A A A

Valmynd

Fréttir

Hamingjuhlaupið 2015

| 18. júní 2015

Í Hamingjuhlaupinu 2015 verður hlaupið úr Reykhólasveit norður Laxárdalsheiði, um Kerlingaskarð niður í Þiðriksvalladal, inn fyrir Þiðriksvallavatn og síðan niður dalinn og sem leið liggur til Hólmavíkur. Hlaupið hefst um það bil miðja vegu milli bæjanna Gillastaða og Klukkufells, nánar tiltekið um 8 km vestan við vegamótin sunnan við Þröskulda. Leiðin öll er um 35 km og fer hæst í um 590 m hæð.

 

Hlaupið er ekki keppnishlaup, heldur halda hlaupararnir yfirleitt hópinn og fylgja fyrirfram gerðri tímaáætlun. Ekki er þörf á að skrá sig í hlaupið. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa alla leiðina geta sem best slegist í hópinn á fyrirfram ákveðnum áningarstöðum í hlaupinu, t.d. innan við Þiðriksvallavatn. Fært er á fjórhjóladrifnum bílum inn að Vatnshorni, en þaðan eru um 8,4 km til Hólmavíkur. Stórir jeppar komast e.t.v. lengra inn dalinn, alla leið inn á móts við Grímsdal. Slóðin þangað er hins vegar nokkuð sundurskorin og býsna blaut enn sem komið er.

 

Hamingjuhlaupið 2015 hefst á fyrrnefndum stað í Reykhólasveit laugardaginn 27. júní kl. 9:45 og lýkur við hátíðarsvæðið á Klifstúni á Hólmavík stundvíslega kl. 15:00. Nánari upplýsingar um hlaupið er að finna á hlaup.is (http://www.hlaup.is/displayer.asp?cat_id=5&module_id=220&element_id=26387). Nákvæmari lýsing á leiðinni verður sett inn á bloggsíðu Stefáns Gíslasonar, http://stefangisla.com, að kvöldi þriðjudagsins 23. júní. 

Hamingjan 2015

| 15. júní 2015

Nú er dagskrá Hamingjudaga 2015 að verða tilbúin.
Að þessu sinni verður ekki varðeldur á Kópnesi en útitónleikar og brekkusöngur á Klifstúni/Hvamminum í staðin. 

Hamingjutónar verða á sínum stað og kynnar verða Ingibjörg Benediktsdóttir og Kristín Sigurrós Einarsdóttir. Hljómsveitin Bandura band stígur á stokk á laugardag en meðlimir hljómsveitarinnar bjóða einnig upp á trommunámskeið á föstudag og laugardag. Bangoura Band er níu manna sveit sem var spilar afrobeat, Afro jazz, mandingue og funk tónlist.

Dagskráin er glæsileg en meðal annars mun Jón Jósep Snæbjörnsson (í svörtum fötum) verða með útitónleika fyrir alla fjölskylduna föstudagskvöldið 26. júní. Leikhópurinn Lotta sýnir Litlu gulu hænuna kl 14:00 á laugardeginum. Gunnar Þórðarson verður með tónleika í Bragganum á laugardagskvöldið og Hemúllinn heldur tónleika á Resturant Galdri. Heimamenn munu einnig stíga á stokk skemmta gestum ásamt kassabílarally, myndlistasýningum, fyrirlestri, kökuhlaðborði og fleiru.

Café Riis verður með fiskihlaðborð á föstudagskvöld, steikarhlaðborð á laugardagskvöld og brunch á sunnudagsmorgun. Fiskurinn á Resturant Galdri klikkar ekki að ógleymdu kaffi og meðlæti. Útimessa í Tröllatungu, fótboltamót og furðuleikar á Sauðfjársetrinu á sunnudeginum.

Alltaf líf og fjör á Hólmavík

Sölubás á Hamingjudögum

| 09. júní 2015

Eins og undanfarin ár býðst áhugasömum aðilum að selja varning á sölubásum á Hamingjudögum laugardaginn 28. júní frá kl. 13:00-17:00. Hverjum bás fylgir eitt borð og aðgangur að aukaborði og rafmagni ef með þarf.

Nú þegar hafa nokkrir aðilar skráð sig með sölubás en söluaðilar á Ströndum eru eindregið hvattir til að láta vita af sér tímanlega.
Tekið er við skráningum á sölubása til þriðjudagsins 23. júní. Vinsamlegast látið vita sem allra fyrst í netfangið ingibjorgben@strandabyggd.is eða í s. 663 0497 

Hverfisfundir

| 08. júní 2015

Hamingjudagar nálast og nú höldum við hverfisfundi fimmtudaginn 11. júní.

Hafist verður handa með fundi i Bláa hverfinu í Hnyðju kl 17:00, næst fundar Appelsínugula hverfið í Grunnskólanum kl 18:00 og loks fundar Rauða hverfið í Félagsheimilinu kl 19:00. Gula hverfið fundar í Sauðfjársetrinu kl 20:00.

Bláa hverfið er gamli bærinn að Klifi (að kirkjunni), Appelsínugula hverfið nær frá Klifi út að Sýslumannshalla, Rauðahverfið nær frá Sýslumannshalla ú að vegamótum. Gula hverfið tilheyrir dreifbýlinu.

Fyrirtæki tilheyra einnig hverfum og forsvarsmenn þeirra eru hvött til að mæta á hverfafund.

Hamingjustýra mætir á fundina og svarar spurningum og tekur við hugmyndum.

Mætum öll í okkar hverfi með hamingju og gleði í hjarta

Ham(l)ist á Hamingjudögum

| 08. maí 2015
Hljómsveitin Rythmatik kom fram á Hamingjudögum í fyrra undir svipuðum formerkjum og sigruðu músíktilraunir í ár.
Hljómsveitin Rythmatik kom fram á Hamingjudögum í fyrra undir svipuðum formerkjum og sigruðu músíktilraunir í ár.
Ungmennaráð Strandabyggðar og Fjósið, ungmennahús, standa fyrir nýstárlegu og spennandi verkefni á Hamingjudögum í sumar.

Um er að ræða vinnusmiðju ungs listafólks og skemmtikrafta á Vestfjörðum og tækifæri fyrir viðkomandi að koma fram á Hamingjudögum.

Óskað er eftir umsóknum ungra einstaklinga sem hafa áhuga á að koma list sinni eða afþreygingu á framfæri. Hér er allt opið; tónlist, leiklist, dans, myndlist, leikir, ævintýri og hvað sem er. Eina skilyrðið er að þú hafir eitthvað fram að færa og hafir áhuga á að vinna með ungu fólki sem hefur það líka.

Ungmennaráð Strandabyggðar tekur við umsóknum þar sem fram koma sýnishorn og/eða nákvæmar skýringar á því sem þú/þið hafið áhuga á að framkvæma. Farið verður yfir umsóknirnar og þau atriði eða uppákomur valdar sem þykja hafa mest fram að færa, hafa samhljóm við hátíðina og auka fjölbreytnina. En að hámarki fjögur atriði fá að taka þátt að þessu sinni.

Þátttakendur fá akstursstyrk og frítt fæði og uppihald meðan á hátíðinni stendur auk þess að fá tækifæri til að koma fram og að starfa með ungu listafólki á Vestfjörðum í vinnusmiðjunni. Verið er að fjármagna verkefnið og ef að styrkveitingar fást mun viðkomandi vera greidd laun fyrir sitt framlag.

Reglurnar eru einfaldar: Þú/þið teljið ykkur vera ung, búið á Vestfjörðum og hafið áhuga á að vinna með Vestfirðingum sem eru að gera spennandi hluti sem og að fá tækifæri til að taka virkan þátt með ykkar framlagi á Hamingjudögum.

Umsóknir berist á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is í síðasta lagi miðvikudaginn 20. maí.

Leikhópurinn Lotta

| 23. apríl 2015
,,Í þessu verki hefur höfundurinn, Anna Bergljót Thorarensen, fléttað saman tveimur þekktum ævintýrum. Við erum þá annars vegar að tala um Litlu gulu hænuna og hins vegar Jóa og baunagrasið. Baldur Ragnarsson semur söngtexta og mun hann ásamt Birni Thorarensen og Rósu Ásgeirsdóttur semja lögin í sýningunni. Andrea Ösp Karlsdóttir og Sigsteinn Sigurbergsson liggja síðan um þessar mundir yfir leikmyndinni sem eins og gefur að skilja er að valda þeim töluverðum höfuðverk. Hvernig lætur maður baunagras vaxa alla leið upp til skýja þegar maður sýnir undir berum himni?"...
Meira

Hamingjudagar árið 2015

| 12. mars 2015
Hamingjudagar verða haldnir hátíðlegir á Hólmavík og nágrenni 26.-28. júní næstkomandi.

Þetta árið höldum við fast í ákveðnar hefðir en beytum einnig út af vananum, enda veitir það takmarkaða hamingju að staðna í gömlum hefðum.

Helsta breytingin verður sú að ekki verður skipulagður dansleikur á vegum sveitarfélagsins. Það er ekki svo að skilja að ekkert verði um stuð að kvöldi til. Þvert á móti opnar þetta möguleika fyrir ýmsa smærri viðburði fram eftir kvöldi sem höfða til breiðari hóps og veitir skipuleggjendum færi á að einbeyta sér betur að öðrum þáttum hátíðarinnar og gleðja jafnvel enn fleiri. Jafnframt skapar þetta tækifæri fyrir sjálfstæða aðila sem ef til vill vilja standa fyrir kvöldskemmtunum, opnunum, dansleikjum eða því líku.

Áhugasamir um að koma fram á hátíðinni eða leggja henni lið með einum eða öðrum hætti eru beðnir um að setja sig í samband við tómstundafulltrúa.

Þið hin, takið helgina frá, okkur hlakkar til að njóta hennar með ykkur.

Kassabílarallý 2014

Salbjörg Engilbertsdóttir | 02. júlí 2014
Marinó og Kristinn Jón í startholunum
Marinó og Kristinn Jón í startholunum
« 1 af 2 »
Kassabílarallýið er einn af föstum liðum á Hamingjudögum og veitir mörgum gleði og hamingju.  Áhaldahúsið sá um kassabílasmiðju í vikunni fyrir keppnina þar sem krakkar gátu mætt ásamt fjölskyldu sinni og smíðað eða endurbætt kassabíl.

Marinó Helgi Sigurðsson var sigurskarpastur í rallýinu að þessu sinn og Kristinn Jón Karlsson fékk verðlaun fyrir frumlegasta bílinn.  Verðlaunahafar fengu glæsileg verðlaun frá pakkhúsi Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík og Partýbúðinni og kunnum við styrktaraðilum bestu þakkir fyrir og óskum piltunum til hamingju með sigurinn.

Hnallþórukeppnin

Salbjörg Engilbertsdóttir | 02. júlí 2014
Flottasta kakan
Flottasta kakan
« 1 af 5 »

Að venju var Hnallþóruborðið okkar á Hamingjudögum stútfullt af girnilegum kökum sem gestir gæddu sér á eftir að sigurkökurnar höfðu verið valdar.  Að þessu sinni var fagurlega skreytt kaka Heidrunar Scher valin flottasta kakan. Guðrún Margrét Jökulsdóttir bakaði "hamingjusömustu kökuna" og Svanhildur Vilhjálmsdóttir og Ragnheiður H. Gunnarsdóttir áttu "girnilegustu kökuna".  

Við þökkum öllum þeim sem buðu upp á kökur á hlaðborðinu og jafnframt styrktaraðilum sem gáfu glæsileg verðlaun, Kornax, Sölku bókaforlagi, Partýbúðinni og  O.Johnson og Kaaber.

Takk fyrir og til hamingju

| 01. júlí 2014
Nú er Hamingjudögum árið 2014 lokið. Það er óhætt að fullyrða að hátíðin hafi gengið vel þetta árið þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi ekki verið okkur eins hliðhollir og spár höfðu gefið til kynna. Mætingin var góð, gleðin var við völd og allt gekk stórslysalaust fyrir sig, enda hamingjan í fyrirrúmi.

Breytingar á hátíðinni virtust mælast vel fyrir, en brenna á föstudagskvöldi, aðaldagskrá að degi til og sveitadagskrá á sunnudegi með messu utandyra voru nýjungar sem vöktu jákvæð viðbrögð. Sýningarnar voru einnig til fyrirmyndar sem og allt það listafólk sem steig á stokk.

Hátíð sem þessi getur ekki orðið að veruleika nema með dyggum stuðningi fyrirtækja sem ýmist veita til hennar fjárhagslegan stuðning eða vinninga eða halda jafnvel sjálfstæða viðburði. Takk kærlega fyrir okkur styrktaraðilar.

Mestar þakkir eiga íbúar Strandabyggðar þó skilið. Íbúarnir leggjast á eitt fyrir að gera þessa hátíð jafn einstaka og raun ber vitni. Takk fyrir hjálpina og til hamingju með árangurinn.
Eldri færslur

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón