóðfræðistofu, Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, Menningarráð Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Verkalýðsfélag Vestfjarða og Náttúrustofa Vestfjarða. Ef einhver hefur haldið að um 1. aprílgabb væri að ræða og hætt við að koma þess vegna, þá er alltaf heitt á könnunni í Þróunarsetrinu og allir velkomnir!

Stóra upplestrarkeppnin að hefjast í Félagsheimilinu

| 31. mars 2011
Stóra upplestrarkeppnin á Ströndum og Reykhólum, verður haldin í Félagsheimilinu á Hólmavík og hefst klukkan 17:00, fimmtudaginn 31. mars. Um sannkallaða menningarhátíð er að ræða, keppendur eru 17 talsins, frá grunnskólunum á Hólmavík, Reykhólum, Drangsnesi og Borðeyri. Sérstakir gestir hátíðarinnar verða rithöfundurinn Þorsteinn frá Hamri og kona hans Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari og lesa þau upp og flytja tónlist. Nemendur úr Tónskóla Hólmavíkur verða einnig með tónlistaratriði. Fulltrúi Radda og formaður dómnefndar verður Baldur Sigurðsson dósent í íslensku á Menntavísindasviði HÍ. Sparisjóður Strandamanna gefur verðlaun í keppninni og foreldrafélag Grunnskólans á Hólmavík sér um kaffiveitingar að keppni lokinni.

Frétt af vefnum www.strandir.is
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón