A A A

Valmynd

Fréttir

Hamingjuhlaupið 2015

| 18. júní 2015

Í Hamingjuhlaupinu 2015 verður hlaupið úr Reykhólasveit norður Laxárdalsheiði, um Kerlingaskarð niður í Þiðriksvalladal, inn fyrir Þiðriksvallavatn og síðan niður dalinn og sem leið liggur til Hólmavíkur. Hlaupið hefst um það bil miðja vegu milli bæjanna Gillastaða og Klukkufells, nánar tiltekið um 8 km vestan við vegamótin sunnan við Þröskulda. Leiðin öll er um 35 km og fer hæst í um 590 m hæð.

 

Hlaupið er ekki keppnishlaup, heldur halda hlaupararnir yfirleitt hópinn og fylgja fyrirfram gerðri tímaáætlun. Ekki er þörf á að skrá sig í hlaupið. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa alla leiðina geta sem best slegist í hópinn á fyrirfram ákveðnum áningarstöðum í hlaupinu, t.d. innan við Þiðriksvallavatn. Fært er á fjórhjóladrifnum bílum inn að Vatnshorni, en þaðan eru um 8,4 km til Hólmavíkur. Stórir jeppar komast e.t.v. lengra inn dalinn, alla leið inn á móts við Grímsdal. Slóðin þangað er hins vegar nokkuð sundurskorin og býsna blaut enn sem komið er.

 

Hamingjuhlaupið 2015 hefst á fyrrnefndum stað í Reykhólasveit laugardaginn 27. júní kl. 9:45 og lýkur við hátíðarsvæðið á Klifstúni á Hólmavík stundvíslega kl. 15:00. Nánari upplýsingar um hlaupið er að finna á hlaup.is (http://www.hlaup.is/displayer.asp?cat_id=5&module_id=220&element_id=26387). Nákvæmari lýsing á leiðinni verður sett inn á bloggsíðu Stefáns Gíslasonar, http://stefangisla.com, að kvöldi þriðjudagsins 23. júní. 

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón